„Friður verður að ríkja...“

24. febrúar 2022

„Friður verður að ríkja...“

Þjóðfáni Úkraínu - mynd: Wikipedia

Fjögur kristin heimssambönd kristinna trúfélaga fordæma harðlega aðfarir Rússa í Úkraínu. Þau krefjast þess að Rússar dragi her sinn til baka og bindi sem fyrst enda á átökin. „Friður verður að ríkja,“ segja þau.

Lútherska heimssambandið (sem íslenska þjóðkirkjan er aðili að), Heimssamband reformertra kirkna, Kirknasamband Evrópu og Heimsráð meþódista, hafa kallað til friðarbæna fyrir Úkraínu. Þau boða til rafrænnar bænastundar 2. mars kl. 17.00, mið-Evróputími, en það er öskudagur. Í bænastundinni koma fram kristnir fulltrúar frá Úkraínu og frá öðrum heimshlutum, og beðið verður fyrir friði og að átökum linni.

„Jesús kallar okkur til að vera boðbera vonar sem vinna að friði og sem kristnar kirkjur köllum við eftir tafarlausum aðgerðum til að ljúka þessum átökum, til þess að líf, mannréttindi, og virðing úkraínsku þjóðarinnar sé í heiðri höfð,“ segir framkvæmdastjóri Lútherska heimssambandsins, sr. Anne Burghardt.

„Þetta er rétti tíminn fyrir kirkjur í Evrópu og í heiminum öllum til að mynda sterkt bandalag með fólki sem óttast ófrið og áhrif stríðs í Úkraínu, tími til að safnast til bæna fyrir fólki í valdastöðum sem getur bjargað mannslífum og komið friði á,“ segir dr. Jørgen Skov Sørensen, framkvæmdastjóri Kirknasambands Evrópu.

„Ritningin hvetur okkur til að snúa frá illu og til góðs, leita friðar og keppa að honum (1. Pétursbréf 3.11), og við teljum þessa árás vera af hinu illa og reynum hvað við getum að standa á móti henni og erum tilbúin að aðstoða fólk sem verður fyrir barðinu á henni,“ sögðu fulltrúar Heimssambands reformertra kirkna.

„Hvað sem öllu líður í Úkraínu þá held ég að hið alþjóðlega samfélag geti enn ráðið úrslitum þegar við vinnum saman að friði fyrir þetta svæði,“ segir dr. Ivan Abrahams, framkvæmdastjóri Heimsráðs meþódískra kirkna.

Í bænaáskoruninni fyrir Úkraínuþjóðinni benda þessi fjögur samtök á að hernaðaraðgerðir ógni ekki aðeins lífi og limum Úkraínumanna heldur einnig friði um alla Evrópu og víðar. „Brýnt er að taka fast á ógninni og það krefst þess að allt kristið fólk í heiminum leggi sitt lóð á vogarskálarnar svo friður náist.“

Lútherska heimssambandið telur 148 kirkjur sem hafa samtals innan sinna vébanda 77 milljónir kristins fólk um veröld alla. Heimssamband refomertra kirkna hefur innan síns hrings 230 kirkjudeildir sem telja um 100 milljónir alls. Kirknasamband Evrópu er með 114 kirkjudeildir í sínum ranni og Heimssamband meþódista telur 80 deildir alls.

Íslenska þjóðkirkjan er í Lútherska heimssambandinu.

The Lutheran World Federation /hsh