Erlend frétt: Lítil er hún

29. maí 2022

Erlend frétt: Lítil er hún

Lítil er hún - mynd: The Guardian

Það var ekki allt slæmt við kórónuveirufaraldurinn. Starfsfólk ýmissa stofnana sem þjóna almenningi gafst kostur á að vinna alls konar innanhússstörf þegar fjölda- og samkomutakmarkanir voru í gildi. Þar sem útgöngubann var sett í lög tímabundið í ýmsum borgum var víða fátt um mannaferðir eins og á bókasöfnum.

Starfsfólk bókasafnsins í Leeds á Englandi tók til hendinni í kórónuveirufaraldrinum og fór um geymslur sínar þar sem mörg rykfallin bókin lá sem og bókakassar. Í önnum dagsins – og áranna – hafði ekki gefist tími til að athuga hvað þar væri. Þau hnutu um þúsundir merkra og sjaldgæfra bóka sem komnar eru nú á heiðursstað.

Ein bókanna var mjög lítil Biblía frá 1911, smækkuð eftirgerð af svokölluðum Keðjubiblíum frá 16. öld en heiti þeirra kom til vegna þess að þær voru festar við púlt í gildri keðju svo enginn tæki þær. Texti Gamla testamentisins og hins Nýja er svo lítill að nota verður stækkunargler til að lesa hann. Hún er 50mmx35mm að stærð. Prentuð á næfurþunnan indverskan pappír, 870 blaðsíður.

Ekki er vitað hvernig þessi litla Biblía hafnaði í Leedssafninu. Hún kann að hafa verið keypt eða verið gjöf til safnsins. Biblían er talin með minnstu biblíum í heiminum.

Örsmáar biblíur hafa verið gefnar út um aldaraðir. Samkeppni um hver þeirra er minnst er allhörð. Hvað er Biblía? Þarf hún ekki að geyma að minnsta kosti bæði testamentin, hið Gamla og Nýja? En hvað með apókrýfubækurnar? Minnsta helgiritið er sennilega svokölluð Nanó-Biblía Gyðinga og geymir Gamla testamentið. Hún er tækniundur og svo lítil að þarf gríðarlega sterkt stækkunargler til að lesa hana. Myndbandið með fréttinni sýnir það vel.

En hver er minnsta íslenska Biblían? Lesandinn velti vöngum yfir því.

Ekki er hægt að ljúka þessum orðum án þess að geta um andstæðu hins minnsta enda er það manneskjunum eðlistamt að finna andstæðu hlutanna í henni veröld.

Stærsta Biblían er Codex Gigas (Risahandritið) og vegur 74.8 kíló. Það er 310 síður og eru þær úr skinnum 160 apa eða kálfa. Handritið er með fögrum lýsingum og svo stórum af Satan að það hefur stundum verið kallað Biblía Satans. Handritið er í eigu Þjóðarbókasafnsins í Stokkhólmi.

The Daily Telegraph/BBC/hsh

  • Erlend frétt

  • Frétt

  • Menning

  • Samfélag

  • Trúin

  • Biblían