Biskup frumbyggja
Næstkomandi sunnudag, 13. október, prédikar dr. Mark MacDonald, biskup frumbyggja í Kanada innan Anglíkönsku kirkjunnar, kl. 11:00 í Hallgrímskirkju. Frú Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, og séra Irma Sjöfn Óskarsdóttir þjóna fyrir altari.
Kanadíski biskupinn hefur frá árinu 2007 hefur haft yfirumsjón með kirkjulegri sálgæslu allra frumbyggja sem eru innan Anglíkönsku kirkjunnar í Kanada. Hann hefur einnig verið forseti Alkirkjuráðsins í Norður-Ameríku frá árinu 2013. Sjálfur er hann af frumbyggjaættum bæði í móður- og föðurætt.
Mark MacDonald hefur hlotið margskonar viðurkenningar fyrir þjónustu sína við frumbyggja og fyrir framlag sitt til þess að styrkja vitund Kanadabúa um gildi umhverfismála.
Mark MacDonald er einn af aðalræðumönnum á Hringborði norðurslóða í Hörpu sem fram fer í vikunni og tekur þátt í Skálholtsráðstefnu um „Umhverfissiðbót í þágu jarðar“ sem hófst s.l. þriðjudagskvöld. Hann er einnig meðal mælenda á málstofu Hringborðs norðurslóða um „Siðbót í þágu sjálfbærnimarkmiða Sameinuðu þjóðanna“ sem haldin er í Safnahúsinu, Hverfisgötu 15, kl. 17.00 nk. föstudag, 11. okt.
Hann er hér á landi í boði þjóðkirkjunnar og Ólafs Ragnars Grímssonar, fyrrum forseta Íslands og forvígismanns Hringborðs norðurslóða.