Eitt elsta fermingarbarnið

16. júní 2022

Eitt elsta fermingarbarnið

Sr. Stefanía Steinsdóttir skírir Geir - mynd: Sólveig Helgadóttir

Fermingarbörnin eru yfirleitt á fjórtánda ári þegar þau fermast. Það vita allir.

Geir Garðarsson frá Lautum á Laugum var skírður og fermdur á sama degi og hann varð áttræður eða 3. júní síðastliðinn. Það voru mikil tímamót í lífi hans.

Foreldrar hans þau Garðar Jakobsson og Þorgerður Glúmsdóttir tóku þá afstöðu að láta börnin ráða því hvort þau skírðust eða fermdust. Ekki var það vegna þess að þau væru mótsnúin trú heldur þvert á móti voru þau trúað fólk. Geir velti þessu lengi fyrir sér. Fannst hann vera orðinn of gamall til að standa í þessu en tók svo af skarið: skírður skyldi hann og fermdur.

Það var ekki langt að fara að ná í prestinn sr. Stefaníu Steinsdóttur. Geir er afi eiginkonu prestsins.

Kirkjan.is óskaði Geir til hamingju með skírnina og ferminguna og spurði hvernig þetta hafi komið til.

„Já, þetta var á afmælisdeginum mínum, þær búa saman Sólveig Helgadóttir, dótturdóttir mín, og presturinn, sr. Stefanía Steinsdóttir,“ segir Geir, „þær voru í jólaboði hjá okkur á síðustu jólum og hún færði þetta í tal.“ Geir segist ekki hafa verið alveg tilbúinn þá en hún sagðist myndi skíra hann á afmælisdeginum þegar hann yrði áttræður. Og það stóð heima.

Fermingardrengurinn
Geir er fæddur 3. júní í Hólum 1942 og var þar til sex ára aldurs, Suður-Þingeyingur í allar ættir. Faðir Geirs og föðurbróðir hans áttu jörðina og þeir skiptu henni á milli sín. Faðir Geirs reisti hús á jörðinni uppi á hóli og kallaði það Lautir enda lautir á milli allra hólanna í dalnum, Reykjadalnum. Geir reisti svo hús á jörðinni 1975 sem hann kallaði Langholt. Nú býr hann á Akureyri. Á langri ævi hefur hann unnið við byggingar og síðustu þrjátíu ár starfsævinnar vann hann við þorskhausaþurrkun. Kona hans heitir Sólveig Birna Marteinsdóttir.

Geir er ágætur til heilsunnar nema hvað slitgigt hefur bankað upp á hjá honum og skipt var um kúlu í mjöðminni. „Ég er með járnarusl þar,“ segir hann og hlær en segist vera miklu betri en áður í mjöðminni.

Fékkstu fermingargjafir?

„Tja, ég fékk náttúrlega gjafir í kringum áttræðisafmælið, ætli það hafi ekki bara líka verið fermingar- og skírnargjafir,“ segir Geir hlæjandi.

Hann gantast með það að ekki hafi hann farið í fermingarkyrtil né heldur skírnarkjól. „Og enginn hélt á mér undir skírn!“ segir hann glettnislega.

Ekki er ólíklegt að þessi skírn og ferming rati í kirkjusöguna því að Geir Garðarsson hlýtur að vera með elstu mönnum sem skírist og fermist á áttræðisafmælinu sínu. Þetta er í raun þrenna eins og þeir segja í boltanum. Seint verður hægt að slá þessu við.

hsh


Börn Geirs voru skírnarvottar. Frá vinstri í aftari röð: Gerður Geirsdóttir, Hermann Þór Geirsson og Marteinn Geirsson. Fremst: Geir Garðarsson og sr. Stefanía Steinsdóttir. Myndina tók Sólveig Helgadóttir


  • Frétt

  • Kirkjustarf

  • Samfélag

  • Skírn

  • Ferming

  • Fréttin er uppfærð

Háteigskirkja

Laust starf

30. apr. 2024
...prests í Háteigsprestakalli
Sr. Sigurvin Lárus Jónsson

Sr. Sigurvin Lárus ráðinn prestur

30. apr. 2024
…í Garðaprestakall
Lokahátíð barnastarfsins í Akureyrarkirkju.jpg - mynd

Lokahátíð barnastarfs Akureyrarkirkju 2024

29. apr. 2024
...mikil tónlistrveisla