Fólkið í kirkjunni

5. október 2022

Fólkið í kirkjunni

Geirþrúður Charlesdóttir

Fréttaritari kirkjan.is var á ferð um Vestfirði í byrjun september.

Fyrst voru Strandirnar heimsóttar, en þegar kom að helginni var ferðinni heitið inn Djúpið, farið upp á Bolafjall og notið einstakrar veðurblíðu eins og hún gerist best á Vestfjörðum.

Það var algert logn á höfninni á Íslafirði þegar gengið var til kirkju á sunnudagsmorgninum.

Sólin skein í heiði og fáninn sem flaggað hafði verið við kirkjuna lá hreyfingarlaus meðfram stönginni.

Sr. Magnús Erlingsson prófastur messaði og var predikunin afar eftirminnileg.

Eftir messuna tók fréttaritari kirkjan.is viðtal við Geirþrúði Charlesdóttur, sem starfað hefur í kirkjunni alla sína tíð.

Ertu fædd og uppalin hér á Ísafirði?

„Já, ég er fædd hér á Ísafirði og hér hef ég búið alla tíð. Ég er fædd árið 1932 og varð því níræð í ár.“

Mig langar að spyrja þig um föðurnafnið þitt. Var faðir þinn erlendur?

„Nei, hann var alíslenskur, en þetta er draumanafn. Ömmu mína dreymdi þetta nafn.

Það var sennilega amerískur sjómaður sem kom til hennar í draumi.

Í Íslendingabók kemur fram að það var maður með þessu nafni í Dýrafirði við hákarlaveiðar. En pabbi fæddist á Akureyri.“


Hefur þú haft tengsl við kirkjuna alla tíð?
Hvenær byrjaðir þú að taka þátt í kirkjustarfi?


„Já! Sr. Sigurgeir Sigurðsson skírði mig. Hann varð síðar biskup Íslands og sr. Sigurður Kristjánsson fermdi mig.

Hann var faðir frú Agnesar M. Sigurðardóttur, sem nú er biskup Íslands.

Síðasta barnið hér á Ísafirði sem sr. Sigurgeir skírði var bróðir minn, sem er fæddur árið 1938.

Þegar ég var barn fór ég alltaf í barnamessu.

Ég byrjaði að syngja í stúlknakór hjá Jónasi Tómassyni sem var organisti við kirkjuna og ég og ein önnur stúlka sungum við fermingarmessu sunnudaginn eftir að við fermdumst.

Ég var svo í kirkjukórnum alveg fram yfir sextugt.“


En þú varst líka í starfi við kirkjuna?

„Já, ég fór að starfa fyrir kirkjuna þegar sr. Jakob Hjálmarsson kom árið 1977.

Ég var að vinna þá í Bókabúð Jónasar Tómassonar, sem líka var organisti.

Ég vann með Jakobi allan tímann sem hann var hér.“

Varstu þá kirkjuvörður?

„Nei, ég var kölluð safnaðarsystir fyrst, en ég var meðhjálpari við allar messur og jarðarfarir og tók á móti fólki.

Ég er búin að klæða marga presta, skal ég segja þér!

Það var gott að vinna með sr. Jakob.

Kirkjan brann í hans tíð. Ég var þá stödd norður í Mývatnssveit og heyrði í útvarpinu að kirkjan okkar hefði brunnið.

Það var erfitt.

Eftir að kirkjan brann var fyrst farið að messa í skólanum í Hnífsdal, síðan var farið í menntaskólann.

En það var ákveðið strax að byggja hér.

Um það voru ekki allir sammála, en það er allt gróið núna.

Allir eru ánægðir með kirkjuna hérna.“


Þegar nýja kirkjan var vígð þá hefur starfsaðstaðan aldeilis breyst?

„Já, það var mikil breyting.

Ég var með sr. Jakob í þessari nýju kirkju líka.

Síðan kom sr. Karl Valgarður Matthíasson og margir komu hér að messa.

Sr. Agnes sem þá var sóknarprestur í Bolungarvík var prófastur og kom oft hér.

Svo er sr. Fjölnir Ásbjörnsson farinn að vera hér, nú er búið að sameina þetta.

Hann sat í Holti en er farinn að þjóna hér líka og í Bolungarvík.“


Þetta er langur tími í þjónustu kirkjunnar -fékkstu einhver laun?

„Fyrst fékk ég ekki neitt, en svo vildu þau fara að borga mér og ég þáði það.“


Varstu í sóknarnefndinni?

„Já, ég sat lengi í sóknarnefnd og var safnaðarfulltrúi á hérðasfundum.“


Sr. Grétar Halldór og sr. Magnús skiptu á prestaköllum í fyrra. Hvernig gekk það?

„Það var svo leiðinlegt að hann lenti í covid, en hann var mjög ánægður hér.

Hann sagði: „Hér kynnist ég fólkinu, en í Reykjavík kemur fólk og fer.“


Hvernig er kirkjulífið?

„Ég mundi vilja sjá fleira fólk í kirkju yfirleitt, en annars held ég að fólk vilji koma í kirkjuna sína.

Það er messað þrjá sunnudaga í mánuði.

Og hér er kirkjukvenfélag, Kvenfélag Ísafjarðarkirkju.

Ég var ein af stofnendum þess fyrir 30-40 árum og var formaður þess í 20 ár.

Kvenfélagið vann bara fyrir kirkjuna, ég sá um að kaupa innbú og allt í eldhúsið, ég sá um að þvo altarisdúka og svoleiðis.“


Þú varst allt í öllu?

„Þetta fór allt í gegnum mínar hendur af því ég var formaður Kvenfélagsins og starfaði í kirkjunni.

Það var líka kirkjuvörður, sem hafði viðveru hér á daginn, sem gott var að vinna með.

Ég las bænina alltaf, lengi vel bæði inn og út.

Útgöngubænin er ekki lesin alls staðar, en það er falleg bæn.“


Eitthvað sem þú vilt segja að lokum?

„Fólk verður að hafa einhverja hugsjón ef það ætlar að starfa í kirkju.“

Með þessi orð í huga göngum við aftur út í sólskinið og kveðjumst í logninu.


slg










Myndir með frétt

Ísafjarðarkirkja
Altari og orgel Ísafjarðarkirkju
  • Kærleiksþjónusta

  • Kirkjustarf

  • Leikmenn

  • Sjálfboðaliðar

  • Sóknarnefndir

  • Heimsókn

Sr. Eva Björk Valdimarsdóttir

Sr. Eva Björk Valdimarsdóttir ráðin biskupsritari

18. maí 2024
...hefur störf með nýkjörnum biskupi Íslands
Háteigskirkja

Tíu sækja um Háteigsprestakall

17. maí 2024
...umsóknarfrestur rann út 14. maí