Viðtalið: Flóttafólk í Akureyrarkirkju

26. maí 2022

Viðtalið: Flóttafólk í Akureyrarkirkju

Flóttafólkið frætt um náttúru Íslands og sýndar myndir sem Einar Guðmann (hann er í ræðustólnum) og kona hans, Gyða Henngingsdóttir, hafa tekið - mynd: Akureyrarkirkja

Málefni flóttafólks eru ofarlega á baugi og ekki að ástæðulausu. Um þúsund flóttamenn komu frá Úkraínu til landsins eftir innrás Rússa í landið og bættust við þá hópa sem þegar eru hér fyrir. Fólkið hefur fengið víða inni og nú síðast á Hótel Sögu í Reykjavík. Keppst hefur verið um að taka sem best á móti því og þjóðkirkjan hefur og lagt fram sitt í þeim efnum.

Sóknarpresturinn í Akureyrarkirkju, sr. Svavar Alfreð Jónsson, hafði frumkvæði að því að boða til viðburðar í kirkjunni sem ná skyldi til flóttafólks á Akureyri. Með einstaklega góðri samvinnu presta, organista, æskulýðsfulltrúa, kirkjuvarða og ritara tókst að undirbúa vel skipulagða og vandaða samkomu. Þegar slíkir viðburðir eru skipulagðir er mikilvægt að binda vel um alla hnúta svo allt fari vel enda um viðkvæma hópa að ræða þar sem flóttafólk er annars vegar. Það vissi starfsfólk Akureyrarkirkju mæta vel og því fór allt vel.

Á Akureyri er flóttafólk frá Sýrlandi, Afganistan, Venesúela, Nígeríu, Sómalíu og Úkraínu. Heildarfjöldinn er eitthvað í kringum 60 en Úkraínumönnunum fer fjölgandi.

Fyrr í þessum mánuði var flóttafólki sem sé boðið í Akureyrarkirkju til máltíðar og samtals.

Aðdragandinn var í stuttu máli þessi:
„Þegar fyrstu sýrlensku flóttamennirnir komu hingað fyrir nokkrum árum bauð Akureyrarkirkja þeim húsnæði til föstudagsbænahalds,“ segir sr. Svavar Alfreð þegar kirkjan.is hafði samband við hann á dögunum. „Sú aðstaða var nýtt um skeið en nú, eftir kóvídið, kom fulltrúi þeirra að máli við okkur og óskaði eftir húsnæði til daglegra bænastunda í Ramadan, föstumánuði múslima. Við gátum orðið við þeirri beiðni.“ Múslimarnir hafa líka fengið inni í Safnaðarheimili kirkjunnar til bænahalds og samfunda.

Sr. Svavar Alfreð segir að fulltrúi sýrlensku flóttamannanna og sérstakur tengiliður Akureyrarbæjar við flóttafólk, Ahmed Essabiani, hafi verið í ágætum tengslum við sig. Í einu spjalli þeirra stakk sr. Svavar Alfreð upp á að kirkjan byði flóttafólki til samveru með því annars vegar og starfsfólki kirkjunnar og sóknarnefnd hins vegar. Það var vel í það tekið og einhent sér í að prenta formlegt boðskort sem dreift var til flóttafólksins. „Ahmed Esssabiani, var ómetanleg hjálp við að undirbúa þennan viðburð og hrinda honum í framkvæmd,“ segir sr. Svavar Alfreð.

Samkoman var svo haldin laugardaginn 14. maí. Rúmlega 70 manns voru þar, drjúgur helmingurinn flóttamenn og þeirra börn.

En flóttafólk sem er nýkomið til landsins talar sitt eigið mál eins og gefur að skilja en sumt kann kannski eitthvað fyrir sér í ensku – aðrir ekkert. Túlkur var því á staðnum sem túlkaði það sem fram fór á arabísku en gripið var og til enskunnar. Úkraínska flóttafólkið var með mann sem hafði verið búsettur hér lengi og talar íslensku og hann reyndi að tengja landa sína við það sem fram fór.

„Við heyrðum sögu tveggja, annars frá Úkraínu sem reyndar kom hingað fyrir nokkrum árum áður en núverandi átök brutust út, og konu frá Sýrlandi sem kom hingað í gegnum Líbanon með fyrsti flóttamönnunum,“ segir sr. Svavar Alfreð, „henni hefur reitt vel af og stundar nú doktorsnám við Háskóla Ísland. Maðurinn hennar vinnur sem rafvirki hér í bæ.“

Sr. Svavar Alfreð sagði að gestirnir hefðu fengið að heyra frá því hvernig flóttamönnum sem komið hafa til Íslands hefði gengið. „Við sr. Hildur Eir Bolladóttir sögðum aðeins frá þeirri þjónustu sem flóttamenn geta fengið í kirkjunni, t. d. sálgæslu sem er veitt óháð trúarbrögðum.“

Hann segir að úkraínskum konum sem voru á samverunni hafi fundist spennandi að tengjast kirkjustarfinu. Þá hafi verið á samkomunni fulltrúi frá menningarsetrinu í Sigurhæðum, sem er að hefja starfsemi sína, og voru konurnar áhugasamar um að kynna sér hana.

„Nokkrar mæður sýndu áhuga á að koma börnunum sínum á leikjanámskeið sem verða í kirkjunni í sumar,“ sagði sr. Svavar Alfreð. „Organistar kirkjunnar spiluðu og sungu fyrir samkomuna íslenska músík og hjónin Gyða Henningsdóttir og Einar Guðmann, frægir ljósmyndarar, sýndu myndir af íslenskri náttúru.“ Þá voru sr. Hildur Eir og Sonja Kro, æskulýðsfulltrúi, með leikjadagskrá fyrir börnin.“

Samveran stóð um það bil þrjá tíma.

Og maturinn?

„Við buðum upp á þríréttaða máltíð. Samherji gaf okkur fisk og veitti fjárstyrk, Norðlenska skaffaði lambakjöt og Emmess spanderaði ís á samkomuna,“ segir sr. Svavar Alfreð, „Matsmiðjan sá um eldun en sóknarnefnd greiddi tilfallandi kostnað.“

Það voru vaskar konur úr Kvenfélagi Akureyrarkirkju sem lögðu á borð og sáu um framreiðsluna ásamt kokkum Matsmiðjunnar.

Sem fyrr segir tókst þessi viðburður ákaflega vel og því liggur við að spyrja sr. Svavar Alfreð hvert framhaldið verði í tengslum kirkju og flóttafólks.

„Við erum ekki með sérstaka dagskrá eða þjónustu fyrir flóttafólkið, alla vega eins og er, en hver veit hvað framtíðin ber í skauti sér,“ segir sr. Svavar Alfreð, „við erum alla vega í mjög góðum tengslum við flóttafólkið og höfum held ég sýnt í verki að við opnum faðminn fyrir þetta ágæta fólk sem sannarlega auðgar samfélagið okkar.“

Sr. Svavar Alfreð telur ekki ólíklegt að svona samkoma verði endurtekin. „Hún tókst vel og var ánægja með hana, bæði meðal starfsfólks, sóknarnefndar og flóttafólksins.“

„En myndirnar, músíkin og maturinn talaði held ég sínu máli,“ segir sr. Svavar Alfreð í lokin. 

hsh


  • Frétt

  • Menning

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Flóttafólk