Sálmabók

793. Göngum vér fram þótt grýtt sé leið

1 Göngum vér fram þótt grýtt sé leið.
Gott er með þér að stríða.
Þó að oss mæti þraut og neyð
þurfum vér ei að kvíða.
Þú barst þinn kross
á undan oss,
ástvinur þjáðra manna.
Vertu oss hjá
því hvað má þá
hjörð þinni fögnuð banna?

2 Brautina dimmu bar vor þjóð
brennandi þorsta' á tungu.
Aldir runnu með eld og blóð,
eggjar og þyrnar stungu.
Græðandi skein
á mannleg mein
miskunnar þinnar kraftur.
Þú gafst oss lind
og lausn frá synd,
ljómaði sólin aftur.

3 Heimslán er valt sem hrökkvi strá,
hamingjan skjótt vill bresta.
Sæll er því hver sem öruggt á
ástvinarskjólið besta.
Hjálp þín er næst
þá neyð er stærst.
Náðartíminn er hljóður.
Leysti vor bönd
þín heilög hönd.
Hvar er vor þakkaróður?

4 Hefjum í dag til dýrðar þér,
Drottinn vor, lofgjörð nýja.
Gjörum það fyrr en of seint er
undir þinn væng að flýja.
Gef að vor þjóð
ei missi móð
mæti oss élið þunga.
Helgist vort ráð.
Um lög og láð
lofi þig sérhver tunga.

T Jón Magnússon – Sb. 1945
L Stefán Arason 2020
Eldra númer 522
Eldra númer útskýring T

Deila sálmi

Ábendingar til sálmabókarnefndar má senda á salmabok@kirkjan.is