Sálmabók

613. Kristur, sem reistir þitt ríki á jörð

1 Kristur, sem reistir þitt ríki á jörð,
ríkið sem eilíft skal standa,
gefðu nýtt líf, meira ljós, þinni hjörð,
leið oss í heilögum anda.
Helga vorn vilja að vinna þér,
vitna um þig meðan dagur er.

2 Tendra þú eld þinnar ástar í sál
allra sem miskunn þín sendir,
styrk þá að flytja þitt fagnaðarmál,
fölskvalaust allt sem þú kenndir.
Í þinni fylgd verði höndin hlý,
hugurinn bjartur og tungan ný.

3 Þú hefur fórnað og fyrir oss strítt,
fátækt þín auðgað oss hefur.
Andann þinn helga sem allt gjörir nýtt
ómælt þú sendir og gefur.
Opna þú hjörtun og auk oss trú,
eilífi frelsari, bænheyr þú.

4 Lát þú oss feta í fótsporin þín,
frið þinn og kærleik oss styrkja.
Eilíf er vonin sem yfir oss skín,
eilíf þín heilaga kirkja,
dýrlegur skarinn sem fyrir fer,
feðra og votta sem gáfust þér.

5 Vertu, Guð faðir, í verki með oss,
vak í oss, heilagi andi.
Láttu, Guðs sonur, þinn signaða kross
sigra í myrkranna landi.
Verm þínum kærleika kalinn svörð,
kom þú og tak þér allt vald á jörð.

T Sigurbjörn Einarsson 1972 – Sb. 1972
Kristur sem reistir þitt ríki
L Melchior Franck 1627 – Thomas Laub 1902 – Ssb. 1936
Gen Himmel aufgefahren ist / Du, som går ud fra den levende Gud
Sálmar með sama lagi 720
Eldra númer 267
Eldra númer útskýring T+L

Deila sálmi

Ábendingar til sálmabókarnefndar má senda á salmabok@kirkjan.is