Kirkja og list: Með nýju sniði

11. desember 2021

Kirkja og list: Með nýju sniði

Stokkseyrarkirkja - á morgun verður listastund í kirkjunni og hefst hún kl. 18.00 - mynd: hsh

Listakonan heitir Kristín Björk Kristjánsdóttir og listamannsnafn hennar er Kira Kira. Hún stendur fyrir tónleikaröð i þremur kirkjum á Suðurlandi og fyrstu tónleikarnir voru í gær í Strandarkirkju í Engilsvík. Þeir tónleikar gengu vel fyrir sig: „Það var yndisleg stemmningin í Strandarkirkju, Engilsvíkin er magnaður staður!“ segir listakonan

„Þetta er í fyrsta sinn sem ég er með svona tónleikaröð í sveitakirkjum, en mér hefur hins vegar nokkrum sinnum verið boðið að taka þátt í Kirkjulistahátíð og þá í öll skiptin í Hallgrímskirkju,“ segir Kira Kira þegar kirkjan.is spyr hana úti í tiltækið. Hún segist hafa flutt til Stokkseyrar fyrir um tveimur árum og hafi lengi alið með sér þann draum að halda tónleika í einhverjum af þessum fallegu kirkjum á svæðinu.

„Ég upplifi ákveðna lotningu þegar ég kem í kirkjur eins og Hraungerðiskirkju í Flóahreppi og það er einhvern veginn mjög satt og gott ástand til þess að skapa út frá, halda tónleika, syngja og töfra fram myndlist í samhljómi við aðra sem líður eins,“ segir listakonan Kira Kira og er greinilega full tilhlökkunar.

En Kira Kira er ekki ein á vettvangi. Með henni er tónlistarfólk sem og annað listafólk.

Í dag, laugardaginn 11. desember verður listastund í Hraungerðiskirkju í Flóahreppi. Með henni verða ljósmyndarinn Snorri Hertervig og Frímann Kjerúlf Björnsson myndlistarmaður og eðlisfræðingur. „Spennandi að sjá hvaða töfrar verða til í kringum þessa stund,“ segir Kira Kria.

Á morgun, sunnudaginn 12. desember, verður svo listastund í Stokkseyrarkirkju kl. 18.00. Ásamt Kiru Kiru koma fram tónlistarmaðurinn Hermigervill og söngkonan og gítarleikarinn Sandrayati Fay frá Balí, en þetta verður einnig Stokkseyrarfrumsýningin á stuttmynd Kiru Kiru, „Eldingar eins og við,“ -11 mínútna draumferðalagi í Unaðsdal á Snæfjallaströnd þaðan sem Kira Kira er ættuð.

Listakollektívan Brimrót býður upp á aðventumarkað og yljandi hressingu fyrir og eftir tónleikana á Stokkseyri, í húsnæði sínu þar sem áður var félagsheimilið Gimli sem varð einmitt 100 ára á dögunum en einnig lítur rithöfundurinn Ísak Harðarson við og les upp fyrir gesti.

hsh


Hér leikur Kira Kira á langspil og spiladós í Strandarkirkju

  • List og kirkja

  • Menning

  • Nýjung

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Tónlist

  • Viðburður

  • Frétt

  • Fréttin er uppfærð

Sr. Eva Björk Valdimarsdóttir

Sr. Eva Björk Valdimarsdóttir ráðin biskupsritari

18. maí 2024
...hefur störf með nýkjörnum biskupi Íslands
Háteigskirkja

Tíu sækja um Háteigsprestakall

17. maí 2024
...umsóknarfrestur rann út 14. maí