Falleg friðar- og bænastund

25. febrúar 2022

Falleg friðar- og bænastund

Hallgrímskirkja í gær - ljósberar og prestur - frá vinstri Hjördís Þorgeirsdóttir og Einar Karl Haraldsson, þá sr. Sigurður Árni Þórðarson - mynd: hsh

Hún var falleg friðar- og bænastundin í Hallgrímskirkju síðdegis í gær sem kirkjan.is sótti. Alvörufull, látlaus og hátíðleg í senn. Stundin var í umsjón sr. Sigurðar Árna Þórðarsonar, sóknarprests. Flutti hann í upphafi nokkur orð um stríð og hörmungar þess og von um frið sem býr í brjóstum allra. Lesinn var texti Matteusarguðspjalls um friðflytjendur:

Síðan var fólki boðið að tendra á kerti og setja í kórtröppur.

Einnig stóð fólki til boða að skrifa nokkur orð í bók sem var á litlu borði vinstra megin við kórinn.

Björn Steinar Sólbergsson, organisti, lék í byrjun stundarinnar Ich ruf zu dir, Herr Jesu Christ og í lok hennar Andante úr tríósónötu nr. 4 í e-moll eftir Johann Sebastian Bach.

Logandi útikerti voru fyrir utan kirkjudyr og að styttu Leifs heppna Eiríkssonar. Þá var einnig leikið á klukkuspil kirkjunnar.

Viðbúið er að innrás Rússa í Úkraínu beri á góma í prédikunum sunnudagsins og svo fari að jafnvel fleiri kirkjur en Hallgrímskirkja boði til friðar- og bænastunda vegna hernaðarins.

Í gær mátti lesa á samfélagsmiðlum, Twitter, Instagram og Facebook, hughreystandi orð frá trúarleiðtogum um þessi válegu tíðindi í Evrópu.

Sælir eru friðflytjendur
því að þeir munu Guðs börn kallaðir verða.

Matteusarguðspjall 5.9.

 

hsh

 

  • Kærleiksþjónusta

  • Menning

  • Samfélag

  • Trúin

  • Frétt