Mikið um að vera

7. júlí 2021

Mikið um að vera

Starfsmaður frá Oidtmann í Þýskalandi tekur glugga úr Hallgrímskirkju í Saurbæ - mynd: Kristján Valur Ingólfsson

Sumarið er oft sá tími sem notaður er til að huga að ýmsum endurbótum og viðhaldi á húsum.

Hallgrímskirkja í Saurbæ er ein af fimm höfuðkirkjum þjóðarinnar enda sá staður einn af mestu sögustöðum þjóðarinnar. Þar varð eitt mesta trúarbókmenntaverk Íslendinga til, Passíusálmarnir, og nafn séra Hallgríms Péturssonar þar með tengt Saurbæ á Hvalfjarðarströnd um aldur og ævi.

Hallgrímskirkja í Saurbæ var vígð 28. júlí 1957 og hún sem önnur hús þarfnast umhyggju og eftirlits.

Kirkjan.is sló á þráðinn til sóknarnefndar Saurbæjarsóknar, Jóns bónda Valgarðssonar á Eystra-Miðfelli og spurði hann tíðinda.

Jón var að vanda hress í bragði og brennur sem fyrr fyrir málum kirkjunnar.

„Viðamesta framkvæmdin hjá okkur þessa dagana snýst um listgluggana sem eru í kirkjunni,“ segir Jón. Gluggarnir eru sjö alls, stór gluggi á vesturstafni, fimm sunnan megin og einn norðan megin. Höfundur þeirra er Gerður Helgadóttir (1928-1975).

„Í haust var tekin ákvörðun um listgluggana að ráð þýskra sérfræðinga frá Glasmalerei Oidtmann-verkstæðinu í Linnich í Þýskalandi að taka gluggana úr og flytja utan til viðhalds,“ segir Jón. „Kristján Loftsson, forstjóri Hvals hf., fór með einn sérfræðinginn í kirkjuna og bað hann að segja álit sitt á ástandi þeirra.“ Niðurstaðan var sú að taka allt glerið úr og senda til Þýskalands til viðgerðar. „Þó gluggarnir hafi ekki verið mjög illa farnir hjá okkur þá var þetta engu að síður niðurstaðan,“ bætir Jón við og er að vonum ánægður með að gluggunum verður gert gott til.

Jón segir að gluggarnir séu nýlega farnir út til Þýskalands og að þeir verði komnir aftur í haust og bætir við: „Mér finnst þeir reyndar dálítið bjartsýnir en það er hins vegar mikil drift í þessum mönnum.“

Það er ekki langt síðan að allir gluggar Skálholtsdómkirkju voru fluttir utan til endurbóta sem og gluggar Kópavogskirkju. Þá er og að geta eins glugga í Neskirkju. Þannig hefur þessum trúar- og menningarverðmætum verið sýnd tilskilin ræktarsemi og verðugur sómi. Nú verður hið sama gert við listgluggana í Hallgrímskirkju í Saurbæ.

Gluggaviðgerðin er kostnaðarsamt verk en Jón segir að aðaldriffjöðrin í verkinu sé Kristján Loftsson, forstjóri Hvals hf. „Við sögðum strax þegar gluggaviðgerðina bar á góma að við hefðum enga peninga í þetta, hundrað manna söfnuður,“ segir Jón, „en þá sagði Kristján Loftsson að við skyldum ekki hafa neinar áhyggjur af því, hann sæi um þetta.“ Hefur Kristján haft forystu um verkið ásamt nafna sínum séra Kristjáni Val Ingólfssyni en sá síðarnefndi er margreyndur í þessu efni eftir að gluggar Skálholtsdómkirkju fóru í sama ferli í vígslubiskupstíð hans í Skálholti.

Kristján Loftsson er einn af velgjörðarmönnum Hallgrímskirkju í Saurbæ. Foreldrar hans voru það einnig en þau Loftur Bjarnason (1898-1974) og Solveig Ingibjörg Sveinbjarnardóttir (1907-1999) gáfu tvo listglugga kirkjunnar og sýnir annar þeirra upprisu frelsarans en hinn er með í fyrirrúmi stefið Allt vald er mér gefið ... . Þá gaf fyrirtæki Lofts, Hvalur hf., altaristöflu kirkjunnar sem er eftir finnska listamanninn Lennart Segerstråle (1892-1975). Einnig gaf fyrirtæki hans eirþak kirkjunnar.

Kirkjan var máluð í tveimur áföngum. Sá fyrri var kirkjan sjálf og nú fyrir skömmu var byrjað að mála turninn og lauk verkinu síðastliðinn laugardag. 

„Já, svo er það nú orgelið okkar,“ segir Jón en vegna breytinga sem gerðar voru á rafmagni í sveitinni kom hærri rafspenna kom inn í kirkjuna og skemmdi bæði mótor í orgeli og kirkjuklukkum svo það þurfti endurnýja þá.“ Hann segir að svo hafi komið fljótlega í ljós að nýi mótorinn í orgelinu hafi verið of hávær en fyrir nokkru kom Björgvin Tómasson, orgelsmiður, með annan orgelmótor og miklu hljóðlátari. „Það gerbreytti öllu til hins betra,“ segir Jón. Pípuorgelið er tólf radda, norskt og kom í kirkjuna 1968.

Sumartónleikar í Hallgrímskirkju í Saurbæ hófust fyrir þremur vikum og þá í þriðja sinn. Þau sem eru þar í forsvari eru Valdís Inga Valgarðsdóttir og Jósep Gíslason. „Í hópinn hefur bæst við öflugur liðsauki sem er Margrét Bóasdóttir, söngmálastjóri þjóðkirkjunnar,“ segir Jón.

Tónleikarnir eru á sunnudögum og hefjast kl. 16.00. Næstu tónleikar eru á sunnudaginn, 11. júlí, en yfirskrift þeirra er: Kvennakraftur í ljóðum og lögum. Það eru þær Auður Gunnarsdóttir og Eva Þyrí Hilmarsdóttir sem sjá um þá.

Ýmsir aðilar styðja Sumartónleikana í Hallgrímskirkju í Saurbæ en allur aðgangseyrir rennur óskiptur til kirkjunnar.

Nýtt hljóðkerfi kom í kirkjuna í marsmánuði og hefur reynst mjög vel.

Hallgrímskirkja í Saurbæ er opin alla daga vikunnar frá kl. 9.00 á morgnana til kl. 18.30.

hsh


Það er vandaverk að taka listglugga úr



Vaskur hópur að störfum


Listgluggi á vesturgafli - þrjú stef: Jesús í Getsame; frammi fyrir Pílatusi og hið þriðja: Júdas og hermenn koma til Jesú og hann svarar þeim: „Ég er hann.“


Turninn málaður

  • Menning

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Sóknarnefndir

  • Trúin

  • Frétt

Lokahátíð barnastarfsins í Akureyrarkirkju.jpg - mynd

Lokahátíð barnastarfs Akureyrarkirkju 2024

29. apr. 2024
...mikil tónlistrveisla
Færir foreldrar.jpg - mynd

Færir foreldrar á foreldramorgni

29. apr. 2024
...áhugavert samstarf söfnuða í Reykjavík
Prestar í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra ásamt fyrirlesurum

Vorfundur presta í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra

26. apr. 2024
...síðasti prestafundur sr. Helgu Soffíu sem prófastur