Sálmabók

483. Þú sendir, Drottinn, dögg af hæðum

1 Þú sendir, Drottinn, dögg af hæðum
í dropum smáum niður' á jörð
að kveikja líf í köldum æðum
og klaka leysa böndin hörð.
Lát náðardaggar dropa þinn
svo drjúpa' í mína sálu inn.

2 Þú lætur, Drottinn, ljós af hæðum
hér lýsa sólargeislum í,
það grundu skrýðir geislaklæðum
og gulli faldar himinský.
Ó, lát þú náðarljósið þitt
svo lýsa skært í hjartað mitt.

3 Þú sendir, Guð, þinn son af hæðum,
hann sól og dögg var allri jörð.
Hann lýsir oss í ljóssins fræðum
og leysir synda böndin hörð.
Það ljósið prýði líf mitt allt,
sú lífdögg þíði helið kalt.

T Valdimar Briem – Sb. 1886
L Hamborg 1690 – Sb. 1801
Hvo ved, hvor naer mig er min ende
Sálmar með sama lagi 168
Eldra númer 31
Eldra númer útskýring T+L

Deila sálmi

Ábendingar til sálmabókarnefndar má senda á salmabok@kirkjan.is