Erlend frétt: Kross um háls

6. janúar 2022

Erlend frétt: Kross um háls

Skartgripir sem vísa til trúar og menningar eru mjög algengir í almannarými, starfsrými og einkarými - mynd: hsh

Trúarlegir skartgripir eru sums staðar litnir hornauga og ekki taldir eiga við.

Svo var um lítinn gullkross sem hjúkrunarfræðingur á skurðstofu bar um hálsinn og hafði gert í fjörutíu ár. Krossinn var henni mjög kær enda hún kristin kona. Blaðútgáfa The Daily Telegraph greinir frá þessu í morgun.

Croydon-háskólasjúkrahúsið sem hún starfaði við gerði þá kröfu að hún bæri ekki krossinn í vinnunni auk þess sem hann væri sýklaberi. Hún mótmælti því og lét sér ekki segjast. Benti á að ýmsir á sjúkrahúsinu væru með alls konar skartgripi og sumir þeirra hefðu trúarlega merkingu.

Yfirvöld sjúkrahússins gáfu sig í engu. Þau tóku hjúkrunarfræðinginn, Mary Onuoha, úr almennum störfum hjúkrunarfræðings og settu hana í starf móttökuritara. Mary upplifði framkomuna svo að litið væri á hana sem afbrotakonu. Fór svo að hún þoldi ekki við á vinnustað sínum vegna álags og streitu og sagði upp.

En Mary vildi ekki una þessari framkomu sjúkrahússins og fór með málið fyrir dóm sem nýlega féll henni í vil. Dómurinn sagði að sjúkrahúsið hefði horft fram hjá því „niðurlægjandi, fjandsamlega og ógnandi vinnuumhverfi,“ sem það hefði búið starfsmanninum.

Í dómsorði sagði auk þess: „Almenn skynsemi segir að ljóst sé að ákaflega lítil sýkingarhætta fylgi hálsmeni sem starfsfólk skurðstofu ber af fullri ábyrgð og fer auk þess að öllum settum sóttvarnareglum.“ Viðbrögð sjúkrahússins við kvörtunum Mary hefðu verið „lítillækkandi og full af þöggunartilburðum.“ Afstaða til skaðabóta verður tekin síðar.

Almannatengill breska sjúkrahúsakerfisins (National health service: NHS) sagði að reglur um klæðaburð og skartgripi (dress code) í störfum á sjúkrahúsum hefðu þegar verið uppfærðar. Leyfilegt væri að bera skartgripi og tákn sem bæru í sér trúarleg tákn sem og menningarleg.

Christian Legal Centre studdi hjúkrunarfræðinginn í málaferlunum enda þau kostnaðarsöm.

Segja má að þetta mál sé dæmi um ólíkar skoðanir á trúartjáningarfrelsi í vinnurými en það kemur iðulega til umræðu. Kunn eru dæmi um þar sem múslímskum konum er bannað að bera slæðuna (eða: blæjuna: hijab).

Kirkjan.is þekkir ekki til þess hvort einhverjar reglur séu á sjúkrahúsum hér á landi sem lúta að því hvort starfsfólk megi bera hefðbundin trúarleg tákn í vinnunni eða ekki.

The Daily Telegraph/hsh


Mary Onuoha, hjúkrunarfræðingur, hafði sigur - og þarna sést að sjálfsögðu krossinn góði og dýrmæti

Sjá hér vef  um ofsóknir á hendur kristnu fólki


  • Frétt

  • Menning

  • Samfélag

  • Trúin

  • Erlend frétt

Sr. Guðrún og frú Agnes

Nýkjörnum biskupi fagnað á biskupsstofu

07. maí 2024
...fjölmiðlum boðið til fagnaðarins
Guðrún Karls-ný mynd.jpg - mynd

Sr. Guðrún Karls Helgudóttir kjörin biskup Íslands

07. maí 2024
...síðari umferð lauk í dag