Vígð til þjónustu í Noregi

21. ágúst 2021

Vígð til þjónustu í Noregi

Fremri röð frá vinstri: sr. Auður Eir Vilhjállmsdóttir, sr. Gunnbjörg Óladóttir, sr. Agnes M. Sigurðardóttir, sr. Elínborg Sturludóttir. Aftari röð frá vinstri: sr. Sigríður Guðmarsdóttir, sr. Kristján Valur Ingólfsson, sr. Sigurður Jónsson og sr. Guðrún Karls Helgudóttir - mynd: hsh

Kirkjan.is sló á þráðinn til hins nývígða prests og spurði hana út í norska prestakallið í Guðbrandsdal.

„Það eru fjögur þúsund manns í sókninni,“ segir sr. Gunnbjörg, „og ég er annar tveggja sóknarpresta og kirkjurnar eru tvær.“ Hún segir að þegar ljóst hafi verið að hún fengi starf í Nord-Fron þá hafi hún skellt sér í norskunám og það hefur staðið yfir í allt sumar og gengið vel.

Rætur hennar liggja í Samhjálparstarfi hvítasunnuhreyfingarinnar en hún fékk starfsþjálfun innan kirkjunnar þegar hún var í guðfræðináminu. Hin síðari ár hefur sr. Gunnbjörg unnið skrifstofustörf hjá sjávarútvegsfyrirtæki sem nú heitir Útgerðarfélag Reykjavíkur.

Það er nýlunda að prestsvígsla fari fram á fimmtudegi. En allt á sér sínar skýringar. Gunnbjörg Óladóttir var vígð til prestsþjónustu í Hamarbiskupsdæmi í Noregi. Biskupinn í því biskupsdæmi, Solveig Fiske, ætlaði að sjálfsögðu að taka þátt í prestsvígslunni og tengja ferð sína fundahöldum hér og fimmtudagurinn var eini dagurinn sem var laus. En kórónuveiran brá fæti fyrir þá fyrirætlan hins norska biskups. Veiran sú arma var hins vegar ekki látin snúa niður ákvörðun um þennan vígsludag enda vígsluþegi búinn að panta sér flug til Noregs nú á sunnudaginn. Hún mun hefja störf strax á miðvikudaginn.

Prestsbústaður fylgir starfinu og ætlar sr. Gunnbjörg að skoða hann á næstunni; stórt og veglegt hús.

Sr. Gunnbjörg er full tilhlökkunar yfir því að halda utan og takast á við hið nýja starf.

hsh


  • Frétt

  • Messa

  • Samfélag

  • Trúin

  • Viðburður

  • Biskup

Logo.jpg - mynd

Opið fyrir umsóknir um styrki úr kynningar-, fræðslu- og útgáfusjóði Þjóðkirkjunnar

06. maí 2025
Hlutverk sjóðsins að styðja við og efla kynningar- og fræðslustarf kirkjunnar svo og útgáfustarfsemi á því sviði.
Sr. Karen Hjartardóttir

Sr. Karen Hjartardóttir ráðin

05. maí 2025
...í Setbergsprestakall
Screenshot 2025-05-01 at 16.03.32.png - mynd

Ályktanir presta- djáknastefnu 2025

01. maí 2025
Þrjár ályktanir voru samþykktar af presta- og djáknastefnu. Þær má sjá hér.