Erlend frétt: Kröftug kynning

12. febrúar 2022

Erlend frétt: Kröftug kynning

Norska kirkjan vinnur skipulega að kynningarmálum með aðstoð nútímatækni - mynd: LWF/Mimi Thian

Norska kirkjan hefur undanfarin misseri haldið úti kröftugu kynningarstarfi. Ekki fyrir löngu fékk norska kirkjan viðurkenningu fyrir stutt myndband sem gert var til að kynna safnaðarstarf. Gerð myndbandsins var í höndum fyrirtækis og fagfólks sem kann vel til verka. Það skiptir sköpum. Titill myndbandsins er: Nálægt lífinu. Það er stutt myndband og má sjá hér að neðan.

Markmið myndbandsins er að sýna kirkjuna sem öflugan og góðan vinnustað.

Mikið starf fer fram í kirkjum landsins og það kostar auðvitað sitt. Mikilvægt er að ná til sem flestra með fjölbreytilegu kirkjustarfi í nútímanum. Ein leið í amstri nútímans er sú að kalla til fagfólk og útbúa snjallar og einbeittar kynningar sem hitta fólk beint í hjartastað. Það tókst Norðmönnum með stuttu og áhrifaríku myndbandi.

„Við gerðum þetta myndband fyrir menntaráðstefnu í Noregi,“ segir Siv Thompson, samskiptaráðgjafi norsku kirkjunnar. „Síðasta menntaráðstefna fór fram rafrænt og þúsundir stúdenta um allt land áttu þess kosta að sjá þetta myndband.“ Myndbandið var gert til að vekja athygli ungs fólks á að kirkjan væri góður vinnustaður. Þess vegna væri tilvalið að velja eitthvert nám sem nýttist kirkjunni, prestsnám, djákna, organista o.fl. Eins og kunnugt er þá er nokkur prestaskortur í Noregi. 

Fagfólkið sem veitti ráðgjöf við gerð myndarinnar segir að vinnan hafi verið gefandi og ánægjuleg. Starfsfólk kirkjunnar vinni náið með fólki í ólíklegustu aðstæðum lífsins og það hafi verið aðdáunarvert að fylgjast með því. 

Söfnuðir hér heima sýndu hvað í þeim bjó þegar róðurinn var hvað þyngstur í kórónuveirufaraldrinum. Mörg myndbönd þeirra vöktu athygli fyrir gæði og vönduð vinnubrögð. Stundum var safnaðarstarf kynnt í nokkrum þeirra eða þá kirkjuhúsin. Það væri umhugsunarefni hvort prófastsdæmin ættu ekki að gera myndbönd í þessum dúr til að kynna starf kirkjunnar innan þeirra. Sömuleiðis þjóðkirkjan sjálf í anda hinna norsku.

The Lutheran World Federation/hsh

 
Verðlaunamyndbandið


Kirkjan er góður vinnustaður

Heimasíða norsku kirkjunnar.

  • Frétt

  • Menning

  • Samstarf

  • Trúin

  • Erlend frétt