Sálmabók

361. Guð leiði þig, mitt ljúfa barn

1 Guð leiði þig, mitt ljúfa barn,
þú leggur út á mikið hjarn
með brjóstið veikt og hýrt og hlýtt
og hyggur lífið sé svo blítt.
Guð leiði þig.

2 Guð leiði þig en líkni mér
sem lengur má ei fylgja þér.
En eg vil fá þér englavörð,
míns innsta hjarta bænargjörð:
Guð leiði þig.

3 Guð verndi þig. En vak og bið
og varðveit, barn, þinn sálarfrið.
Á Herrans traustu hönd þig fel.
Ef hann er með, þá farnast vel.
Guð leiði þig.

4 Guð leiði þig. Hans lífsins vald
á lög og jörð og himintjald,
hans auga sér, hans armur nær
um allan geiminn nær og fjær.
Guð leiði þig.

T Karl Gerok, 1862 – Matthías Jochumsson, 1877 – Sb. 1945
Behüt dich Gott, geliebtes Kind
L Jórunn Viðar – Vb. 1976
Guð leiði þig, mitt ljúfa barn
Eldra númer 257
Eldra númer útskýring T+L

Deila sálmi

Ábendingar til sálmabókarnefndar má senda á salmabok@kirkjan.is