Forn helgistaður neðanjarðar við Hellu

15. maí 2023

Forn helgistaður neðanjarðar við Hellu

Forn helgistaður í helli -mynd slg

Þegar ekið er austur þjóðveg númer eitt má sjá skilti við veginn rétt áður en farið er yfir brúna á Rangá hjá Hellu.

Þar stendur stórum stöfum Caves of Hella.

Fréttaritari kirkjan.is lagði leið sína austur ásamt fríðu föruneyti til að kanna þessa undraveröld neðanjarðar.

Boðið er upp á ferðir með leiðsögn um fjóra dularfulla manngerða hella.

Hellarnir eru fyrir margt sögulegir og er saga þeirra umvafin mikilli dulúð.

Í þessari skoðunarferð gafst okkur tækifæri til að læra um spennandi sögu hellanna og uppgötva þau leyndarmál sem þeir geyma.

Hellarnir á Hellu eru á jörðinni Ægissíðu og eru með þekktustu manngerðu hellum á Íslandi.

Fjölskyldan á Ægissíðu hefur séð um hellana í nærri 200 ár, en árið 2019 voru fjórir af tólf hellum sem eru á jörðinni opnaðir fyrir almenningi .

Hellarnir munu samkvæmt kenningunni vera elstu hýbýli á Íslandi.

Þeir eru höggnir af mönnum, en enginn veit hvenær það var.

Talið er að þeir hafi verið gerðir af Keltum fyrir landnám norrænna manna á níundu öld eða jafnvel fyrr.

Hellarnir eru því hjúpaðir dulúð og í mörgum þeirra má finna veggristur, fangamörk, ártöl, krossmörk, búmerki og jafnvel rúnir.

Fjölskyldan á Ægissíðu vinnur að því að byggja upp og varðveita umhverfi og sögu hellana í samvinnu við nærsamfélagið og Minjastofnun.


Fjárhellir

Við fengum afar góða leiðsögn hjá Hönnu Valdísi Guðjónsdóttur, sem í upphafi leiddi okkur inn í fjárhelli sem notaður var undir sauðfé í seinni tíð.

Ekki er vitað til hvers hann var fyrst myndaður.

Hellarnir eru gerðir úr sandsteini og í þessum helli mátti líta stromp úr steinhleðslu sem bæði gefur gott loft og birtu inn í hellinn.

Strompurinn mjókkar upp til að koma í veg fyrir að regn og snjór komist inn.

Þarna inni er líka gamall brunnur.


Hlöðuhellir

Næsti hellir var Hlöðuhellir sem uppgötvaðist árið 1913 og er ártalið grafið í vegginn.

Ungur drengur var látinn skríða inn til að kanna hversu langur hellirinn var og kom þá í ljós að hann var 11 metra langur.

Var þessi hellir notaður sem hlaða þar til ný var byggð og eftir það var hann notaður sem kartöflugeymsla.

Á veggjunum er mikið um krot og skrif, sem ekki er hægt að aldursgreina vegna þess að þau eru rist í veggina og engin efni notuð, sem oftast eru notuð við slíkar greiningar.


Næsti hellir var hliðarhellir við fjárhellinn.

Loftið í flestum hellunum er frekar bogadregið til að veita meiri styrk, en svo er ekki í þessum helli.

Hér eru sléttar hliðar, rétthyrndir veggir og loft.

Augljóst er að hann hefur ekki verið notaður fyrir dýr.

Hins vegar hafa fundist merki um reipi.

Því hefur fólk getið sér þess til að hellinum hafi verið lokað af með tjaldi.

Hér eru einnig flatir steinar sem hafa verið tilhöggnir.

Sennilega hefur þetta því verið matargeymsla því þessi hluti er stór, hátt er til lofts og enginn strompur er þar svo hér verður kalt.

Þarna er mikið af lífrænum leifum.

Sveppir vaxa þarna á haustin, en þeir vaxa upp af lífrænum leifum.


Til hvers voru hellarnir gerðir?

Við gefum Hönnu Valdísi orðið:

„Fornleifafræðingarnir okkar hafa ekki getað gefið svör um til hvers hellarnir voru upphaflega notaðir.

Leitað var til skandinavískra fornleifafræðinga sem sögðu að þar væri ekkert um manngerða hella.

Víkingarnir gerðu ekki hella.

Þá var litið til Írlands, en þar eru yfir 3000 manngerðir hellar.

Þeir vissu alveg hvað þeir voru að gera“

segir leiðsögukonan okkar.

„Írskum fornleifafræðingum fannst algerlega augljóst hvað hér er að á ferðinni.

Gömul írsk eldunaraðferð fólst í því að taka stóra flata steina hita þá yfir opnum eldi, færa þá svo á góðan stað og steikja mat ofan á steinunum“

segir Hanna Valdís.

Eftir að komið var út úr þessum hellum benti Hanna Valdís okkur á nokkra hella, sem ekki eru opnir almenningi, en hún sagði okkur frá þeim.

„Einn af þeim er kirkjuhellir, sem því miður er ekki opinn.

Kaþólska kirkjan hélt messu þar árið 1950.

Svo er hrútshellir þar sem hrútar voru geymdir fram að jólum.

Þvínæst kemur brunnhellir, sem uppgötvaðist árið 1907.

Hann fannst þannig að hestur og knapi hurfu niður í sjö metra dýpið.

Einn hellir er búrhellir.

Hann er ekki aðgengilegur, en er um 15 metra langur.“



Fjóshellir er næsti hellir og þar fórum við inn.

Afar stórt rými er í þessum helli, en hann ber öll merki helgistaðar.

Fullkominn staður er fyrir kerti.

Hanna Valdís segir okkur að þetta sé vissulega verk stórs hóps fólks, sem vissi nákvæmlega hvað þau voru að gera því hellirinn hefur staðið í yfir 1000 ár.

Og nú fer hún að segja okkur frá tilgátu þeirra um að það hafi verið Írar eða Keltar sem hafi gert hellana löngu fyrir landnám.

Hún spurði fyrst:

„Gátu Írar komið sér hingað á þessum tíma?“

Og hún svaraði þeirri spurningu sjálf:

„Sterkar vísbendinagar í heimildum segja okkur frá því að Keltar höfðu þekkingu til að koma hingð.

Sankti Brendan á að hafa siglt til lands sem heitir Thule.

Lýsingin passar fullkomlega fyrir Ísland.

Og erindi hans var að heimsækja vini sína.

Hér voru Írar því áður en hann kom, sem gerðu þessa hella.

Nákvæm lýsing er til á skipinu sem heilagur Brendan notaði, seglskip með viðarbyggingu og leðurhúð.

Íslendingabók Ara fróða segir að þegar víkingarnir komu hafi verið hér írskir munkar sem þeir kölluðu papa.

Írar urðu kristnir í kringum árin 500-800 og margir munkar voru mikið lærðir.

Þeir unnu með samfélögum, unnu með fólki og stunduðu fræðslu.

Þeir kenndu fólki margt, boðuðu trúna og gátu verið af báðum kynjum.“

Og Hanna Valdís spyr:

„Hvað gerðu víkingarnir þegar þeir hittu papana?

Það var kostur fyrir víkingana að hafa þá hér bæði fyrir viðskipti og hjálp, ef illa fór.

Milli Rangár og Þjórsár eru um 120 hellar.

Á þessu svæði erum við ekki með neinn stóran landnámsmann.

Af hverju?“ spyr hún.

„Hér var fólk fyrir og þeir hafa ekki rutt þeim úr vegi.

Þessi hellir ýtir mjög undir þessar hugmyndir.

Þetta er nákvæmlega eins og kirkja.

Hellirinn er greinilega gerður í trúarlegum tilgangi.

Hér er fullkomið svið og hér er strompur sem lýsir mig upp og ég gæti verið að lesa hér, það er svo bjart.

Það er þetta innra herbergi hér sem við köllum kapelluna og síðan er hér pláss fyrir að minnsta kosti 50 manns sitjandi.

Hljómburðurinn er líka frábær.

Hellirinn er greinilega byggður með trúarlega hugsun á bakvið sig.

Krossar eru á veggjum og kross er fyrir miðju á veggnum sem gæti hafa verið staður altarisins.

Auk þess hefur verið höggvið í hliðarveggina stæði fyrir logndi ljós. “

Hér lauk leiðsögn Hönnu Valdísar og við gengum hljóðum skrefum aftur til þjóðvegar númer eitt íhugandi líf fyrri alda á þessum forna helgistað.

 

slg


Myndir með frétt

  • Heimsókn

  • Kirkjustaðir

  • Menning

  • Fræðsla

Sr. Guðrún og frú Agnes

Nýkjörnum biskupi fagnað á biskupsstofu

07. maí 2024
...fjölmiðlum boðið til fagnaðarins
Guðrún Karls-ný mynd.jpg - mynd

Sr. Guðrún Karls Helgudóttir kjörin biskup Íslands

07. maí 2024
...síðari umferð lauk í dag