Söfnun fyrir kirkjuklukkum

20. september 2022

Söfnun fyrir kirkjuklukkum

Kirkjuklukkur Miðgarðakirkju

Þann 25. september næstkomandi kl. 17:00 verða söfnunartónleikar í Hallgrímskirkju undir heitinu Hljómar frá heimsskautsbaugiþar sem norðlenskir stórsöngvarar og tónlistarfólk koma fram.  Safnað verður fyrir kirkjuklukkum í nýju kirkjuna sem verið er að byggja í Grímsey.

Sérstök tengsl eru að milli kirknanna tveggja.

Annars vegar vegna þess að Grétar Einarsson, yfirkirkjuvörður og hringjari Hallgrímskirkju er sonur Einars Einarssonar listasmiðs sem var um sex ára skeið djákni í Grímsey og setti mikinn svip á Miðgarðakirkju með verkum sínum þau 14 ár sem hann bjó í eynni.

Hins vegar vegna þess að Grímseyingar gáfu kirkjuklukkur í Hallgrímskirkju fyrir hálfri öld.

Kirkjan í Grímsey brann sem kunnugt er til grunna að kvöldi 21. septembers 2021.

Kirkjuklukkurnar tvær úr bronsi í Miðgarðakirkju bráðnuðu í eldinum þannig að ekkert varð eftir heillegt nema kólfarnir sem eru úr járni.

Haustið eftir brunann efndi Hallgrímskirkja til samskota vegna kirkjubyggingar í Grímsey í þremur messum.

Síðar varð að ráði að gefa Miðgarðakirkju klukkur í stað þeirra sem bráðnuðu.

Með þessu framtaki er Hallgrímssöfnuður ásamt vinum að endurgjalda með táknrænum hætti gjöf sem gefin var Hallgrímskirkju fyrir hálfri öld í nafni Grímseyinga.

Á tónleikunum fáum við að heyra í miklu listafólki.

Þar er um að ræða Eyþór Inga Jónsson organista og söngvarana Ívar Helgason, Jónas Þór Jónasson, Kristjönu Arngrímsdóttur, Óskar Pétursson og Ösp Eldjárn.

Þau hafa áður efnt til slíkrar söfnunar í Akureyrarkirkju vegna nýrrar Miðgarðakirkju.

Tveir söngvaranna, Ívar og Jónas Þór, voru þeir síðustu sem sungu í Miðgarðakirkju áður en hún brann.

Auk þessa listafólks taka Björn Steinar Sólbergsson organisti, Steinar Logi Helgason kórstjóri og Kór Hallgrímskirkju þátt í tónleikunum.

Eftir messu í Hallgrímskirkju næstkomandi sunnudag þann 25. september segir Hjörleifur Stefánsson arkitekt frá smíði nýrrar Miðgarðakirkju í Grímsey, en hann hefur umsjón með endurreisn og nýsmíði kirkjunnar.

Það sem á kann að vanta upp á að söfnunarfé dugi fyrir kostnaði við steypu á nýjum klukkum stendur Hallgrímskirkja straum af.

slg



Myndir með frétt

Kólfur úr kirkjuklukku í Grímsey
Kólfur úr kirkjuklukku í Grímsey
  • Kirkjustarf

  • List og kirkja

  • Menning

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Tónlist

  • Auglýsing

IMG_6011.jpg - mynd

Kirkjuþing sett í Dómkirkjunni

25. okt. 2025
Setningarathöfn fór fram í Dómkirkjunni í morgun. Forseti kirkjuþings, dómsmálaráðherra og biskup Íslands ávörpuðu setningarathöfnina.
Mari_a A_g.jpg - mynd

Nýr prófastur í Vesturlandsprófastsdæmi

15. okt. 2025
María Guðrúnar. Ágústsdóttir er nýr prófastur á Vesturlandi.
image0.jpg - mynd

Hilda María ráðin

10. okt. 2025
Hilda María hefur verið ráðin prestur við Stykkishólmsprestakall. Sex sóknir tilheyra prestakallinu.