Góð kirkjusókn víðast hvar um hátíðirnar

27. desember 2022

Góð kirkjusókn víðast hvar um hátíðirnar

Kópavogskirkja í vetrarbúningi

Miklar frosthörkur og snjókoma einkenndi þessi jól eins og oft áður.

Eftir einstaklega mildan nóvembermánuð fór að frysta í desember og svo hefur staðið linnulaust síðan.

Um miðjan mánuðinn fór svo að snjóa á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurlandi svo hvít jól voru víða.

Afar góð kirkjusókn var alls staðar á landinu alla aðventuna.

Þegar hátíðin gekk í garð kl. 18:00 á aðfangadagskvöld snjóaði á höfuðborgarsvæðinu.

Kirkjufólk hafði á orði að ekki gerðist nú veðrið jólalegra.

Vissulega dró veðrið eitthvað úr kirkjusókninni hjá þeim sem eiga erfitt með að kafa snjó eða ganga í hálku, en þó var messusókn víðast hvar góð á höfuðborgarsvæðinu.

Á Suðurnesjum var messufall  á aðfangadag í Sandgerðiskirkju kl. 16:00 vegna veðurs og messa á jóladag í Hvalsneskirkju færðist yfir í Sandgerðiskirkju vegna ófærðar.

Á Suðurlandi gerði aftakaveður á aðfangadag og var fljótlega farið að auglýsa í útvarpi að helgihald félli niður.

Svo var í Þorlákshöfn og Strandakirkju svo og í Kotstrandarkirkju.

Eina helgihaldið í vesturhluta prófastsdæmisins var á Selfossi kl. 18:00 á aðfangadagskvöld og jólaguðspjallið var lesið í Breiðabólsstaðarkirkju kl. 15:30, en 50 manns brutust þangað með einum eða öðrum hætti.

Á jóladag var ekki messað neins staðar í Suðurprófastsdæmi eftir því sem fréttaritari kirkjan.is hefur haft spurnir af, en mjög víða náðist að messa á annan dag jóla.

Því er þó við að bæta að það tókst að messa á Kirkjubæjarklaustri á aðfangadag, jóladag og annan í jólum.

Austur á Héraði var líka blindbylur.

Þó náðist að messa á Egilsstöðum og á Seyðisfirði á aðfangdsgskvöld, en öllum guðsþjónustum sem vera áttu á jóladag var aflýst, nema á Seyðisfirði, en þar var messað bæði í kirkjunni og á hjúkrunarheimilinu.

Til stóð að messa í Ási í Fellum, Valþjófstað í Fljótsdal, Þingmúla í Skriðdal og á Sleðbrjót í Jökulsárhlíð, en fella þurfti niður helgihald á öllum þessum stöðum.

Þá átti einnig að messa í Egilsstaðakirkju og á Hjaltastað.

Helgihaldi var einnig frestað í Vopnafjarðarprestakalli, bæði á Hofi og Skeggjastöðum vegna veðurs, en þó var messað í Vopnafjarðarkirkju og var kirkjusókn mjög góð.

Alls staðar náðist að messa í Vesturlandsprófastsdæmi, Vestfjarðarprófastsdæmi, Húnavatns- og Skagafjarðarprófastdæmi og Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi enda bliðskaparveður alls staðar.

 

slg



  • Kirkjustarf

  • Messa

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Kirkjustaðir