Jesús er um borð í þjóðarskútunni okkar

Jesús er um borð í þjóðarskútunni okkar

Jesús er um borð í þjóðarskútunni okkar. Hann tranar sér ekki fram með látum heldur hefur hægt um sig. En hann svarar hins vegar þegar hann er beðinn hjálpar. „Jafnvel vindar og vatn hlýða honum“ sögðu lærisveinarnir og undruðust mjög. Þegar hann var kallaður til ráðuneytis var lærisveinunum borgið þrátt fyrir veðurofsa og háar öldur.

Sjómannadagur sæll og fagur sólbjarta gleði flutt oss fær, batnar þá allra og blómgast hagur, broshýr þá gæfan við oss hlær. Ljúfasti faðir, ljós þín skær láttu skína nær og fjær.

Þetta bænavers eru úr ljóði, sem nefnist Sjómannabragur og er eftir Benjamín V. Jónsson. Á prentuðu eintaki stendur að bragurinn sé prentaður á kostnað höfundar og gefinn út á Ísafirði árið 1944. Ekki veit ég neitt um höfundinn né tilurð kvæðisins en líklegt er að höfundur hafi flutt það á mannfagnaði að kvöldi dags og þá líklega á sjómannadegi því 1. erindið er svona:

Komið þið sælir, kæru vinir, í kvöld vil á kveða lítil ljóð. Saman hér safnast sjómannassynir, svo prýða nú hópinn fögur fljóð. Einlægust er það óskin mín: að öllum hér veitist skemmtun fín.

Í ár eru 75 ár síðan sjómannadagurinn var fyrst haldinn hátíðlegur. Það var gert á tveimur stöðum á landinu, hér í Reykjavík og á Ísafirði. Markmiðið var að vekja þjóðina til meðvitundar um starfssvið sjómannastéttarinnar, lífskjör og gildi í þjóðfélaginu.

Árið 1938 þegar fyrsti sjómannadagurinn var haldinn hátíðlegur „átti“ hann „að vera merkur viðburður á ári hverju, tímamót sem kæmu til með að marka ný viðhorf og koma með nýja strauma og fjörgandi áhrif á sjómannafélögin og þjóðlífið. Dagurinn átti að verða upphafið að því að áhrifa sjómanna gætti meira. Sjómenn vildu benda á að afkoma og velmegun þjóðarinnar byggðist að mestu leyti á starfi þeirra og að þau verðmæti sem sjómennska og siglingar færðu þjóðarbúinu væru undirstaða undir menningarlíf í landinu. Þetta framlag töldu þeir að ekki hefði verið metið sem skyldi. Vonast var eftir að dagurinn myndi jafnframt auka samstarf og skilning á milli hinna mörgu og ólíku atvinnustétta þjóðarinnar.” (J.S. bls. 36).

Það hafði líka farið fram umræða í Kirkjunni um að einn sunnudagur kirkjuársins væri helgaður sjómönnum.

Sjómannadagurinn er einn stærsti dagur ársins í mörgum byggðarlögum. Nálægðin við sjóinn hefur mótað mannlífið kynslóð eftir kynslóð. Hafið gefur og hafið tekur. Slíkt nábýli hvetur til áræðis og vekur lotningu. Það mótar hugsun og leiðir hugann að því sem er stærra og meira en maðurinn sjálfur. Tækni hefur aukist og framfarir orðið í sjómennskunni sem hafa bætt lífið og öryggi sjómanna. Áhersla á fræðslu og þjálfun hefur aukið meðvitund um að aldrei er of varlega farið. Samband við heiminn fyrir utan bátinn hefur einnig gjörbreyst með bættum fjarskiptum og veraldarvef.

Það var engri tækni fyrir að fara í litlum báti þegar veðrið breyttist skyndilega. Á Galileuvatni gerðist það er frá var sagt í guðspjallinu sem lesið var frá altarinu áðan. Þar var enginn dýptarmælir eða talstöð og því síður tölva og internet. Það kann ekki góðri lukku að stýra að sofa á útstíminu eða heimferðinni jafnvel þó sjálfstýringin sé á. En í þessu tilviki svaf meistarinn þegar öldurnar gengu yfir bátinn. Lærisveinarnir urðu hræddir og vöktu hann. Sennilega þekkjum við öll þessa tilfinningu, hræðsluna. Hún kemur yfir okkur þegar við lendum í aðstæðum sem við ráðum ekki við. Við bregðumst við eins og lærisveinarnir. Við leitum að hjálp, við hrópum á hjálp.

Jesús sendi lærisveina sína út með þeim orðum að þeir skyldu menn veiða. Sumir þeirra voru reyndar fiskimenn eins og guðspjöllin greina frá. Þeir voru boðberar þeirrar trúar er bendir á Jesú, sem er fyrirmynd okkar og frelsari. Hann sem frelsaði lærisveinana frá óttanum sem bjargarleyinu fylgdi.

Gerum vanan piltar sögðu formennirnir í gamla daga þegar lagt var frá landi. Það þýddi að sjóferðin var farin í Jesú nafni. „Stýr mínu fari heilu heim

Í höfn á friðarlandi, þar mig í þinni gæslu geym, ó, Guð minn allsvaldandi“ orti sr. Valdimar Briem. Þess eru dæmi að sjómenn fari með þetta bænavers þegar langt er frá landi.

„Ég er á langferð um lífsins haf og löngum breytinga kenni“ orti sr. Valdimar einnig.

Vissulega er líf okkar ferðalag þar sem skiptast á skin og skúrir. Það á ekki aðeins við um líf hverrar mannveru sem fæðist hér á jörð heldur einnig líf byggðarlaga og þjóðar. Það hefur gefið á bátinn, þjóðarskútuna okkar undanfarin ár. Veður breyttist skyndilega eins og á Galileuvatninu forðum og öldurnar gengu yfir. Fórum við þá í spor lærisveinanna? Vöktum við sofandi meistarann í bjargarleysi okkar og ótta? Ætluðum við ef til vill að bjarga okkur sjálf? Treysta því að allt myndi bjargast af sjálfu sér? „Ekki gera ekki neitt“ er slagorð sem hefur vakið okkur til vitundar um að aðgerðarleysi er ekki góður kostur. Það er enda í ætt við boðskap kristinnar trúar, sem hvetur okkur til aðgerða en ekki kyrrstöðu. Hvetur okkur til dæmis til að láta okkur neyð náungans skipta og sitja ekki aðgerðarlaus þegar hjálpar er þurfi. Það vorum við m.a. minnt á í fyrrakvöld þegar Landsbjörg safnaði bakhjörlum með mjög góðum árangri. Björgunarsveitirnar um landið hafa oftar en ekki komið sjómönnum til hjálpar og landhelgisgæslan komið til bjargar.

Jesús er um borð í þjóðarskútunni okkar. Hann tranar sér ekki fram með látum heldur hefur hægt um sig. En hann svarar hins vegar þegar hann er beðinn hjálpar. „Jafnvel vindar og vatn hlýða honum“ sögðu lærisveinarnir og undruðust mjög. Þegar hann var kallaður til ráðuneytis var lærisveinunum borgið þrátt fyrir veðurofsa og háar öldur. Okkur ætti að vera óhætt að snúa okkur til hans og biðja hann hjálpar. Hans sem hefur ráð við hverjum vanda. Hleypa anda hans að við lausn mála og treysta því að hann muni vel fyrir sjá.

Vindar og vatn hlýddu. Máttur hans var að verki. Máttur hans er að verki hvar sem eftir því er leitað.

Árið 1938 var vonast eftir því að sjómannadagurinn myndi auka samstarf og skilning á milli hinna mörgu og ólíku atvinnustétta þjóðarinnar.

Samstarf og skilningur. Nú eins og þá eru þessi hugtök lykilhugtök hvers samfélags. Samstarf er nauðsynlegt í okkar fámenna samfélagi og skilningur einnig því ólík erum við og aðstæður misjafnar. Við sem komum hér saman komum saman í einu nafni. Við komum saman í Jesú nafni, til að lofa Guð og ákalla og til að heyra hvað Guð vill við okkur tala í sínu orði, eins og fram kemur í inngöngubæninni. Það er okkar erindi hingað hér í dag, jafnframt því að þakka og biðja og beina huga okkar að erindi dagsins og miðla því inn í samfélag okkar og líf.

Sjómenn hafa falið Guði ferðir sínar og einnig kallað Guð sér til hjálpar í neyð. Hugurinn hefur leitað til skaparans og lausnarans. Til Guðs sem okkur lífið gaf. Sóknarpresturinn í Grindavík fyrr á tíð, sr. Oddur V. Gíslason þekkti sjómennskuna og fólkið sitt og setti á blað bæn:

Drottinn minn og Guð minn. Þegar ég nú ræ til fiskveiða og finn vanmátt minn og veikleika skipsins gegn huldum kröftum lofts og lagar, þá lyfti ég upp til þín augum trúar og vonar og bið þig í Jesú nafni að leiða oss á djúpið, blessa oss að vorum veiðum og vernda oss, að vér aftur farsællega heim til vor náum með þá björg, sem þér þóknast að gefa oss. Blessa þú ástvini vora, og leyf oss að fagna aftur samfundum, svo vér, fyrir heilags anda náð, samhuga flytjum þér lof og þakkargjörð. Ó, Drottinn, gef oss öllum góðar stundir, skipi og mönnum í Jesú nafni. Amen.-

Þó þessi orð hafi verið sett á blað fyrir margt löngu geta þau alveg átt við enn í dag. Við erum í jafnmikilli þörf og forfeður okkar að ákalla Guð og játa það að án hans erum við lítils megnug. Við erum líka í jafnmikilli þörf að muna það að ástvinir okkar eru okkur dýrmætir. Dýrmætari en flest annað. Tengingin við Guð er tengingin við lífið. Á sjómannadegi minnumst við, biðjum og þökkum.

Nú verður drukknaðra sjómanna minnst. Við biðjum Guð að blessa og helga minningu þeirra. Þeir hvíli í friði og Guðs eilífa ljós lýsa þeim.

Ég óska sjómönnum til hamingju með daginn og bið ykkur og fjölskyldum ykkar blessunar Guðs. Gleðilegan sjómannadag í Jesú nafni.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Dómkirkjunni sjómannadag 2. júní 2013. Ps. 1-2, 20-31; Post. 27:21-25; Matt. 8:23-27.