Falleg morgunstund

10. desember 2021

Falleg morgunstund

Jólaguðspjallið í Háteigskirkju - börn úr Ísaksskóla léku - gistihússeigandinn vísar á fjárhúsin því að ekkert gistipláss var laust - mynd: hsh

Þremur sjö ára bekkjum í Ísaksskóla var boðið að koma í Háteigskirkju og taka þátt í helgileik jólanna. Hver bekkur kom einn út af fyrir sig og í hverjum bekk eru um sautján börn.

Í raun var þetta meira en að setja upp helgileik. Þetta var ævintýraferð í kirkjuna. Ferðalag í þetta stóra og hvíta guðshús við Háteigsveg á Rauðarárholti, með fjórum myndarlegum turnspírum sem teygja sig kröftuglega til himins.

Í gær kom þriðji og síðasti bekkurinn og var kirkjan.is á staðnum. Börnin gengu fylktu liði til kirkju, prúð og frjálsleg í fasi, eins og segir þar í kvæðinu. Kirkjuklukkunum var hringt og fögnuðu þær hinum ungu gestum.

Þegar inn í forkirkjuna var komið fóru þau úr úlpum sínum og litu í kringum sig. Á litlum palli stóð þar manneskja, teinrétt í baki með ullarhúfu á höfði, allharðleit á svip. Eftir smá stund hóf hún upp raust sína og þar var hvorki meira né minna en sjálfur Ágústus keisari kominn sem jólaguðspjallið nefnir á nafn. Það var sóknarpresturinn, sr. Helga Soffía Konráðsdóttir, sem skilaði þar góðum leik. Börnin fengu boð um að þau skyldu skrásetja sig og svo fengu þau að heyra alls konar skrítin nöfn, biblíunöfn.

Þrjú barnanna fengu síðan hlutverk vitringanna og klæddust fallegum gljáandi skikkjum. Síðan fóru þau saman upp á söngloftið og sungu jólasálm á leiðinni undir stjórn tónmenntakennara Ísaksskóla, Bjargar Þórsdóttur. Eftir nokkra stund komu þau í fallegum búningum ofan af söngloftinu sem kynnt hafði verið fyrir þeim sem himnaríki og gengu inn kirkjuna eins og lítil englasveit. Börnin settust við hina fallegu mósaíkmynd sem listamaðurinn Benedikt Gunnarsson gerði; hún sýnir guðsmóðurina og Jesúbarnið. Björg sagði þeim áframhald jólaguðspjallsins og fleiri börn klæddust búningum, hirðar og englar, María og Jósef. Áfram var sungið við orgelundirleik og síðan hélt samveran áfram.

Farið var að skrúðhúsinu og þar bankað upp á – enda þurftu þau María og Jósef húsaskjól þar sem hún átti von á barni. Eftir nokkra stund var hurð svipt upp með allnokkrum fyrirgangi svo sum barnanna hrukku við og var þar kominn gistihússeigandinn. Þó hávaðasamur og óliðlegur væri í fyrstu þá rann það af honum og vísaði hann Maríu og Jósef í fjárhúsið sem var bak við altarið. Öll börnin fylgdust með. Svo var sungið eitt vers úr Heims um ból og gengið fram fyrir altarið; mynd tekin af öllum börnunum.

Þessi samvera í Háteigskirkju var einstaklega hlý og persónuleg. Einföld og áreynslulaus. Búningar fallegir og öll börnin til í að taka að sér hlutverk.

Það var Guðný Einarsdóttir, organisti í Háteigskirkju, sem stóð fyrir þessari samveru. Sagðist hún hafa kynnst henni í Kaupmannahöfn en þar var hún við orgelnám á sínum tíma.

Kirkjan.is fylgdist vel með stundinni og sá ekki betur en að börnin hefðu mikinn áhuga fyrir efninu og væru fús til þátttöku. Enda var leiðsögn þeirra sem að henni komu einkar vönduð og hlý. Enginn asi var á neinum og stundinni fylgdi það tímaleysi sem einkennir hið heilaga jólaguðspjall.

En það var ekki bara kirkjan.is sem fylgdist með. Annar fjölmiðill myndaði samveruna í bak og fyrir. Það var RÚV. Síðar um kvöldið sagði fréttakonan, Kristín Sigurðardóttir, frá heimsókn sinni og tökumannsins, Þórs Ægissonar, í Háteigskirkju. Það var besta fréttin í sjónvarpinu það kvöldið – eins og þessi sem þú ert að lesa, er besta frétt dagsins.

hsh


Börnin koma til kirkju


Ýmsir voru áhugasamir um Ágústus keisara sem tók á móti börnunum


Búningar biðu barnanna, fallegir og við hæfi


Rætt við börnin um jólaguðspjallið 


Björg Þórsdóttir hélt vel utan um alla þræði


María og Jesúbarnið - mósaíkmynd eftir Benedikt Gunnarsson (1929-2018)


Þær höfðu veg og vanda af öllum undirbúningi, Þóra til vinstri og svo Guðný                              


Fréttir kvöldsins - óvenju ítarlegar fréttir um þennan fallega viðburð í Háteigskirkju


Guðný Einarsdóttir, organisti í Háteigskirkju


Fjárhúsið var bak við altarið - á vel við því að það er helgasti staðurinn í hverri kirkju


Síðan gengu börnin heim eftir góða stund og eftirminnilega í kirkjunni 

  • Frétt

  • Menning

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Tónlist

  • Trúin

  • Viðburður

  • Barnastarf

Sr. Eva Björk Valdimarsdóttir

Sr. Eva Björk Valdimarsdóttir ráðin biskupsritari

18. maí 2024
...hefur störf með nýkjörnum biskupi Íslands
Háteigskirkja

Tíu sækja um Háteigsprestakall

17. maí 2024
...umsóknarfrestur rann út 14. maí