Messað í eyðibyggðum

18. júlí 2023

Messað í eyðibyggðum

Sr. Sigríður Rún og sr. Kristín Þórunn - mynd Guðný Sigríður Ólafsdóttir

Eins og fram hefur komið á kirkjan.is í sumar er sumarstarf kirkjunnar með nokkuð öðru sniði en vetrarstarfið.

Þá er gjarnan messað í litlum sóknum eða jafnvel haldnar útimessur og svo er messað á nokkrum stöðum á landinu þar sem enginn býr lengur.

Kirkjan.is sagði fyrr í sumar frá messu í Grunnavík þar sem biskup Íslands frú Agnes M. Sigurðardóttir vísiteraði ásamt prófasti sr. Magnúsi Erlingssyni.

 

Síðast liðinn laugardag 15. júlí messaði sr. Magnús svo í bænhúsinu í Furufirði.

Að því er fram kemur í Bæjarins besta – vestfirskar fréttir  þá „hefur líklega verið bænhús í Furufirði frá fornu fari og því þjónað af prestinum á Stað í Grunnavík.

Furufjörður var í eyði snemma á 18. öld þegar Árni Magnússon og Páll Vídalín settu saman Jarðabók sína en í bókinni er getið um að meðan jörðin var í byggð hafi verið embættað tvisvar á ári og menn gengið til altaris.

Jörðin byggðist aftur en prestsþjónusta komst ekki á, heldur þurftu íbúar nú að sækja þá þjónustu til Grunnavíkur.“

Sunnudaginn 16. júlí var messað á Klyppsstað í Loðmundarfirði, en hefð er fyrir árlegri messu þar um miðjan júlí.

Prófastur Austurlands sr. Sigríður Rún Tryggvadóttir og sr. Kristín Þórunn Tómasdóttir prestur í Egilsstaðaprestakalli messuðu.

Það eru að verða tveir áratugir síðan að árleg sumarmessa var tekin upp á þessum einstaka stað og hefur hún að jafnaði verið vel sótt úr nágrannabyggðum og af ferðafólki.

Núverandi kirkja á Klyppstað er látlaus og formfögur timburkirkja og var reist árið 1895.

Prestur sat Klyppstað til ársins 1888, en eftir það var staðnum þjónað frá Dvergasteini og síðar Seyðisfirði.

Kirkjan er friðað hús og hefur ekki verið afhelguð.

Fyrri hluta 20. aldar var blómleg byggð í Loðmundarfirði.

Um aldamótin 1900 voru þar 87 íbúar.

Klyppstaður fór í eyði árið 1962 og önnur byggð í þessum grösuga firði lagðist af upp úr 1970.

Kirkjan stendur enn og voru miklar endurbætur gerðar á henni á árunum 1976-1986 og árið 1990 var hún friðuð.

Ferðafélag Fljótsdalshéraðs tók kirkjuna undir sinn verndarvæng árið 2010 og var hún máluð að utan það sumar.

Sr. Kristín Þórunn segir "að sr. Jóhanna Ingibjörg Sigmarsdóttir fyrrum prófastur hafi haft forgöngu um að hefja sumarstarfið í Klyppstaðarkirkju og var hennar sérstaklega minnst í stundinni, en Jóhanna lést sl. haust.

Í sumarmessunum á Klyppstað sameinaðist ástríða Jóhönnu sem var þjónusta í kirkjum Austurlands og starf Ferðafélagsins.

Samstarf kirkju og Ferðafélagsins hefur enda verið með sóma og kirkjukaffi boðið í skála félagsins í Loðmundarfirði."


Að sögn sr. Krístínar Þórunnar þá „blés ekki byrlega á leið til messu í Klyppstaðarkirkju á sunnudaginn, og steypiregn var á Borgarfirði þegar messugestir áttu þar leið um í kaffi- og pissustoppi.“

Frá Borgarfirði er um eins og hálfs tíma leið í Loðmundarfjörð, yfir afar fallegan en þröngan og oft hrikalegan veg.

“En viti menn“ segir sr. Kristín Þórunn „að eftir því sem nær dró áfangastað, fór hann að rífa af sér og þegar hringt var til messu kl. 14:00 sást glitta í heiðan himin og mildur blær lék um sóleyjar, strá og fólk.“

Um 50 manns voru við messuna á sunnudaginn.

Sönghópurinn Bakkasystur frá Borgarfirði leiddi safnaðarsöng og messusvör undir stjórn Jóns Ólafs Sigurðssonar og meðhjálpari var Kristjana Björnsdóttir.

Sr. Kristín Þórunn segir að sumarmessur á Klyppstað séu klárlega komnar til að vera, byggðinni til blessunar og gestum til gleði!

Nú styttist í 130 ára afmæli kirkjunnar og 20 ára afmæli endurreistrar þjónustu þar og er vilji til að minnast þess á veglegan hátt.



Síðustu helgina í júlí þann 30. júlí verður messað utandyra á Þönglabakka í Þorgeirsfirði þar sem engin kirkja stendur þar lengur.

Sr. Hafdís Davíðsdóttir sóknarprestur í Laufási messar.

Á Þönglabakka var prestssetur fram á tuttugustu öld, en bærinn fór í eyði árið 1944.

Útkirkja frá Þönglabakka var í Flatey á Skjálfanda en var færð að Brettingsstöðum á Flateyjardal árið 1897, en aftur út í Flatey árið 1956.

Þegar Þönglabakki fór í eyði árið 1944 var gamla kirkjan þar rifin.

Enn sér móta fyrir grunninum af henni, og hlaðinn kirkjugarðurinn er enn þar í kring.

Þar er eitt leiði merkt, með hvítum marmaralegsteini, yfir Ísak Jónssyni, sem drukknaði í Nykurtjörn nálægt aldamótum.

 

Um verslunarmannahelgina þann 6. ágúst verður samkvæmt venju messað í Ábæ.

Ábær  er eyðibýli og kirkjustaður í Austurdal, á eystri bakka Austari-Jökulsár í Skagafirði.

Lítil, steinsteypt kirkja stendur enn uppi að Ábæ sem var vígð árið 1922 og var haldið veglega upp á 100 ára afmæli hennar síðast liðið sumar.

Kirkjan var teiknuð af Guðjóni Samúelssyni fyrrum húsameistara ríkisins.

Ábær fór í eyði árið 1950.

Sr. Halla Rut Stefándsdóttir prestur í Skagfjarðarprestakalli messar að þessu sinni í Ábæ og Kristján H. Kristjánsson fyrrum skólastjóri flytur hugleiðingu, en Kristján er formaður sóknarnefndar Reykjakirkju.

Mynd hér fyrir neðan af altari Klyppsstaðarkirkju tók Guðný Sigríður Ólafsdóttir. 

Hin myndin er af bænhúsinu í Furufirði.



slg


Myndir með frétt

  • Kirkjustarf

  • Messa

  • Prestar og djáknar

  • Prófastur

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Kirkjustaðir

Hópmynd 2.jpg - mynd

Borgarneskirkja friðlýst

10. maí 2024
...á 65 ára afmæli kirkjunnar
Vorhátíð.jpg - mynd

Vorhátíðir víða um land

10. maí 2024
...vetrarstarfi að ljúka
Sr. Guðrún við altari Grafarvogskirkju

Blessunaróskir berast frá víðri veröld

10. maí 2024
...á vef Lútherska heimssambandsins