Sálmabók

801. Davíðssálmur 19 (2-3, 8-10)

Andstef (Sálm. 57.6)
Sýn þig himnum hærri, Guð.
Dýrð þín breiðist yfir gjörvalla jörðina.

Himnarnir segja frá Guðs dýrð,
festingin kunngjörir verkin hans handa.
    Hver dagur kennir öðrum
    og hver nótt boðar annarri speki.
Engin ræða, engin orð,
ekki heyrist raust þeirra.
    Þó berst boðskapur þeirra um alla jörð
    og orð þeirra ná til endimarka heims.
    Þar reisti hann röðlinum tjald.
Lögmál Drottins er lýtalaust,
hressir sálina,
    vitnisburður Drottins er áreiðanlegur,
    gerir hinn fávísa vitran.
Fyrirmæli Drottins eru rétt,
gleðja hjartað.
    Boðorð Drottins eru skír,
    hýrga augun.
Ótti Drottins er hreinn,
varir að eilífu.
    Ákvæði Drottins eru sannleikur,
    eru öll réttlát.
Sýn þig himnum hærri, Guð.
Dýrð þín breiðist yfir gjörvalla jörðina.

Dýrð sé Guði, föður og syni
og heilögum anda
    svo sem var í upphafi
    er og verður um aldir alda. Amen.
Sýn þig himnum hærri, Guð.
Dýrð þín breiðist yfir gjörvalla jörðina.

Deila sálmi

Ábendingar til sálmabókarnefndar má senda á salmabok@kirkjan.is