Sálmabók

227b. Guð faðir, himnum hærri

1 Guð faðir, himnum hærri
ert hjarta mínu nærri
með ljós á lífs míns vegi
og líkn á nótt sem degi.

2 Þú mætir mér að nýju
í morgunskini hlýju
og heilsar huga mínum
með helgum anda þínum.

3 Og bænarlogann bjarta
hann ber að köldu hjarta
og neista náðar þinnar
flýr nóttin sálar minnar.

4 Í lífsins tæru lindum
þú laugar mig af syndum
og nærir sál og sinni
með sælli návist þinni.

5 Lát orð þitt veg mér vísa
og vilja mínum lýsa,
tak dagsins verk og vanda
á vald þíns góða anda.

6 Þér, eilíf þrenning eina,
skal ást og trúin hreina
með gleði þakkir gjalda,
vor Guð, um aldir alda.

T Sigurbjörn Einarsson – Sb. 1997
L Matthías V. Baldursson 2011
Tilvísun í annað lag 601
Eldra númer 701
Eldra númer útskýring T

Deila sálmi

Ábendingar til sálmabókarnefndar má senda á salmabok@kirkjan.is