Sálmabók

139. Í dauðans böndum Drottinn lá

1 Í dauðans böndum Drottinn lá
frá dauða svo vér sleppum
en upp reis dauðum aftur frá
svo eilíft líf vér hreppum.
Í Guði því oss gleðjast ber
og gjalda þökk og syngja hver
af hjarta: :,: Hallelúja. :,:

2 Á jörðu fyrri sást ei sá
er sigrað dauðann fengi
því sárt á öllum syndin lá
og sýkn varð fundinn engi.
Í ríki dauðans vorum vér
en veldi þessa ríkis er
nú hrunið. :,: Hallelúja. :,:

3 Á hólm við dauðann Guðs son gekk
að gætum sigur hlotið
og hann í dróma hnepptan fékk
og heljar vígi brotið.
Í sigur dauðinn svelgdur er,
hans sáran brodd ei þurfum vér
að hræðast. :,: Hallelúja. :,:

4 Í heimi þrátt var styrjöld stríð
en styrjöld sú var hörðust
er þá var háð til lausnar lýð
er líf og dauði börðust.
Á dauða sigur dýrðlegan
með dauða sínum lífið vann,
því hljómi: :,: Hallelúja. :,:

5 Guðs eigin son í heimi hér
í hrelling dauðans seldur
vort páskalamb nú orðinn er
sem allri blessun veldur
og heilagt benjablóðið hans
gegn banaspjóti morðingjans
oss hlífir. :,: Hallelúja. :,:

6 Því páskahátíð höldum vér
með helgri trúargleði
og tignum hann sem líf oss lér
og lækning veita réði.
Nú dagur skín en dimman þver,
í dalnum syndamyrkurs er
nú heiðskírt. :,: Hallelúja. :,:

7 Nú látum sálir saðning fá
af sönnu lífsins brauði,
hið forna súrdeig sjást ei má
því sálum það er dauði.
Sjá, brauð af himni hlutum vér,
það himnabrauðið Kristur er,
vort hjálpráð. :,: Hallelúja. :,:

T Latn. hymni frá 11. öld – Martin Luther 1524 – ME 1555 – Sb. 1589 – Nikolaj F.S. Grundtvig 1837 – Helgi Hálfdánarson – Sb. 1886
Christ lag in Todesbanden
L 11. öld – Martin Luther 1524 – Johann Walter 1524 – Gr. 1594
Christ lag in Todesbanden
Eldra númer 157
Eldra númer útskýring T+L
Biblíutilvísun 1. Kor. 15.3–5, 55–57

Deila sálmi

Ábendingar til sálmabókarnefndar má senda á salmabok@kirkjan.is