Lost, blinda og sýn

Lost, blinda og sýn

Menn spyrja um tildrög, en Jesús um merkingu. Menn leita aftur, en Jesús beinir sjónum fram á veginn. Menn sjá lokuð kerfi orsaka og afleiðinga, en Jesús sýnir plúsana í lífinu. Menn rækta löghyggju, en Jesús bendir til frelsis. Menn loka, Jesús opnar. Menn læsast, Jesús leysir.

Á leið sinni sá hann mann, sem var blindur frá fæðingu. Lærisveinar hans spurðu hann: Rabbí, hvort hefur þessi maður syndgað eða foreldrar hans, fyrst hann fæddist blindur? Jesús svaraði: Hvorki er það af því, að hann hafi syndgað eða foreldrar hans, heldur til þess að verk Guðs verði opinber á honum. Oss ber að vinna verk þess, er sendi mig, meðan dagur er. Það kemur nótt, þegar enginn getur unnið. Meðan ég er í heiminum, er ég ljós heimsins. Að svo mæltu skyrpti hann á jörðina, gjörði leðju úr munnvatninu, strauk leðju á augu hans og sagði við hann: Farðu og þvoðu þér í lauginni Sílóam. Sílóam þýðir sendur. Hann fór og þvoði sér og kom sjáandi. Jóh. 9. 1-11

Lost

Í ríkissjónvarpinu voru í sumar á dagskrá sjónvarpsþáttaröðin Lífsháski – sem á enskunni heitir Lost. Þættirnir hafa verið svo dularfullir og spennandi, að margir hafa setið límdir við tækin til að fá einhvern botn í flækju og söguþráð. Lífsháskinn er vel samsettur og hann hefur notið vinsælda vestan Atlantshafs sem austan og fékk nýlega Emmyverðlaun. Leikstjórinn var veðlaunaður líka.

Í þáttunum greinir frá fólki sem lifði af flugslys og lendir síðan í hverri mannrauninni á fætur annarri á eyðieyju. Þau verða fyrir dularfullum atburðum, ýmsar rán- og furðu-skepnur ráðast á þau. Þau uppgötva ógnþrungna staði og finna mannvistarleifar og vísbendingar um vitsmunaverur, sem hafa dvalið á eyjunni. Deilur verða í hópnum um, hvernig þau eigi að bregðast við þessum átakanlegu aðstæðum og hvort þau eigi að halda út á haf á fleka. Ekki fór vel fyrir þeim hluta hópsins, sem það afréð, því dularfullir sjóræningjar réðust á flekamenn.

Að horfast í augu við líf sitt

Þessari röð sjónvarpsþátta um týnda fólkið lauk í síðasta mánuði. Þá kom í ljós að þetta var aðeins byrjunin, fyrsta röðin. Enginn botn er fenginn í sögunni og ef eitthvað er verður þessi lífsháskaveröld æ dularfyllri. Til að kynnast fólki, sem lifði flugslysið af og til að skýra viðbrögð þeirra, er skotið inn í þættina ýmsum ævibrotum þeirra. Í ljós kemur, að þau eiga flest öll fortíð, sem þarf að gera upp. En í kjölfar flugslyssins verða þau fyrir aðstæðum, sem hindra að þau geti leyst úr sínum málum, gert upp sakir sínar, beðist fyrirgefningar og bætt úr brotum sínum. Það er eins og allur hópurinn hafði lent í veröld, sem er handan þeirrar sem við lifum í, hafi farið yfir einhverja dularfulla línu dauðans án þess að gera sér grein fyrir því. Þau eru með fortíðarböggla, en geta ekki leyst þá. Þau þurfa að horfast í augu við sjálf sig, en á nýjum forsendum. Engin leið er til baka, þau eru að glíma við dóm sinn, bregðast við eigin gerðum. Í því er glíma þeirra fólgin.

Framleiðendur ABC sjónvarpsstöðvarinnar hafa skiljanlega ekkert gefið út um hvernig eigi að túlka þessa þætti. En flest bendir til að höfundarnir séu fullkomlega meðvitaðir um vísanir nafna, atburða og framvindu. Það má því alveg leika sér að því að túlka þá og ég hef mína tilgátuskýringu. Mér sýnist, að Lífsháskaþættirnir séu m.a. útgáfa af raunum og ákæruglímum dómsdags. Þetta er ekki dómsdagur í gömlum skilningi vestrænnar kristni, ekki dómsdagur hvað varðar náttúruvá, heldur fremur sem persónulegur dómsdagur. Í Lífsháskaþáttunum er öllum einstaklingunum gefið kostur á að sýna manndóm, vinna með veikleika sína, komast til meiri þroska og bregðast með reisn í mannraunum. Þarna er því fjallað um hvað hver maður þarf að gera til að vinna sig út úr lífskreppu eða veikleikum eigin fortíðar. Mórallinn er þá, að allir verða að horfast í augu við sig og líf sitt, bregðast við og gegna kalli mennsku sinnar, og halda síðan inn í framtíðina.

Í þessari sjónvarpsútgáfu er hið trúarlega og mannlega samhengi nánast raunveruleikasjónvarp. Þar er nýlundan og þar er hin menningarsögulega og trúarlega túlkunarnýjung, sem varðar okkur sem höfum áhuga á trú í samtíðinni.

Arfur og ábyrgð

Með þetta vindum við okkur inn í biblíusögu guðspjallsins, sem fjallar m.a. um líf og erfðir, ábyrgð foreldra og ill áhrif. Jesús og nemar hans sjá á för sinni blindan mann. Af hverju er maðurinn sjónlaus? Gruflandi ferðalöngunum detta aðeins tveir valkostir í hug, að hann hafi valdið blindunni sjálfur með því að gera eitthvað ljótt – eða að Guð hafi slegið manninn blindu af því að foreldrar hans hafi syndgað. Tveir hugsanlegir sökudólgar: Annað hvort maðurinn sjálfur eða foreldrarnir. Stærri var nú sjóndeildarhringurinn ekki. Jesús bendir þeim snarlega á, að málið sé nú ekki svo einfalt. Annað og meira sé að baki en að smætta tilveruna í svo einfalda lógík. Blinda í samtíð er ekki einföld niðurstaða á einhverju skýru sektarreikningsdæmi einstaklings, foreldra eða fjölskyldu. Jesús fór síðan að eins og við gerðum í bernskuleikjum okkar, bjó til drullumall, makaði í augun, sendi manninn til laugar og augun opnuðust.

Til að leggja áherslu á hinar dramatísku andstæður minnir Jesús svo á, að meðan hann er í heiminum sé hann ljós hemsisins. Maður sem verður fyrir því að sjá á ný sér ljósið. Sá eða sú sem tekur á móti honum sér, og hverfur ekki aftur í blindu einstaklings, samfélags, menningar eða sögu. Að nálgast Jesú er það að gera upp og snúa sér fram á veginn. Í því er Jesúveruleikinn og Jesúsýnin fólgin.

Hindranir eða lausnaviðmið

Kannski voru lærisveinarnir ekki mestu mannvitsbrekkur veraldar. En erum við ekki oft nokkuð lík í viðbrögðum? Þegar við verðum fyrir erfiðri reynslu eða áföllum reynum við að greina forsendurnar. Og stór hluti mannkyns er slyngur í þessari fortíðarlógík og sérhæfir sig í að sjá vandkvæði í öllum hornum. Þetta eru þau, sem eru hindranamiðuð, búa sig undir hið versta í öllum málum, sjá fyrirstöðu á löngu færi, eitthvað í eigin lífi eða aðstæðum, sem gæti hindrað gleði, framrás atburða eða eyðilagt möguleika. Þetta eru þau, sem eru tilbúin að sjá breytingum allt til foráttu í eigin lífi og samfélagi. En svo eru önnur, sem eru mun meira upptekin af því að greina möguleika í kreppum, ljós í myrkri, framtíðarlíf fremur en fortíðardrauga, uppbyggingu fremur en hindranir. Þetta er lausnamiðaða fólkið, sem ekki lætur fortíð og aðkrepptar aðstæður samtíðar loka eða eyðileggja framtíðina.

Við þurfum að staldra við og huga að boðskap Jesú. Hvort skyldi hann nú verða hindranamiðaður eða lausnamiðaður. Getur verið að við ættum að hlusta vel á boðskap dagsins vegna þess, að hann hafi gildi fyrir okkur í raunverulegum aðstæðum samtíma okkar, að þú þarfnist þess að heyra svar hans varðandi hinn blinda svo þú fáir sýn og ljósnæmi?

Tvíburar

Ég varð fyrir stórkostlegri reynslu og happi á mánudaginn var. Okkur hjónum fæddust tvíburar, tveir strákar! Annar hafðist vel við og dafnar vel. Hinn blánaði upp fljótlega eftir fæðingu, náði ekki andanum vel. Því var hlaupið með hann í snatri í kassa og dælt yfir hann súrefni. Ekki hrökk sú aðgerð til. Þræða varð loftpípur upp í nef hans til að auka súrefnið. Ekki dugði það heldur og að lokum varð að setja drenginn í öndunarvél, til að hann dæi ekki. Síðan varð hann fyrir enn einu áfallinu, annað lungað féll nær saman. Gat var gert á bringuna á litla kroppnum og komið fyrir slöngu til að tappa af lofti og vökva. Allt gekk þetta vel, en við foreldrarnir vorum angistarfull og milli vonar og ótta. Aðrir foreldrar með reynslu af hliðstæðum málum hugguðu okkur. Í símtölum og tölvupóstum fullyrti stór hópur, að bráðavakt barnaspítalans, vöggudeildin, væri nú með þeim bestu í heimi. Ég trúi alveg, að það sé rétt. Hjúkrunarfólkið var hughreystandi og skildi og umbar tárfellandi foreldra.

Gerðum við eitthvað rangt?

Þegar ég horfði á þessa litlu mannveru, með slöngustóð í stórum kassa, vera berjast fyrir lífinu fór ég að íhuga hvort við, foreldrar hans og fjölskylda, hefðum gert eitthvað rangt? Var eitthvað, sem við gerðum sem leiddi til að þessi litli drengur varð fyrir skelfilegu áfalli strax eftir fæðingu. Var þessi öndunarteppa kannski mér að kenna?

Hver veldur hverju, hvenær og hvernig? Allir ábyrgir foreldrar, sem lenda í áföllum með börn sín hafna í þessu öngstræti sjálfsrannsóknar. Allir, sem eiga fyrir öðrum að sjá og verða fyrir slysum, íhuga eigin ábyrgð. Auðvitað höfum við áhrif. Við gerum stundum afdrifarík mistök, sem leiða til hörmunga og jafnvel dauðsfalla. Börn fæðast með erfðasjúkdóma eða mein, sem valda þjáningu þeirra og aðstandenda. Ástvinir spyrja: Er þetta mér að kenna, gerði ég eitthvað rangt? Svo læðist að sektarkennd og óþægilegar spurningar. Ég hefði kannski ekki átt að flytja í þessa götu, þá hefði þetta slys ekki orðið. Ég hefði ekki átt að vinna þarna, þá hefði þetta ekki gerst. Ég hefði ekki átt að taka þetta í mál, þá hefði hann ekki fæðst svona eða hinsegin. Ég hefði átt að gera allt annað, öðru vísi, með öðrum og velja annað.

Menn læsa, Jesús leysir

Af hverju var maðurinn blindur? Var það vegna foreldra eða gerði maðurinn sjálfur rangt? Boðskapur Jesú er einfaldur og hvetjandi: Horfið ekki til baka, heldur fram á veginn. Reynið ekki að rekja ástæður í hörgul og búa til pottþétt kerfi orsaka og afleiðinga. Beinið fremur sjónum, að því hvað gæti gerst. Jesús beinir því ljósi sínu frá hindrunum og að möguleikum. Hér er kannski með einföldum hætti borin saman þröngsýni guðleysis og ríkidæmi guðssýnarinnar.

Við, menn, spyrjum um orsakir, en Jesús um ávöxt. Menn spyrja um tildrög, en Jesús um merkingu. Menn leita aftur, en Jesús beinir sjónum fram á veginn. Menn sjá lokuð kerfi orsaka og afleiðinga, en Jesús sýnir plúsana í lífinu. Menn rækta löghyggju, en Jesús bendir til frelsis. Menn loka, Jesús opnar. Menn læsast, Jesús leysir.

Ljós og lífsháttur

Jesús spurði ekki um hvort foreldrar mannsins hefðu syndgað eða maðurinn sjálfur. Hann einfaldlega læknaði manninn. Litli drengurinn minn á Fæðingardeildinni leið ekki fyrir foreldra sína, sögu okkar og fortíð, heldur varð fyrir kraftaverki lífsins. Lungað læknaðist, brjóstholsslangan var tekin út í gær. Hann er laus úr öndunarvélinni og andar nú sjálfur og verður brátt lagður á brjóst. Þar sem var myrkur er ljós, þar sem var áhyggja er léttir, þar sem voru hindranir er nú lausn. Í lexíu dagsins er vel fjallað um þennan viðsnúning frá hörmung til hjálpar: “Að kveldi gistir oss grátur, en gleðisöngur að morgni.” “ég hrópaði til þín og þú læknaðir mig.”

Hver er þá niðurstaða textans og dagsins? Hún varðar lífsafstöðu. Við mætum dómi okkar í lífsaðstæðum, við dæmum okkur sjálf ef við lokum tilverunni, drögum á eftir okkur allt það sem er neikvætt, vont og letjandi. Ekkert er svo illt að ekki megi bæta, ekkert er svo blindað að ekki megi lýsa. Hvað sem þú hefur gert, verið eða brotið af þér er Guð ekki á höttum eftir fortíðarbreyskleika, heldur kemur til þín úr framtíð, kallar þig til að huga að möguleikum og vexti. Vissulega erum við kölluð til að gera upp fortíð en aðallega til að opna veru gagnvart gæðum lífsins, fegurð himinsins, lit daganna, gleðinni sem bíður okkar allra. Jesús minnir á að hann sé ljós heimsins og við getum séð ef við lifum í hans veröld.

Amen.