Prestsvígsla

18. apríl 2022

Prestsvígsla

Prestsvígsla - frá vinstri: sr. Árni Þór Þórsson, sr. Agnes M. Sigurðardóttir, sr. Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir, sr. Axel Árnason Njarðvík, sr. Haraldur M. Kristjánsson og sr. Sveinn Valgeirsson - mynd: hsh

Í morgun fór fram prestsvígsla í Dómkirkjunni í Reykjavík. Biskup Íslands, sr. Agnes M. Sigurðardóttir, vígði mag. theol. Árna Þór Þórsson en hann var kjörinn sóknarprestur í Víkurprestakalli, Suðurprófastsdæmi. Vígsluvottar voru sr. Axel Árnason Njarðvík, sr. Haraldur M. Kristjánsson, sr. Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir, og sr. Sveinn Valgeirsson.

Dómkórinn söng og organisti var Kári Þormar.

Sr. Árni Þór Þórsson
Nýi presturinn er fæddur í Reykjavík 13. október 1995. Hann ólst upp í Grafarvogi og hóf skólagöngu sína í Foldaskóla. Þaðan fór hann í Tækniskólann – nánar til tekið á fjölmiðlabraut. Þar lauk hann námi á sviði grafískar miðlunar vorið 2014 og prentunar haustið 2014 og var dúx Tækniskólans það haust. Síðan lauk hann stúdentsprófi frá Tækniskólanum vorið 2015. Sr. Árni Þór hóf nám við guðfræði- og trúarbragðafræðideild haustið 2015 og lauk þar B.A.-prófi í guðfræði í febrúar 2019. Þar næst lauk hann mag. theol.- prófi frá guðfræði- og trúarbragðafræðideild í febrúar 2021. Unnusta hans er Hulda María Albertsdóttir og er hún hjúkrunarfræðingur að mennt. Þau eiga eina dóttur saman og er hún tíu mánaða gömul.
Prestakallið
Í Víkurprestakalli, Suðurprófastsdæmi, eru sex sóknir. Víkursókn er með flesta íbúa 563, Reynissókn með 72 íbúa, Skeiðflatarsókn með 129, Ásólfsskálasókn 84, Eyvindarhólasókn 141 og Stóra-Dalssókn með 73 íbúa. Samtals eru íbúar 1.062, þar af 513 sem tilheyra þjóðkirkjunni. Í prestakallinu eru átta guðshús. Auk sóknarkirknanna sem eru Víkurkirkja, Reyniskirkja, Skeiðflatarkirkja, Ásólfsskálakirkja, Eyvindarhólakirkja og Stóra-Dalskirkja eru Skógarkirkja á Skógum og Sólheimakapella. Prestsbústaður er í Vík og þar er starfsaðstaða sóknarprestsins. Starfinu fylgja viðbótarskyldur við önnur prestaköll í prófastsdæminu, önnur prófastsdæmi, sem og við Þjóðkirkjuna – Biskupsstofu og önnur kirkjuleg stjórnvöld.

hsh

 


  • Frétt

  • Samfélag

  • Starf

  • Trúin

  • Vígsla

  • Biskup

IMG_6011.jpg - mynd

Kirkjuþing sett í Dómkirkjunni

25. okt. 2025
Setningarathöfn fór fram í Dómkirkjunni í morgun. Forseti kirkjuþings, dómsmálaráðherra og biskup Íslands ávörpuðu setningarathöfnina.
Mari_a A_g.jpg - mynd

Nýr prófastur í Vesturlandsprófastsdæmi

15. okt. 2025
María Guðrúnar. Ágústsdóttir er nýr prófastur á Vesturlandi.
image0.jpg - mynd

Hilda María ráðin

10. okt. 2025
Hilda María hefur verið ráðin prestur við Stykkishólmsprestakall. Sex sóknir tilheyra prestakallinu.