Viðtalið: Í mörg horn að líta

10. nóvember 2021

Viðtalið: Í mörg horn að líta

Sr. Sigfús Kristjánsson, prestur Íslendinga í Danmörku, á skrifstofu sinni, mynd: Helga Soffía Konráðsdóttir Sr. Sigfús Kristjánsson var ráðinn sem sendiráðsprestur  í Danmörku í ágúst í fyrra. Þá hafði ekki verið starfandi sérstakur prestur Íslendinga í Kaupmannahöfn í tíu ár. Ástæða þess var sú að þegar efnahagshrunið dundi á landanum 2008 var ákveðið að leggja niður tímabundið störf presta sem þjónuðu Íslendingum ytra. Þó hafði sr. Ágúst Einarsson, prestur Íslendinga í Gautaborg, sinnt helgihaldi og fermingarfræðslu fyrir íslenska söfnuðinn í Danmörku.

Aðstæður í samfélaginu voru með þeim hætti þegar sr. Sigfús tók við starfinu að kórónuveirufaraldurinn gekk yfir. Mörgu þurfti því að haga með öðru móti en áður tíðkaðist. Meira um það síðar.

Víðtæk þjónusta í orðsins fyllstu merkingu

Kirkjan.is tók sr. Sigfús tali og forvitnaðist um hagi hans og safnaðarins. Lék forvitni á að vita hverjum væri verið að þjóna í raun og veru:

„Prestur Íslendinga í Danmörku þjónar öllum Íslendingum sem þar búa,“ svarar sr. Sigfús. „Þeir eru að jafnaði um tólf þúsund“.

Það er því ljóst að kirkjusamfélagið íslenska er nokkuð dreift en flest sóknarbarnanna búa þó í Kaupmannahöfn og þar í grennd.

Sr. Sigfús segir að messað sé einu sinni í mánuði í Kaupmannahöfn í Esajas-kirkju. „Það er stutt þaðan í Jónshús sem skiptir okkur miklu máli því þar er alltaf messukaffi og góð samvera eftir messu,“ segir sr. Sigfús. Hátíðarmessur eru að sjálfsögðu um jól og páska, fermt er á annan dag hvítasunnu. Þá sé sunnudagaskólahald aðra hverja helgi og fer hann fram í Jónshúsi. Eldriborgarastarf fer einnig fram í Jónshúsi og kemur presturinn einnig að því.

„Við stefnum að því að hafa eina messu á önn í Árósum en vegna kórónuveirunnar var hún rafræn síðast,“ segir sr. Sigfús, „en með því að nýta tæknina sá íslenskur kór í Árhúsum um tónlistina.“

Og messusókn, hún góð?

„Guðsþjónustur eru vel sóttar,“ segir sr. Sigfús glaður í bragði, „yfirleitt um hundrað manns sem koma saman.“ Hann segir að ekki sé starfandi formlegur kirkjukór en nokkrir íslenskir kórar starfa í borginni og hafa þeir skipst á að syngja við guðsþjónustur. Þeir hafi séð um messukaffið.

Fermingarstarfið
Fermingarfræðsla er skemmtilegur hluti af starfinu að sögn sr. Sigfúsar en fjöldi fermingarbarna sé nokkuð breytilegur milli ára. Undanfarin ár hafi fermingarbörnin verið milli fimm og tuttugu. Fermingarhópurinn hittist að jafnaði mánaðarlega en aðalatriðið í fræðslunni séu tvær helgarferðir til Svíþjóðar. „Það er mikilvægt fyrir margar fjölskyldur að eiga samfélag þar sem börnin geta heyrt og talað saman á íslensku,“ segir sr. Sigfús.

Kirkjan í kórónuveirufaraldrinum

Þegar kórónuveiran herjaði af hvað mestum þunga gat söfnuðurinn ekki komið saman að sögn sr. Sigfúsar og fór þá starfsemi hans fram eins og hægt var á netinu. „Messur voru teknar upp og sendar út og þá kom sér vel að hér er margt frábært íslenskt tónlistarfólk,“ segir sr. Sigfús. „Einnig tók ég upp vikulegar hugleiðingar um texta dagsins sem var miðlað á netið. Fermingarfræðslan fór einnig fram í gegnum tölvu.“

Skírnir og fleiri athafnir

Sr. Sigfús segir að skírnarathafnir séu margar og fari þær oftast fram í heimahúsi.

„Það er ekki óalgengt að hálfur dagur fari í skírn enda geta vegalengdirnar verið töluverðar,“ segir sr. Sigfús. „En það er líka nokkuð vinsælt að hafa skírnir í Jónshúsi á sýningunni um heimili Jóns og Ingibjargar.“ Hann segir að enn sé beðið leyfis frá danska kirkjumálaráðuneytinu um að prestur Íslendinga megi gefa saman hjón og verði það vonandi fljótlega. „Eins og staðan er núna hafa hjón þurft að ganga frá lagalega hlutanum í ráðhúsinu,“ segir hann.

Hann segir útfarir vera nokkrar á ári en fáar miðað við fjölda Íslendinga og er það meðal annars vegna þess að oft fari útfarir fram á Íslandi.

Rekstur safnaðarins

Presturinn er eini starfsmaður íslenska safnaðarins. Söfnuðurinn fær ekki sóknargjöld og hefur því ekki úr miklu að moða.

„Allt starfið er rekið fyrir styrk frá þjóðkirkjunni heima, um milljón á ári,“ segir sr. Sigfús. Það fé fari í að greiða fyrir afnot af kirkju, undirleik organista og svo hafi tónlistarfólk fengið hógværa upphæð fyrir sitt framlag. „Hér eru hins vegar frábærir sjálfboðaliðar og margir til í að leggja sitt af mörkum til að glæða safnaðarstarfið lífi,“ segir sr. Sigfús og bætir því við að sóknarnefndin og allir sem komi að safnaðarstarfinu eigi mikið hrós skilið. „Það er gaman að segja frá því að þó nokkur dæmi eru um einstaklinga sem hafa kynnst kirkjustarfinu hér sem hafa svo boðið fram starfskrafta sína eftir að hafa flutt heim til Íslands,“ segir sr. Sigfús.

Prestur safnaðar og sendiráðs
Starf sendiráðsprests er byggt á samningi milli utanríkisráðuneytis og þjóðkirkjunnar. Skrifstofuaðstaðan er í sendiráði Íslands í Kaupmannahöfn. Segja má að vinnustaðir prests séu þrír. Sendiráðið, Jónshús og Esajas-kirkja. Í starfinu felst líka þátttaka í borgaraþjónustu sendiráðsins. Þangað koma margir Íslendingar og reynt sé að leysa úr málum eins og hægt er. Störfin eru fjölbreytt, allt frá endurnýjun vegabréfa og ferðaráðum til vandasamra viðtala vegna andláta eða annarra áfalla. Það er mikið um erfið mál og kemur presturinn að þeim mörgum. Oft sé ekki ljóst hvar mörkin milli prestsstarfsins og borgaraþjónustu liggi. Prestur hittir fólk í ýmsum aðstæðum, á bestu stundum lífsins en starfinu fylgja líka heimsóknir í sjúkrahús, fangelsi og aðra staði þar sem lífið hefur ekki farið eins og við vonuðum.


Það sem kemur á óvart


Sr. Sigfús segir að það hafi komið skemmtilega á óvart hve miklar væntingar voru gerðar til starfsins. Eins og fram hefur komið var enginn sérstakur þjónandi prestur á svæðinu í um áratug. Fólk hefur verið fullt tilhlökkunar fyrir starfinu og mikil ánægja með að fá loksins sinn prest. „Einnig var gaman að finna hvað norrænu kirkjurnar hérna standa saman og höfum við fengið kveðjur frá þeim með óskum um samstarf og samveru,“ segir sr. Sigfús.

Hann segir að það hafi verið einstaklega ánægjulegt hve margir hafi verið tilbúnir að taka þátt í starfinu með söfnuðinum og gefa sína vinnu. „Eftir að hafa setið marga sóknarnefndarfundi á Íslandi þá var gaman að upplifa að hér snýst allt um starfið,“ segir sr. Sigfús, „Heima fer mikill tími í nauðsynlega praktíska hluti eins og viðhald á kirkju og aðbúnaði þar. Hér eigum við enga kirkju, höfum ekkert starfsfólk og öll orkan fer í safnaðarstarf.“ Hann segir að vonir þeirra standi svo til að geta aukið við starfið og ýmislegt sé á dagskránni t.d. að efla æskulýðsstarfið og fara af stað með sorgarhóp og bæta við kaffihúsamessum í Jónshúsi. Einnig sé draumur að geta betur sinnt þeim sem búi lengra frá höfuðborginni.

Fjölskyldan á nýjum slóðum

Sr. Sigfús er kvæntur Arndísi Th. Friðriksdóttur, sérkennara og eiga þau tvær dætur. Flutningur milla landa er ætíð spennandi og krefjandi.

„Dætur okkar fóru úr sínum skólum og byrjuðu að læra í nýju landi á nýju tungumáli,“ segir sr. Sigfús. „Arndís konan mín fór strax í að láta meta sín próf sem sérkennari og er nú farin að vinna í sérskóla hér í Kaupmannahöfn.“

Sr. Sigfús segir að allt hafi þetta verið gefandi og reynt á fjölskylduna með ýmsum hætti eins og gefi að skilja. Kórónuveirutímabilið hafi verið einna erfiðast en þá var samfélagið nánast lokað.

„Þegar öllu er á botninn hvoft þá er þetta þó mikið ævintýri og við fjölskyldan erum sammála um að það séu mikil forréttindi að fá að breyta svona til og eignast nýja lífsreynslu,“ segir sr. Sigfús. „Við horfum björtum augum til framtíðar og vonum að bæði fjölskyldulífið og lífið í söfnuðinum muni dafna á komandi árum.“

hsh


Esajas-kirkja sem íslenski söfnuðurinn hefur aðgang að 


Inni í kirkjunni, látlaust og vistlegt


Barnastarfið er mikilvægt og fer fram í Jónshúsi


Samstarfsfólk sr. Sigfúsar og með á myndinni er sr. Helga Soffía Konráðsdóttir, prófastur í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra, en hún setti sr. Sigfús inn í starfið í lok októbermánaðar. Frá vinstri: Lárus F. Guðmundsson, gjaldkeri safnaðirns, Vala Ólafsdóttir, ritari sóknarnefndar, sr. Helga Soffía, sr. Sigfús, Vera Guðmundsdóttir, formaður sóknarnefndar og Tinna Magnúsdóttir, meðstjórnandi. Á myndina vantar Ragnheiði B. Gelting, varaformann.

Prestar Íslendinga á Norðurlöndum. Frá vinstri: sr. Inga Harðardóttir, Noregi, sr. Sigfús í Danmörku, sr. Helga Soffía, prófastur, og sr. Ágúst Einarsson, Svíþjóð                                                                                                                      

  • Menning

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Skipulag

  • Starf

  • Trúin

  • Frétt