Erlend frétt: „Með sérstakri umhyggju...“

9. febrúar 2022

Erlend frétt: „Með sérstakri umhyggju...“

Tilfinningaguðsþjónusta - snerting er mikilvæg - mynd: Diakonissestiftelsen

Í nokkur ár hefur danska þjóðkirkjan beint augum sínum að helgihaldsþörf þeirra sem glíma við hvers kyns heilabilun. Orsakir heilabilunar eru margir sjúkdómar en sá algengasti er alzheimer (taugahrörnunarsjúkdómur). Hátt í eitt hundrað þúsund manns búa við heilabilun í allri Danmörku.

Danska þjóðkirkjan hefur skoðað þessi mál rækilega og sent frá sér skýrslur. Þar kemur fram að stórauka þarf samstarf kirkju og félagsmálayfirvalda í starfi meðal heilabilaðra. Samvinnan strandar á gagnkvæmum fordómum og þekkingarskorti, segir þar í skýrslunni.

Nú er svo komið að á mörgum hjúkrunar- og dvalarheimilum í Danmörku eru sérstakar guðsþjónustur ætlaðar fólki sem glímir við sjúkdóma sem tengjast minnisglöpum og andlegri hrörnun. Hefðbundnar guðsþjónustur fara gjarnan fyrir ofan garð og neðan hjá þeim sem glíma við sjúkdóma sem tengjast heilabilun. Þessar sérstöku guðsþjónusturnar eru einfaldar og höfða til tilfinningalífs fólks.

Í þessu sambandi er nýkomin út handbók, Nærvær og tid (Nærvera og tími) þar sem er að finna tillögur að helgihaldi með fólki sem er heilabilað. Höfundar eru Rose Marie Tillisch og Line Skovgaard Pedersen.

Kirkjan.is ræddi í morgun við sr. Maríu Krogh Hjertholm, prest hjá Diakonissestiftelsen á Friðriksbergi í Kaupmannahöfn. Áður starfaði hún sem prestur í Bellahøj og Brønshøj-kirkju, einnig um tíma á Bispebjergsjúkrahúsinu. Sr. María Krogh bjó í hálft ár á Íslandi og fékkst við bókaskrif. Tvær bækur eru komnar frá hennar hendi, Vent! og Ord, vind, kød. Hún vann með á kaffibar í Reykjavík: „Því miður kann ég ekki íslensku,“ segir hún og hlær léttum hlátri hinum megin á línunni. Hún talar hraða Kaupmannahafnardönsku sem eyrun þurfa að fylgja fast eftir.

„Það var yndislegt að búa á Íslandi þó stutt væri,“ segir hún glaðlega, „Hallgrímskirkja átti gjörsamlega hug minn og hjarta.“

Sr. María þjónar tveimur dvalar- og hjúkrunarheimilum á vegum Diakonissestiftelsen á Friðriksbergi.

En hvernig ganga tilfinningaguðsþjónustur (d. sansegudstjeneste) fyrir sig?

„Þær eru mjög heimilislegar, við syngjum sálma og það er ótrúlegt hvað fólk man textann vel sem það lærði í æsku,“ segir sr. María, „prédikunin er mjög stutt og einföld, fjórarfimm mínútur, ritningarlestrar eru stuttir.“ Sr. María segir að guðsþjónustan sé oft byggð upp í kringum nokkur kjarnaorð. Gjarnan eru notaðir hlutir eins og steinar og blóm. „Það getur vakið upp minningar frá því að þú varst barn ef þú heldur á steini,“ segir sr. María, „eins er með blóm en ilmur þeirra kallar oft á alls konar minningar sem ekki er hægt að setja í orð.“ Fleira er notað eins og sandur og vatn – allt sem kallar fram einhverja minningar úr barnæsku eða fullorðinsárum – reynt er að tala „inn í“ tilfinningarnar. Í guðsþjónustunni er talað við hvern og einn sem sækir hana, presturinn eða starfsfólkið. „Það hefur tekist vel að virkja starfsfólkið,“ segir sr. María.

Oft er í lok guðsþjónustunnar sameiginleg máltíð eða kaffiveitingar.

„Þetta er sérstakur hópur sem við verðum að sinna af kærleika í anda fagnaðarerindisins,“ segir sr. María. „Með sérstakri umhyggju.“

Þau sem eru haldin alvarlegu minnistapi verða oft fyrir málstoli. Þó svo sé geta þau átt samskipti en með öðru móti en venjulega. Það eru tilfinningar sem tala, hlýja og umhyggja, minningar sem geta tengst hlutum og orðum. Tilgangslaust er að spyrja fólk með minnistap hvað það hafi borðað í hádeginu eða hvort einhver hafi komið í heimsókn, þau muna það ekki. Slíkar spurningar geta komið fólkinu í erfiða aðstöðu og ýtt undir þá tilfinningu að þau sé eitthvað öðru vísi en aðrir. Í tilfinningaguðsþjónustu eru þau þau sjálf, enginn spyr um neitt sem reynir á minnið, þau eru bara þátttakendur með sínum hætti og á sínum forsendum.

Öldruðum fjölgar í nútímasamfélagi. Fjölgun þeirra hér á landi hefur verið hlutfallslega mikil. Hin opinbera stefna er sú að aldraðir geti sem lengst búið heima hjá sér eins og mögulegt er. Hjúkrunar- og dvalarheimili sinna nú mun veikara fólki en áður og þar er meðal dvalartíminn tvö og hálft ár.

Lögð er áhersla á að aldraðir séu þátttakendur í samfélaginu og þeim sé sýnd virðing og umhyggja. Öldrunarstarf er víða í sveitarfélögum og rekið af miklum myndarskap.
Kirkjur bjóða upp á starf með eldri borgurum. Starfandi er á vegum kirkjunnar sérstök ellimálanefnd og Eldriborgararáð á vegum Reykjavíkurprófastsdæmanna.

Dvalar- og hjúkrunarheimili njóta mörg kirkjulegrar þjónustu frá þeirri sókn sem þau eru í. Þó er sérstakur prestur á dvalar- og hjúkrunarheimilinu Grund. Þá er djákni að störfum á dvalar- og hjúkrunarheimilinu Sóltúni sem vinnur með heilabiluðu fólki og hefur sniðið þjónustu sína að þörfum þess. 

hsh


Sr. Marija Krogh Hjertholm 


  • Frétt

  • Kærleiksþjónusta

  • Sálgæsla

  • Samfélag

  • Trúin

  • Erlend frétt

  • Fréttin er uppfærð

  • Eldri borgarar