Sálmabók

768. Göfguð sé gæskan þín

1 Göfguð sé gæskan þín,
Guð minn, í hverjum sal.
Fótspor þú mælir mín
og minna daga tal,
leiðandi líknar hendi
sorganna gegnum dimman dal.

2 Eg má í elsku' og trú
alvaldan prísa þig.
Enginn annar en þú
og ást þín föðurlig
blessað og hjálpað hefur
mér á lífsdaga myrkum stig.

3 Skortir mig munn og mál
að mikla kraftinn þinn.
Andvarpar auðmjúk sál
upp til þín, faðir minn.
Eilífðin öll þig prísi,
sem eg hjá þér um síðir finn.

4 Þá augunum upp til þín
eg lyfti' úr hryggðar dal
og sumarsólin skín,
sú æ mig minna skal
á þína miklu mildi,
Drottinn í hæstum dýrðar sal.

5 Annastu enn minn hag,
ó, Guð, í hverjum rann.
Sendu mér sumardag
sælan og blessaðan.
Leið þú mig lukku stíga,
meðan þín náð mér aldurs ann.

6 Heyr mína hjartans bón:
Um hagina mína sjá,
forða við friðar tjón
og farsæld mér veittu þá
á þig einan að vona.
Þá hef ég allt sem þörf er á.

T Sigurður Breiðfjörð 1822 – Sb. 1972
L Statius Olthof 1585? – Buchanan 1616 – Hymnodia Sacra 1742 – Sb. 1772 – Vb. 1946
Eldra númer 477
Eldra númer útskýring T+L

Deila sálmi

Ábendingar til sálmabókarnefndar má senda á salmabok@kirkjan.is