Fallinn með 4,9 - en næ samt!

Fallinn með 4,9 - en næ samt!

Grunnskólar eru líka byrjaðir að starfa og þar eru börnin við nám. Öll munum við skóladagana, munum fyrsta skóladaginn. Sum okkar og vonandi flest eigum góðar minningar frá skólagöngu okkar, önnur eiga þaðan slæmar minningar, minningar um einelti og mótlæti.

Hægt er að hlusta á upptöku af ræðunni þar sem presturinn tók meira að segja lagið (!).  Slóðin er á bak við þessa smellu. Skólar eru að fyllast í landinu. Í Morgunblaðinu er sagt frá aukinni aðsókn að háskólum landsins og aukningin er mest í svokölluðum húmanískum greinum, eða þeim sem fjalla um manninn, manneskjuna.

Grunnskólar eru líka byrjaðir að starfa og þar eru börnin við nám. Öll munum við skóladagana, munum fyrsta skóladaginn. Sum okkar og vonandi flest eigum góðar minningar frá skólagöngu okkar, önnur eiga þaðan slæmar minningar, minningar um einelti og mótlæti. Því miður. En öll eigum svo við minningar um eftirvæntingu eða kvíða fyrir því að fá einkunnir í einstökum prófum eða um heildar árangur heils vetrar. Og sum hafa fallið á einstökum prófum eða eftir heilan vetur og aðrir aldrei lokið því sem ætlað var að klára.

Og svo er það lífsins skóli. Hvernig gengur námið þar? Hverjar eru einkunnirnar? Í þeim efnum erum við sjálf einkunnargjafarnir og kannski samferðafólk okkar. Hver er árangurinn? Já, hver er árangurinn í ljósi orða Jesú: Verið fullkomin eins og faðir yðar himneskur er fullkominn. Og þá segir ég nú bara: Úff! Úff! Ég er fallinn.

Fallinn. Með fjóra komma níu. Eitt skelfilega skiptið enn. Fallinn og útskúfaður maður. Er ég ekki eins og aðrir menn?

Ég er að horfa út um gluggann minn, á alla þá sem fengu fimm. Og ég les og ég les í sól og sumaryl. Því ég verð að ná í næsta sinn. (Úr Fallinn eftir Stefán S. Stefánsson)

Já, hvenær náum við þessu prófi Guðs um að elska aðra menn og elska jafnvel óvini okkar? Er það hægt? Er það í raun og veru hægt?

Páll postuli glímdi við eigin breyskleika. Hann segir frá því í Rómverjabréfinu sem er magnað bréf og fjallar að mestu um réttlæti Guðs. Í 7. kaflanum lýsir hann því yfir að hann langi að gera hið góða en hið illa nái svo oft yfirhendinni:

„Hið góða, sem ég vil, geri ég ekki en hið vonda, sem ég vil ekki, það geri ég.“ (Rm 7.19)
Kannastu við þessa glímu? Og ég spyr: Hefur maðurinn eitthvað breyst í tvöþúsund ár og jafnvel þótt lengra væri leitað? Páll féll, hann kolféll. Hann náði ekki einu sinni 4,9 fremur en við. Og hvað er þá til ráða? Hver er staða okkar í veröldinni? Við erum fallistar, við erum fallnir syndarar eins og hinn fyrsti maður. „Adams er eðli runnið í mitt náttúrlegt hold“, kvað séra Hallgrímur. Þetta vissi Páll postuli og hann lét ekki staðar numið í 7. kaflanum heldur hélt áfram og þar kemur lausnin. Hún er í Kristi.

Ég get það ekki einn en ég get það með Kristi.

Ég get ekki lifað af eigin mætti en ég get það með Kristi.

Ég get ekki elskað vonda menn af eigin mætti en ég get það með Kristi.

Ég get ekki fyrirgefið þeim af eigin mætti sem settu Ísland á höfuðið, en ég get það með Kristi.

Með Kristi er enginn fallinn, hér ná allir prófum - með Kristi. Lífið fullkomnast með og í Jesú Kristi. Í dag er dagur líknarþjónustu kirkjunnar sem kölluð er díakónía en það er komið úr grísku og merkir þjónusta. Orði djákni er samstofna á grísku, diakonos, og merkir í kirkjulegu samhengi safnaðarþjónn og vísar einkum til þeirra sem vinna líknarstörf á vegum kirkjunnar. Ég þjónaði eitt sinn sem djákni áður en ég varð prestur. En líknarstörf og vitnisburður um Krist er ekki bar í höndum vígðra þjóna heldur okkar allra sem erum vígð í skírninni til almenns prestsdóms, til að bera Guði vitni og elska náungann.

Ísland er í sárum, íslensk þjóð er sjúk.

Nú þarf að lækna Ísland, íslensk þjóð þarfnast líknandi handa.

Þú getur læknað - með Kristi og kærleika hans.

Merkilegt hvernig texti lexíunnar úr Jesaja ritinu setur jafnaðarmerki milli elsku og hamingju.

Ef þú hættir allri undirokun þín á meðal, hættir hæðnisbendingum og rógi, réttir hungruðum það sem þig langar sjálfan í og seður þann sem bágt á, þá rennur ljós þitt upp í myrkrinu og niðdimman kringum þig verður sem hábjartur dagur. Drottinn mun stöðugt leiða þig, seðja þig í skrælnuðu landi og styrkja bein þín. Þú munt líkjast vökvuðum garði, uppsprettu sem aldrei þrýtur.
Merkilegt þetta samhengi milli þess að gera rétt og að líða vel. Og það er svo mikið einkenni á samtímanum að fólk er svo upptekið af sjálfu sér og horfir stöðugt og sjálft sig og segir: Ég þarf að hugsa um mína hamingju og mína heill. En lausnin í lífinu er að hugsa um hamingju annarar og lausn þeirra og þá verðum við hamingjusöm. Við verðum aldrei hamingjusöm ef við hugsum bara um eigin hag. Og í þessum texta sem ég las þá er elskan til náungans og umhyggjan eins og eldsneyti sem nærir ljósið og gerir allt bjart. Hvernig getum við eflt ljósið í lífi okkar og á Íslandi? Með því að tala fallega, hætta að gagnrýna á hæðinn hátt og gera lítið úr öðrum, með því að hjálpa þeim sem eiga bágt eða bágara en við, með því að elska. Þá verður bjart yfir okkur og fagurt. En þá þarf líklega að loka sumum fjölmiðlum sem gera lítið annað en dreifa mykju um móa mannlífsins. Ég ætla ekki að nefna neina fjölmiðla í þessu sambandi. Þið vitið hverja ég á við, bæði á öldum ljósvakans og á prenti.

Og þá spyrja líklega sumir í þessu samhengi: Má þá aldrei gagnrýna? Eigum við aldrei að stinga á kýlum? Jú, við verðum að halda áfram umræðu og takast á um mál, ræða þau í þaula, skiptast á skoðunum, veita aðhald og berjast fyrir réttlæti og segja sannleikann, segja sannleikann í kærleika. Við megum aldrei leggja af að tala um sannleikann og réttlætið en við þurfum að temja okkur að gera það á uppbyggilegan hátt í anda Krists og kærleika hans. Það er vilji Guðs. Og þetta þarf ég að reyna að læra. Ég þarf að æfa mig í þessu.

[Sagan var sögð eftir minni í messunni en hér er texti með sömu sögu]

Til er saga frá Bandaríkjunum. Hún gerðist í smábæ. Þar var þjónandi prestur eins og vera ber og þar bjó líka blökkumaðurinn sem var hvers manns hugljúfi. Hann átti smá jarðarskika og lítið kot. Börn hændust að honum og höfðu gert alla tíð. Hann kenndi þeim að veiða í skóginum og fiska í ánni. Þau léku hjá honum og hann var þeim góður. Hann hafið búið þarna alla sína tíð og hélt áfram heimili eftir að konan hans dó. Þá komust menn það því að þarna á skikanum hans væru verðmæti í jörðu. Kopar-æð var sögð liggja í gegnum jörðina og undir húsinu hans. Fram komu menn sem vildu kaupa af honum staðinn en hann vildi hvergi fara og hafði engan sérstakan áhuga á peningum. Hann vildi bara fá að lifa í friði og halda áfram sínu góða og gefandi lífi. Eins og við vitum getur hlaupið illt í menn þegar peningar eru annars vegar. Þeir urðu gráðugri og gráðugri en allt kom fyrir ekki, karl vildi ekki selja. Að lokum hótuðu þeir að hengja hann ef hann vildi ekki selja. Og kvöld eitt voru þeir mættir með reipið. Illir á svip með hatur í hjarta stóðu þeir fyrir utan heimili blökkumannsins. Þá kom presturinn út á veröndina og ávarpaði hópinn og sagði: Hann John bað mig að tala til ykkar. Hann veit að hann mun deyja í kvöld en áður en það verður vill hann að þið heyrið erfðaskrá hans. Erfðaskrá á ensku heiti „will“ eða vilji. Hann vildi segja þeim vilja sinn. Prestur hélt áfram og sagði: Bill, hann vill að þú fáir veiðistöngina því hann gleymir aldrei þegar þú veiddir fyrsta silunginn þinn á hana. Og þú, Ted, átt að fá riffilinn því þú kenndir honum að skjóta. Biblíuna og bækurnar vill hann að þú fáir, Josh, því þú kenndir honum að lesa. Og þannig hélt prestur áfram að deila út eigum Johns. Einn af öðrum urðu þeir sneyptir, slökuðu á í öxlum, urðu niðurlútir og héldu á brott. Þegar þeir voru allir farnir heim kom barnabarn Johns sem hafði staðið álengdar frá á bak við runna og sagði: Afi, hvers konar erfðaskrá eða vilji var þetta nú eiginlega? Og afi svarði og sagði: Þetta var vilji Guðs, barnið mitt, vilji Guðs.

Amen.

Vers vikunnar:  Kristur segir: „Allt sem þér gerðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gert mér.“ (Matt 25.40b)

Kollekta:  Almáttugi, eilífi Guð: Auk oss trú, von og kærleika. Lát oss elska það, sem þú býður, að vér öðlumst það, sem þú hefur heitið oss. Fyrir son þinn Jesú Krist, Drottin vorn, sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.

Ritningarlestrar - Textaröð:  B

Lexía:  Jes 58.6-12

Nei, sú fasta sem mér líkar er að leysa fjötra rangsleitninnar, láta rakna bönd oksins, gefa frjálsa hina hrjáðu og sundurbrjóta sérhvert ok, það er, að þú miðlir hinum hungruðu af brauði þínu, hýsir bágstadda, hælislausa menn og ef þú sérð klæðlausan mann, að þú klæðir hann og firrist ekki þann sem er hold þitt og blóð. Þá brýst ljós þitt fram sem morgunroði og sár þín gróa skjótt, réttlæti þitt fer fyrir þér en dýrð Drottins fylgir eftir. Þá muntu kalla og Drottinn svara, biðja um hjálp og hann mun segja: „Hér er ég.“ Ef þú hættir allri undirokun þín á meðal, hættir hæðnisbendingum og rógi, réttir hungruðum það sem þig langar sjálfan í og seður þann sem bágt á, þá rennur ljós þitt upp í myrkrinu og niðdimman kringum þig verður sem hábjartur dagur. Drottinn mun stöðugt leiða þig, seðja þig í skrælnuðu landi og styrkja bein þín. Þú munt líkjast vökvuðum garði, uppsprettu sem aldrei þrýtur. Menn þínir munu endurreisa hinar fornu rústir, þú munt reisa við undirstöður fyrri kynslóða og þú verður nefndur: múrskarðafyllir, sá sem reisir byggð úr rústum.
Pistill:  1Kor 13.1-7
Þótt ég talaði tungum manna og engla en hefði ekki kærleika væri ég hljómandi málmur eða hvellandi bjalla. Og þótt ég hefði spádómsgáfu og vissi alla leyndardóma og ætti alla þekking og þótt ég hefði svo takmarkalausa trú að færa mætti fjöll úr stað en hefði ekki kærleika, væri ég ekki neitt. Og þótt ég deildi út öllum eigum mínum og þótt ég framseldi líkama minn til þess að verða brenndur en hefði ekki kærleika, væri ég engu bættari. Kærleikurinn er langlyndur, hann er góðviljaður. Kærleikurinn öfundar ekki. Kærleikurinn er ekki raupsamur, hreykir sér ekki upp. Hann hegðar sér ekki ósæmilega, leitar ekki síns eigin, hann reiðist ekki, er ekki langrækinn. Hann gleðst ekki yfir óréttvísinni en samgleðst sannleikanum. Hann breiðir yfir allt, trúir öllu, vonar allt, umber allt.
Guðspjall:  Matt 5.43-48
Þér hafið heyrt að sagt var: Þú skalt elska náunga þinn og hata óvin þinn. En ég segi yður: Elskið óvini yðar og biðjið fyrir þeim sem ofsækja yður. Þannig sýnið þér að þér eruð börn föður yðar á himnum er lætur sól sína renna upp yfir vonda sem góða og rigna yfir réttláta sem rangláta. Þótt þér elskið þá sem yður elska, hver laun eigið þér fyrir það? Gera ekki tollheimtumenn hið sama? Og hvað er það þótt þér heilsið bræðrum yðar og systrum einum? Það gera jafnvel heiðnir menn. Verið því fullkomin eins og faðir yðar himneskur er fullkominn.