„Jurtagarður, er herrans hér...“

24. september 2020

„Jurtagarður, er herrans hér...“

Sr. Þráinn Haraldsson, sóknarprestur, blessar garðinn

Síðdegis gær var viðbót við kirkjugarðinn á Akranesi vígð við hátíðlega athöfn. Það var sóknarpresturinn sr. Þráinn Haraldsson sem stýrði athöfninni og organisti kirkjunnar leiddi söng. Ritningarlestra lásu Indriði Valdimarsson, Anna Kristjánsdóttir og sr. Jónína Ólafsdóttir.

Athöfninni lauk á því að sungið var úr sálminum Allt eins og blómstrið eina. Það var táknrænt að í lok athafnarinnar renndu tveir drengir á hlaupahjólum þvert í gegnum garðinn og minntu á orð sálmsins: Svo hleypur æskan unga óvissa dauðans leið...

Veður var einstaklega fallegt en svalt í lofti. Akrafjallið naut sín vel og Skessuhornið – snjóföl minnti á að vetur er ekki langt undan.

Um nokkurt skeið hefur verið undirbúin stækkun kirkjugarðsins í Görðum á Akranesi. Þessi stækkun er meðal annars með reit fyrir duftker sem og óvígðum reit.

Um fjórar útfarir eru að jafnaði í hverjum mánuði á Akranesi.

Kirkjugarður í stað kirkju
Aðalskipulag Akraness 2005-2017 var endurskoðað fyrir nokkru og svæðið þar sem gert hafði verið ráð fyrir kirkju og safnaðarheimili við kirkjugarðinn var lagt undir kirkjugarð. Stjórn Kirkjugarðs Akraness hafði skrifaði bæjaryfirvöldum bréf þar sem sagði í lokin: „Einnig óskum við eftir því við bæjaryfirvöld að deiliskipulagi sem ætlað er fyrir kirkju við Garðagrund verði breytt og í stað kirkju komi stækkun á kirkjugarði á þetta svæði.“

Kirkjugarðar verða oft miklir skrúðgarðar og bæjarprýði. Þess vegna skiptir miklu máli að þeir séu vel skipulagðir og valinn góður staður.

Kirkjugarðurinn í Görðum er í austurhluta bæjarins og skammt norðan við hann er byggðasafnið. Kirkja stóð um aldir í garðinum. Garðurinn er í raun stór grænn reitur í bænum og nokkuð miðsvæðis.

Kirkjugarðurinn í Görðum er einstaklega fallegur og vel hirtur. Þar má sjá hinn merkilega klukknaturn sem húðaður er ljósbrúnum steinmulningi. Þennan turn teiknaði sr. Jón M. Guðjónsson, sóknarprestur á Akranesi og tók fyrstu skóflustunguna 1955. Turninn var reistur sem næst kórstæði síðustu kirkjunnar í garðinum sem rifin var 1896 og vígður 1958. Hann er 16.5 m á hæð. Nýja kirkjan var reist „ofan í Skaga“ og vígð 1896. Saga Garða á Akranesi sem kirkjustaðar lauk með þessum flutningi.

Kirkjugarðurinn í Görðum er eini kirkjugarðurinn á Akranesi og ekki vitað um annan – né heldur kuml. Þó gerðist það fyrir nokkrum árum að mannabein fundust á lóð við Sandgerði á Akranesi. Málið var rannsakað og kom í ljós að jarðvegurinn í lóðinni var að hluta til jarðfylling sem komið hafði úr Garðakirkjugarði þegar grafið hafði verið fyrir turninum góða. Mannabein höfðu þá verið í moldinni og farið í þetta stutta og óvænta ferðalag.

Hringt var einni klukku af þremur við athöfnina í gær.

Þetta erindi úr Passíusálmum, (2.7), sr. Hallgríms Péturssonar er sígilt og er stundum letrað yfir sáluhliðum:

Sígilt
Jurtagarður er herrans hér
helgra guðs barna legstaðir.
Þegar þú gengur um þenna reit,
þín sé til reiðu bænin heit,
andláts þíns gæt, og einnig þá
upprisudaginn minnstu á.

hsh


Hluti af nýja kirkjugarðinum


Félagar úr kór Akraneskirkju og fleiri sungu


Hér sést klukknaturninn vel í eldri hluta garðsins - turninn var reistur til minningar um kirkjuhald í Görðum


Minnismerki í Görðum um sr. Jón M. Guðjónsson (1905-1994)

  • Menning

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Trúin

  • Viðburður

  • Frétt

Prestar í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra ásamt fyrirlesurum

Vorfundur presta í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra

26. apr. 2024
...síðasti prestafundur sr. Helgu Soffíu sem prófastur
Forsíðumynd-Sumardagurinn fyrst -skrúðganga á kirkjuplani.jpg - mynd

Sumardagurinn fyrsti í Bústaðakirkju

26. apr. 2024
...fjölsótt dagskrá í kirkjunni
Digraneskirkja

Laust starf

26. apr. 2024
...prests við Digranes- og Hjallaprestakall