Sálmabók

786. Upp, þúsund ára þjóð

1 Upp, þúsund ára þjóð,
með þúsund radda ljóð.
Upp, allt sem er og hrærist
og allt sem lífi nærist.
Upp, harpa Guðs, þú heimur.
Upp, haf og landageimur.

2 Skín, sól, á sumarfjöll
og signdu vatnaföll,
breið geisla guðvefsklæði
á grundir, skóg og flæði,
gjör fjöll að kristallskirkjum
og kór úr bjarga virkjum.

3 Krjúp lágt, þú litla þjóð,
við lífsins náðarflóð.
Eilífum Guði alda
þú átt í dag að gjalda
allt lánsfé lífs þíns stunda
með leigum þúsund punda.

4 Upp, upp, þú Íslands þjóð
með eldheitt hjartablóð,
Guðs sólu signd er foldin,
öll sekt í miskunn goldin:
Þú átt, þú átt að lifa
öll ár og tákn það skrifa.

5 Kom, Jesú Kristí trú,
kom, kom og í oss bú,
kom, sterki kærleiks kraftur,
þú kveikir dáið aftur.
Ein trú, eitt ljós, einn andi
í einu fósturlandi.

6 Guð faðir, lífs vors líf,
þú lands vors eilíf hlíf,
sjá, í þér erum, hrærumst
og af þér lifum, nærumst,
þú telur minnstu tárin
og tímans þúsund árin.

T Matthías Jochumsson 1874 – Sb. 1945
L Jacob Regnart 1574 – Vulpius 1609 – Schein 1627 – Sb. 1619
Auf meinen lieben Gott
Sálmar með sama lagi 10 86
Eldra númer 519
Eldra númer útskýring T+L

Deila sálmi

Ábendingar til sálmabókarnefndar má senda á salmabok@kirkjan.is