Einingu kristninnar ógnað

2. apríl 2020

Einingu kristninnar ógnað

Merki Alkirkjuráðsins - merki hinnar samkirkjulegu hreyfingar

Þjóðkirkjan er aðili að Alkirkjuráðinu, (World Council of Churches). Og meira en það. Hún var einn af stofnendum þess árið 1948. Það er samkirkjuleg ráð. Þau sem tekið hafa þátt í samkirkjulegu starfi vita að það krefst þolinmæði og þrauseigju. Allt gengur hægt fyrir sig – hægar en margur þolir. 

Dr. Olav Fykse Tveit, er Norðmaður. Hann hefur verið framkvæmdastjóri Alkirkjuráðsins í tíu ár og lét af störfum um mánaðarmótin.

Það er um hálfur milljarður fólks sem á með beinum eða óbeinum hætti aðild að Alkirkjuráðinu í gegnum heimakirkjudeildir sínar.

Alkirkjuráðið rekur víðtæka starfsemi út um allan heim en þar er hvers kyns hjálparstarfsemi mest áberandi. En samhliða slíkri starfsemi fara fram umræður um samkirkjuleg málefni milli ýmissa kirkjudeilda. Skoðanir eru ólíkar sem og túlkarnir enda þótt allir telji sig vera kristna. Þá fara og fram viðræður við fulltrúa annarra trúarbragða.

Frans páfi heimsótti höfuðstöðvar Alkirkjuráðsins í Bossey í Genf fyrir tveimur árum en þá fögnuðu samtökin sjötíu ára afmæli sínu.

Sú heimsókn var merki um að vor væri í nánd í samskiptum við rómversk-kaþólsku kirkjuna að sögn hins fráfarandi framkvæmdastjóra, dr. Olav Fykse Tveit. Hann segir samkirkjuhreyfinguna vera á sömu bylgjulengd og páfi hvað snertir samfélagslega hjálp til handa fólki á neyðarstundum. Slíkt sé hluti af vitnisburði kristinnar trúar í heiminum.

En við hlið Alkirkjuráðsins hefur vaxið fram af þó nokkrum krafti íhaldssöm hreyfing, World Evangelical Alliance, og að baki hennar stendur fjöldi kirkjudeilda og félaga og eru snöggtum fleiri en þau sem eru innan vébanda Alkirkjuráðsins. Þessi nýja hreyfing hefur aðra sýn en Alkirkjuráðið sem varð til við lok síðari heimsstyrjaldar og taldi frjálslynda samkirkjuhreyfingu vera lykil nýs tíma. Sýn hinnar nýju hreyfingar felst í íhaldssamri samkirkjustefnu þar sem horft er inn á við í stað þess að leita þess sem sameinar ólíkar kirkjudeildir.

„Alkirkjuráðið hefur alltaf fengið íhaldssama keppinauta og það er ekkert nýtt enda ráðið frjálslynt,“ segir dr. Olav Fykse, „og við erum ætíð samvinnufús og vinnum með þessum samtökum að ýmsum málum.“ Nokkru eftir að hann varð framkvæmdstjóri Alkirkjuráðsins tók hann þátt í samkirkjulegri heimsráðstefnu ráðsins og hélt þar ræðu ásamt fulltrúa hinna nýju samtaka, World Evangelical Alliance.

Dr. Olav Fykse segir að það sé vaxandi núningur milli hefðbundinna kirkjusamtaka og þeirra kirknahreyfingar sem hann telur vera popúlískar og nota kristna trú í pólitískum tilgangi.

„Það hefur sprottið upp popúlískur kristindómur þar sem sumar evangelískar kirkjur beita trúnni í þágu stjórnmálaleiðtoga á borð við Bolsonaro í Brasilíu og Trump í Bandaríkjunum,“ segir dr. Olav Fykse. Hann telur þetta ala á sundrungu milli kirkna – ekki milli Alkirkjuráðsins og World Evangelical Alliance heldur einstakra kirkjudeilda sem hallar eru undir flokkapólitík. Þetta ógni einingu kristninnar að hans mati.

En Alkirkjuráðið hefur líka verið gagnrýnt fyrir að vera pólitískt eins og þegar það tekur málstað innflytjenda.

„Já, í þessum skilningi erum við öll pólitísk,“ segir dr. Olav Fykse, „Trú er aldrei fullkomlega hlutlaust fyrirbæri. Við erum manneskjur – og kristnar manneskjur í pólitísku rými – í pólitískum heimi. Það væri tálsýn að halda því fram að trúin geti horft hlutlausum augum á allt sem gerist í veröldinni – verið ópólitísk.“ Hann bætir því við að pólitísk trú í þessum skilningi sé allt önnur en sú sem leggur sig fram um að smala stuðningsmönnum saman fyrir einstaka stjórnmálamenn.

Samkirkjuhreyfingin Það er kunnuglegt umhverfið fyrir framan gullna hliðið þar sem þau þrjú voru mætt, rómversk-kaþólskur maður, karl sem var áhangandi Jóhanns Kalvíns og kona ein lúthersk. Þau töldu sig öll eiga greiða leið inn um hliðið gullna en Lykla-Pétur var ekki á því og kannaðist ekki við þessa kirkjulegu merkingar og hleypti fólkinu ekki inn. Nú var úr vöndu ráða og datt þá einu þeirra í hug að þau skyldu syngja samanTe Deum laudamus (Lofið Drottinn). Fagur söngur þeirra þriggja barst inn á hin himnesku valllendi og Lykla-Pétur opnaði dyrnar og gleðin skein af andliti hans um leið og hann sagði: „ Þetta syngjum við oft hérna og þetta kunnið þið!“ Þau þrjú sögðu þá einum rómi: „Já, við erum kristin.“ Lykla-Pétur svaraði að bragði: „Nú, eruð þið kristin! Af hverju sögðuð þið það ekki strax?“ Og síðan lauk hann upp hliði himinsins.

Á síðasta áratugi hefur hallað á ógæfuhliðina hvað snerti trúfrelsi kristins fólks í Mið-Austurlöndum. Þar hefur kristnu fólki fækkað verulega. Alkirkjuráðið hefur verið gagnrýnt fyrir að sýna sinnuleysi í þeim málum en vera meira upptekið við hvers kyns vatnsverkefni.

„Við erum í mörgum löndum í viðræðum við múslimsk stjórnvöld eins og í Alsír í því skyni að bæta úr aðstæðum kristins fólks,“ segir dr. Olav Fykse. Hann segir að það fari ekki allfaf hátt því líka sé nauðsynlegt að halda úti samfélagslegum verkefnum sem eru tengd friði og réttlæti og kunna að vera framandi í augum þeirra sem hafa annan skilning á trú, samfélagi og manneskjunni. Slík hjálparstarfsemi sé enda inngróin í samtökin og hafi verið haldið úti frá upphafi vega. Hún er hluti af hinum kristna vitnisburði í heiminum og tengist að sögn dr. Olav Fykse náið hinni samkirkjulegu umræðu sem snýst um að standa vörð um friðinn þegar átök virðast í aðsigi.

Nýr framkvæmdastjóri Alkirkjuráðsins verður valinn í júnímánuði. Dr. Olav FykseTveit heldur heim til Noregs þar sem hann mun á næstunni taka við embætti höfuðbiskups – sem sé fremstur meðal jafningja í biskupahópi. 

Dr. Olav Fykse Tveit er fæddur 1960. Vígður prestur í norsku kirkjunni, sóknarprestur og um hríð herprestur. Hann hefur veitt forystu ýmsum nefndum sem fjallað hafa um mál kirkju og ríkis í Noregi, samkirkjumál og samskipti kristinnar kirkju og annarra trúarbragða. Ritað nokkrar bækur og fjölda greina í blöð og tímarit. Hann verður vígður til biskups í Niðarósdómkirkju sunnudaginn 26. apríl n.k.

                                                          Alkirkjuráðið
Samfélag kirkna sem rækta með sér samábyrgð og styðja hver aðra.
Kirkjurnar sameinast um að rétta fólki hjálparhönd.
Kirkjurnar bera sameiginlegt vitni um að Kristur sé Drottinn heimsins og kirkjunnar.
Kirkjurnar ræða saman um ólíkar trúaráherslur sínar, trúarjátningar og starfsaðferðir.
Þær stefna að einingu kirkjunnar - hver heldur þó sínum áherslum.

Samkirkjustefna íslensku þjóðkirkjunnar

Samkirkjunefnd o.fl.

hsh/Kristeligt Dagblad


Alkirkjuráðið - og myndband þar sem hægt er fræðast meira um það (ótextað)

 

  • Alþjóðastarf

  • Fræðsla

  • Frétt

  • Guðfræði

  • Kærleiksþjónusta

  • Messa

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Fræðsla

  • Samfélag

logo.png - mynd

Síðari umferð kosningar biskups Íslands

25. apr. 2024
...hefst 2. maí næstkomandi.
Ólafur Egilsson

Vinir Hjálparstarfsins fræðast um starfið

24. apr. 2024
...stilla saman strengi
Söngvahátíð 7.jpg - mynd

Söngvahátíð barnanna á Akureyri og í Reykjavík

23. apr. 2024
...börnin syngja í útvarpsmessu á sumardaginn fyrsta