Sálmabók

446. Sé Drottni lof og dýrð

1 Sé Drottni lof og dýrð,
hans dásemd öllum skýrð,
hann lofi englar allir
og æðstu ljóssins hallir,
hann lofi hnatta hjólin
og heiðri tungl og sólin.

2 Hann lofi líf og hel
og loftsins bjarta hvel,
hann lofi lögmál tíða
sem ljúft hans boði hlýða
og sýna veldis vottinn,
ó, veröld, lofa Drottin.

3 Þér vötn og víður sjór,
þér vindar, hagl og snjór,
þér fjallabyggðir bláar,
þér bjarkir prýði háar,
þú grund með grösum sprottin,
ó, göfgið, lofið Drottin.

4 Þér lands og lagar dýr
og loftsins skarinn hýr,
þér ernir ofar foldu,
þér ormar djúpt í moldu,
hans gæsku gefið vottinn
og göfgið, lofið Drottin.

5 Hver þjóð um lög og láð,
ó, lofið Drottins náð,
þér glöðu, hraustu, háu,
þér hrelldu, veiku, lágu,
þér öldnu með þeim ungu,
upp, upp með lof á tungu.

6 Með öllum heimsins her
þig, Herra, lofum vér
af innsta ástar grunni
með öndu, raust og munni.
Vort hjarta bljúgt sig hneigir
og hallelúja segir.

T Jón Þorsteinsson – Sb. 1671 – Matthías Jochumsson – Sb. 1886
L Jacob Regnart 1574 – Vulpius 1609 – Schein 1627 – Sb. 1619
Auf meinen lieben Gott
Sálmar með sama lagi 19 543a
Eldra númer 1
Eldra númer útskýring T+L
Biblíutilvísun Sálm. 148

Deila sálmi

Ábendingar til sálmabókarnefndar má senda á salmabok@kirkjan.is