Bókarfregn: Ilmur af lífinu

30. ágúst 2022

Bókarfregn: Ilmur af lífinu

Ljóðabókin Fangbrögð er hugljúf og persónuleg - mynd: hsh

Fangbrögð er önnur ljóðabók Ásdísar Magnúsdóttur en kirkjan.is fjallaði um þá fyrri sem bar heitið Umskrifuð atriði og kom út árið 2019.

Ásdísi lætur vel að yrkja. Ljóðin renna nánast áreynslulaust um huga lesanda en alltaf er eitthvað sem hann nemur við.

Í mörgum ljóðanna má finna alvarlegan undirtón sem lesanda er ekki alveg ljós hvar upptök hans eru. En hann er þarna. Kemur aftur og aftur fyrir. Kann að vera sorg, eða svik einhvers sem höfundur er ekki alveg sáttur við. En samt kennir einskis haturs eða óvildar, miklu fremur sársauka sem höfundur fer vel með og mætir af kærleika.

Í þessum ljóðum er að finna persónuleg stef sem ýmist snerta höfund sjálfan og samskipti hans við annað fólk; fjölskyldustef þar sem afa höfundar, ömmu, móður og systur, bregður fyrir í sterkum leiftrum og þá áleitin trúarleg stef. Í mörgum þeirra koma fram æskuminningar sem eru dregnar listilega fram í fáeinum orðum eins og þegar höfundi verður gengið fram hjá niðurníddum sumarbúðastað:

kaffi og bakkelsi
hvítur dúkur
hlæjandi börn
(bls. 32)

Og:

Ég hitti þig öðru hvoru
í ljóðlínunum (bls. 25)


Höfundur opnar kryddskúffuna eftir mörg ár og finnur:

...ilminn af lífinu eins og það var (bls. 29)

Ég gekk inn í málverk í dag (bls. 34)

Á veggjunum léku sér
laufskuggar lengi
drógu dul á myndir
af löngu dánu fólki
hurfu svo fyrir horn 
(bls. 35)

Í ljóðinu Glerfugl (bls. 4) er höfundur ögn angurvær en raunsær:

Af hverju gaf ég manni fugl
auðbrjótanlegan úr gleri
innpakkaðan í sellófan
skreyttan með rauðri rós
gullkross sem aldrei fór um háls hans
og heilræðabók um ást

spyr mig enn

Allir ljóðaunnendur geta samsamað sig þessum lífsþanka um brigðin sem komu á óvart og eru ekki síður torskilin. Kalla ætíð fram spurningar.

Ásdís er menntuð í guðfræði og skrifaði meistaraprófsritgerð um guðshugmynd íslenskra samtímalistamanna. Þá er hún listdansari og dansaði með Íslenska dansflokknum í tæpa tvo áratugi.

Trúarlegar tilvísanir óma með kyrrum hætti og kröftugum. Stefið um hinn syndlausa grjótkastara er henni ofarlega í huga þegar hún yrkir um Drekkingarhyl á Þingvöllum. (Bls. 14).

Ljóðið Kona fór í bað (bls. 30) geymir tilvísun til frægrar persónu í Gamla testamentinu (Síðari Samúelsbók 11.2); er sterkt og segir allt í þrettán orðum:

Ó Batseba
þú vissir vel að hann myndi sjá þig
var það ekki

Hún minnir á kvenlegar hannyrðir í ljóðinu Krosssaumur og hvernig þær tengjast fæðingu, skírn, krossfestingu og upprisu Krists. Þessi minni eru í veggteppi þar sem litað ullargarn af íslensku sauðfé kemur við sögu. (Bls. 33).

Síðasta ljóð bókarinnar (bls. 37) kveður skýrast á um leit manneskjunnar að Guði og endurómar tvo sálma Gamla testamentisins (Sálm nr. 42 og 23) og kallast Hind:

Þegar þráhyggjan tekur völdin
skilur mig eftir í öngum mínum
þráir sál mín þig Guð

þú leiðir mig að
grænum grundum
vötnum og fjallasölum
eins og hindina

ævinlega

Kápa bókarinnar er eftir Ásdísi og hún er í sömu tónum og kápa fyrri bókar hennar. Þeir eru impressjónískir, já jafnvel dulúðir og hæfa efnistökum höfundar vel.

Íslenskur ljóðbókamarkaður er ekki mikill um sig. Upplag ljóðabók er ekki stórt. En ljóðabækur eiga sinn trausta vinahóp. Það er þakkarefni að margir ljóðabókahöfundar gefa sjálfir út sínar bækur og koma þeim þannig til skila til ljóðaunnenda. Þetta eru lesvinveittar og fallegar bækur sem ljóðaunnendur taka fagnandi. Sú tilfinning er nokkuð sterk að konur séu fleiri en karlar í ljóðskáldastétt.

Milli ljóðalesenda og höfundar er alltaf dálítið sérstakt samband. Ljóðformið er þess háttar að höfundur er svo að segja með hugarkviku sína opna. Gengur til móts við lesandann og býður honum að setjast við hlið sér og skoða hug hans til þess hvort tveggja á stundum að segja frá sjálfum sér til léttis eða lesandanum. Þannig verður til samspil milli höfundar og lesanda. Ljóðin eru lögð fram á borð lesanda sem hefur mjög svo frjálsar hendur með að skilja þau. Sum þarf meira að segja að ráða í og í öðrum virðist merkingin ljós en svo kann annað að koma í ljós við annan og þriðja lestur. Þessi ljóðabók er í hópi þeirra sem hægt er að lesa aftur og aftur og sjá eitthvað nýtt. Það er merki um að höfundi hafi vel til tekist.

Ljóðabókin Fangbrögð er 38 blaðsíður og gefin út af höfundi. Nafnið ber með sér að höfundur glímir við lífið í ljóðum sínum. Ljóð Ásdísar eru hugljúf og persónuleg, hógvær og sum þeirra með angurværum undirtóni, heitum trúarlegum þönkum og kærleiksríkum huga til liðins tíma sem og nútíðar. Ljóð sem eiga erindi til allra þeirra er unna góðum bókmenntum. Hún á að halda áfram að yrkja.

hsh

 


  • Menning

  • Samfélag

  • Útgáfa

  • Frétt

Prestar í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra ásamt fyrirlesurum

Vorfundur presta í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra

26. apr. 2024
...síðasti prestafundur sr. Helgu Soffíu sem prófastur
Forsíðumynd-Sumardagurinn fyrst -skrúðganga á kirkjuplani.jpg - mynd

Sumardagurinn fyrsti í Fossvoginum

26. apr. 2024
...fjölsótt dagskrá í kirkjunni
Digraneskirkja

Laust starf

26. apr. 2024
...prests við Digranes- og Hjallaprestakall