Stríðshörmungar í Úkraínu

7. mars 2022

Stríðshörmungar í Úkraínu

Fólk á flótta undan árásum Rússa - mynd The Daily Telegraph

Hjálparstarf kirkjunnar hefur áratuga reynslu af hjálparstarfi á svæðum þar sem neyð er mikil. Það er umfangsmikið starf sem þjóðkirkjan stendur á bak við ásamt almenningi sem leggur fram sinn skerf þegar til dæmis safnað er fyrir fólki sem þarfnast aðstoðar vegna stríðshörmunga eða náttúruhamfar.

Ástandið í Úkraínu í kjölfar innrásar Rússa í landið rennur öllum til rifja.

Fulltrúaráð Hjálparstarfs kirkjunnar kom saman í síðustu viku, 3. mars, og ákvað að hefja söfnun fyrir Úkraínu. Jafnframt samþykkti fulltrúaráðið einróma eftirfarandi ályktun og ákall til íslenskra stjórnvalda vegna stríðsátaka í Úkraínu:

„Hjálparstarf kirkjunnar hefur miklar áhyggjur vegna stríðsátaka í Úkraínu og skorar á íslensk stjórnvöld að beita sér af öllum mætti í alþjóðasamfélaginu til að tafarlaust verði látið af stríðsrekstri í landinu og að stríðandi fylkingar beri virðingu fyrir alþjóðalögum og landamærum fullvalda ríkja.

Hjálparstarf kirkjunnar hvetur íslensk stjórnvöld til að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að stríðandi fylkingar virði Genfarsamningana og þyrmi lífi og heilsu almennra borgara á átakasvæðum og starfsfólks hjálparsamtaka sem veitir mannúðaraðstoð á vettvangi.

Hjálparstarf kirkjunnar styður heilshugar þá ákvörðun íslenskra stjórnvalda að taka á móti flóttafólki frá Úkraínu svo fljótt sem verða má og taka þátt í mannúðaraðstoð á vettvangi, þar með talið að tryggja örugga flóttaleið fyrir fólkið sem hefur neyðst til að flýja heimkynni sín.

Hjálparstarf kirkjunnar tekur þátt í mannúðaraðstoð á vettvangi með því að senda fjárframlag til systurstofnana í Alþjóðlegu Hjálparstarfi kirkna – ACT Alliance sem hafa þegar hafið störf á vettvangi.

Hjálparstarf kirkjunnar skorar á íslensk stjórnvöld að stuðla að því að friðsamleg samskipti komist á milli þjóða á ný og að komið verði í veg fyrir stigmögnun átaka og að þau breiðist út til annarra landa.“
Hjálparstarfið stendur fyrir fjáröflun en fjárframlög verða send til systurstofnana Hjálparstarfsins á vettvangi sem hafa nú þegar hafið störf. Hægt er að leggja starfinu lið með eftirfarandi hætti:
 Leggja inn á söfnunarreikning númer 0334-26-886 kennitala: 450670-0499
 Gefa stakt framlag á vefsíðu: https://www.hjalparstarfkirkjunnar.is/
 Hringja í söfnunarsímanúmer 907 2003 (2500 krónur)
 Gefa framlag með Aur í númer 123-5284400

Nánari upplýsingar veitir Kristín Ólafsdóttir, fræðslufulltrúi í síma 5284406, kristin@help.is.

„Hjálparstarf kirkjunnar er sjálfseignarstofnun sem sinnir mannúðar- og hjálparstarfi í nafni íslensku þjóðkirkjunnar.“

hsh


  • Frétt

  • Hjálparstarf

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Söfnun

  • Trúin

  • Ályktun

IMG_6011.jpg - mynd

Kirkjuþing sett í Dómkirkjunni

25. okt. 2025
Setningarathöfn fór fram í Dómkirkjunni í morgun. Forseti kirkjuþings, dómsmálaráðherra og biskup Íslands ávörpuðu setningarathöfnina.
Mari_a A_g.jpg - mynd

Nýr prófastur í Vesturlandsprófastsdæmi

15. okt. 2025
María Guðrúnar. Ágústsdóttir er nýr prófastur á Vesturlandi.
image0.jpg - mynd

Hilda María ráðin

10. okt. 2025
Hilda María hefur verið ráðin prestur við Stykkishólmsprestakall. Sex sóknir tilheyra prestakallinu.