Sálmabók

728. Ljósfaðir

1 Ljósfaðir, viltu lýsa mér
langan dag, myrka nótt,
vekja minn hug til varnar skjótt
ef vélráðin á mér tökum ná,
beina mér brautina á.

2 Ljósfaðir, viltu vera mér
vinarhönd, lífsins blóm,
opna míns hjarta helgidóm
og hamingjudaga minna á,
beina mér blekkingum frá.

3 Ljósfaðir, viltu vernda mig,
veita mér öruggt skjól,
hefja til vegs þitt höfuðból
svo heimurinn allur sjái það,
beina mér bjargráðum að.

4 Ljósfaðir, viltu leiða mig,
ljá mér þinn sterka arm,
svala þorsta' og sefa harm,
í sannleika skapa undur ný,
beina mér birtuna í.

T Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson 2009 – Vb. 2013
L Sigurður Flosason 2009 – Vb. 2013
Eldra númer 846
Eldra númer útskýring T+L

Deila sálmi

Ábendingar til sálmabókarnefndar má senda á salmabok@kirkjan.is