Sálmabók

586. Nú fagnar þú, fátæka hjarta

1 Nú fagnar þú, fátæka hjarta,
já, fagna í Guði, mín önd,
og lauga þig ljósinu bjarta
frá lífsins og friðarins strönd.
Nú hverfur allt myrkur úr huga
því hvað má þig lama og buga
ef áttu Guðs hjarta og hönd?

2 Hann gefur í gæsku og mildi,
- þín gjöld eru minni en smá -
í Kristi hann vitja þín vildi
og vekja þig, fallandi strá.
Hvað megnar að særa og saka
fyrst sjálfur þinn Drottinn vill taka
þinn vanda og vera þér hjá?

3 Sé himinn Guðs opinn þér yfir
svo auglit hans móti þér skín
í líkn sem að eilífu lifir
og laðar og kallar til sín,
þá býr þér í barmi sá friður
sem blessar þig, auðgar og styður
í köllun og þraut sem er þín.

4 Sem fuglinn er hrekkur á flótta
og fatast um stefnu og mið
en flögrar í fáti og ótta
og fær ekki hæli né grið,
svo hrakin í voða af vegi
og vonlaus er sál þín ef eigi
hún finnur sinn Guð og hans frið.

5 En eigir þú frið hans og frelsi,
þá færðu nýtt hjarta og mátt.
Þá ógnar ei hel eða helsi
né hillir neitt flekkað og smátt
en glaður þitt líf viltu gefa,
þú gefur þá fagnandi sefa
þig sjálfan og allt sem þú átt.

6 Minn Jesús, þinn frið vil ég finna,
þinn fögnuð og líf sem ei dvín,
með þér vil ég vaka og vinna
og vitna um stórmerki þín.
En trú mín er blaktandi blossi,
þín brást ei, hún sigraði' á krossi.
Ó, trú þú og vak vegna mín.

T Einar M. Billing 1922 – Sigurbjörn Einarsson – Sb. 1972
Nu gläd dig, min ande, i Herran
L Þýskt lag frá 16. öld – Sænsk kóralbók 1697 – Vb. 1976
Vi kristna bör tro och besinna / Nu gläd dig, min ande, i Herran
Eldra númer 360
Eldra númer útskýring T+L

Deila sálmi

Ábendingar til sálmabókarnefndar má senda á salmabok@kirkjan.is