Umburðarlyndi í trúmálum- lykillinn að friði á 21. öld

Umburðarlyndi í trúmálum- lykillinn að friði á 21. öld

"Með því að leggja áherslu á hið jákvæða og mannbætandi afl sem öll trúarbrögð sækja kraft sinn til geta trúaðir einstaklingar lagt sitt af mörkum."
fullname - andlitsmynd Þórhallur Heimisson
16. febrúar 2012

I.

Í bókaskápnum heima hjá mér geymi ég gamalt og snjáð myndaalbúm sem mér þykir ákaflega vænt um. Það varð til fyrir einum 28 árum þegar ég dvaldi einn vetur í Danaveldi við leiklistarnám. Í Danmörku komst ég í kynni við friðarsinna sem börðust gegn Pershing-kjarnorkueldflaugum Bandaríkjamanna sem Nató þá var að sýsla við að setja upp í Evrópu. Við fórum í mótmælagöngur og settum meira að segja upp útileikrit gegn þessum friðarspillum. SS 20 eldflaugum Sovétmanna var mótmælt á sama hátt. Þessi kynni urðu til þess að ég fór frá Danmörku til Finnlands að ræða friðarmál við finnska unglinga. Og þar varð sem sagt til þetta myndaalbúm. Í albúminu er að finna mynd sem ég tók af dómkirkjunni í Helsinki þar sem félagar mínir höfðu safnast saman til einhverrar uppákomunnar sem ég man ekki lengur hver var. En undir myndina af dómkirkjunni hef ég skrifað „Sic Transit Gloria Mundi“ – eða svo hverful er heimsins dýrð. Á síðari hluta tuttugustu aldar var þetta sem ég páraði undir myndina af dómkirkjunni í Helsinki nokkuð ríkjandi tilfinning gagnvart trúarbrögðunum. Tími trúarbragðanna og áhrif voru liðin, töldu menn, og kæmi aldrei aftur.

II.

Þetta var ríkjandi kenning kynslóðar sem var alin upp við guðleysisboðun kommúnismans, tæknihyggjunnar og kapítalismans. Stór hluti jarðarbúa laut á þessum árum stjórnaröflum sem höfnuðu átrúnaði. Í Kína og Sovétríkjunum og í leppríkjum þeirra var predikað gegn trú í sérhverri mynd. Trúarleiðtogar voru drepnir, sendir í útlegð og niðurlægðir. Kirkjum og moskum var breytt í salerni. Um hinn vestræna heim predikuðu menntamenn gegn trúarbrögðunum og hæddust að þeim. Vesturlönd kepptust við að styðja einræðisherra um víða veröld í kapp við kommúnistaveldin. Og þegar æskan reis upp á Vesturlöndum gegn hernaðarhyggju og neysluhyggju var það ekki undir merkjum trúarbragðanna. Tómhyggja og póstmódernísk afstæðishyggja riðu húsum. III.

Svo breyttist þetta allt á einni nóttu. Nánar tiltekið þann 9. nóvember árið 1989. Þegar múrinn féll í Berlín og lýðurinn austur þar, sem hafði verið undir járnhæl kommúnista allt frá endalokum síðari heimsstyrjaldar og nasista þar áður, streymdi yfir til bræðra sinna og systra vestan megin. Og þegar spilaborg Sovétríkjanna hrundi kom í ljós að andlát trúarbragðanna hafði verið gróflega ofmetið. Það voru grísk-ortódoxu kirkjurnar sem fylltust af fagnandi fólki þegar kommúnisminn var afnuminn í Rússlandi eftir 90 ára þrotlausa baráttu ríkisins gegn kirkjunni. Þrotlausa og vægðarlausa þar sem öllum meðulum var beitt. En umfram allt voru það mújahedín-skæruliðarnir í Afganistan sem knésettu þetta veldi myrkursins eins og Reagan forseti kallaði það. Og það gerðu þeir í nafni íslams. IV.

Íslam hafði reyndar þegar skekið hinn pólitíska heim Mið-Austurlanda þegar hér var komið. Hin íslamska bylting sem Khomeini leiddi í Íran árið 1978 kom Vesturlöndum og kommúnistaheiminum algerlega í opna skjöldu. Byltingin var gerð undir fánum shía-múslíma í nafni trúarinnar og hið sama gilti um styrjöldina sem var háð við Írak árin 1980-1991. V.

Eftir 1989 komst í tísku að slá um sig með trú og stjórnmálaleiðtogar voru fljótir að nýta sér það. Nú var aftur barist í nafni trúar. Sem oft áður var átrúnaðurinn notaður sem skálkaskjól fyrir pólitíska ævintýramennsku og þjóðernishyggju. Fræðimenn fóru að tala um að næsta heimsstyrjöld yrði háð milli trúarbragða og menningarheilda sem þeim fylgdu. Frægasti spámaður þessarar kenningar var Samuel P. Huntington með bókinni Clash of Civilisations sem út kom 1996. Gagnrýnendur hans hafa aftur á móti bent á að kenningin um átök menningarheilda sé barnaleg einföldun á flóknum heimi sem myndar miklu frekar eitt bútasaumsteppi trúarbragða og menningar þar sem tákn og sögur og trúarreynsla fléttast saman – en ekki margar einslitar mottur. VI.

Árásirnar á Tvíburaturnana í New York og styrjaldirnar sem hafa fylgt settu kúrsinn fyrir 21. öldina. En það er skoðun margra sem um málið fjalla að trúarbrögð séu í mikilli sókn um víða veröld þrátt fyrir þessi átök. Arabíska vorið er knúið fram í nafni trúar að einhverju leyti svo dæmi sé tekið. Um leið er flóra trúarbragðanna flóknari en verið hefur um aldir. Bútasaumsteppið stækkar og litunum fjölgar. Hvert sem litið er um jarðarkringluna er áhuginn á trúarbrögðunum mikill og trúarumræðan lifandi. En hún getur líka verið óvægin og full af fordómum. Vegna þessa er mikilvægt að fólk sem fylgir ólíkum trúarhefðum, og guðleysingjar einnig, taki höndum saman og efli skilning og virðingu milli trúarhópa og lífsskoðunarfélaga. Líka hér á landi. Með því að leggja áherslu á hið jákvæða og mannbætandi afl sem öll trúarbrögð sækja kraft sinn til geta trúaðir einstaklingar lagt sitt af mörkum til að eyða fordómum, bæta samskipti milli þjóða, menningarheima og þjóðarbrota og þannig unnið mannkyni ómetanlegt starf á þeim umbrota- og óvissutímum sem nú ríkja. En slík samvinna og samtal trúarhópa og lífsskoðunarfélaga er lykillinn að friði á 21.öld