Vegna umræðu um stöðu biskups Íslands

26. júlí 2023

Vegna umræðu um stöðu biskups Íslands

Með lögum nr. 153/2019 sem tóku gildi 1. janúar 2020, voru gerðar lagabreytingar sem m.a. fólu í sér að kirkjan tók við öllum starfsmönnum sínum og starfsmannamálum. Í þessu fólst m.a. sú grundvallarbreyting að biskup Íslands taldist frá 1. janúar 2020 ekki lengur embættismaður ríkisins heldur starfsmaður þjóðkirkjunnar. Þetta hefur gengið eftir í framkvæmd og hefur biskup Íslands frá nefndu tímamarki verið starfsmaður kirkjunnar og þegið þaðan laun.

Á grundvelli 10. gr. laga um þjóðkirkjuna nr. 77/2021, setti kirkjuþing nýjar starfsreglur um kosningu biskups Íslands og vígslubiskupa nr. 9/2021-2022 sem tóku gildi hinn 1. janúar 2022. Í þeim reglum kemur fram að ákvörðun um það hvenær biskupskjör skuli fara fram er í höndum kjörstjórnar og er sú ákvörðun háð samþykki forsætisnefndar kirkjuþings. Fyrir liggur að kjörstjórn þjóðkirkjunnar hefur nýlega boðað til biskupskosninga, eftir að biskup Íslands tilkynnti um starfslok sín árið 2024 í nýárspredikun sinni, sem munu fara fram fyrri hluta næsta árs. Þar til niðurstaða fæst úr þeim kosningum og formleg biskupsskipti hafa farið fram hefur biskup Ísland fullt umboð.

Í lögskýringargögnum með áðurnefndum lögum nr. 153/2019 er tekið sérstaklega fram að því starfsfólki kirkjunnar sem skipað var tímabundið yrði boðinn ráðningarsamningur að skipunartíma loknum. Sökum þess að biskup Íslands fellur undir þessa skilgreiningu var gerður ráðningarsamningur við biskup, líkt og við aðra í sambærilegri stöðu, eða 1. júlí 2022. Aðrir kostir voru vitaskuld ekki tækir, enda hafði kjörstjórn ekki boðað til biskupskjörs fyrir lok skipunartímans.

Í fréttaflutningi hefur verið gert tortryggilegt að framkvæmdastjóri biskupsstofu hafi ritað undir ráðningarsamning við biskup fyrir hönd þjóðkirkjunnar þar sem framkvæmdastjórinn sé undirmaður biskups. Í þeirri gagnrýni felst ákveðin misskilningur á stjórnskipan kirkjustjórnarinnar. Staðreyndin er sú að ekki var öðrum til að dreifa innan stjórnsýslu kirkjunnar til að standa að umræddri samningsgerð. Í því sambandi er til þess að líta að biskup Íslands er ekki starfsmaður kirkjuþings né rekstarstofu þjóðkirkjunnar, sem heyrir undir kirkjuþing, og því kom ekki til álita að kirkjuþing eða framkvæmdastjóri rekstrarstofu hefðu aðkomu að samningsgerðinni. Til samningsins var því stofnað á grundvelli 2. mgr. 4. gr. starfsreglna kirkjuþings nr. 56/2021-2022 þar sem fram kemur að biskup Íslands annist ráðningarmál starfsfólks þjóðkirkjunnar. Líkt og tíðkast hefur um langa hríð í ráðningarmálum innan þjóðkirkjunnar ritaði framkvæmdastjóri biskupsstofu undir samninginn fyrir hönd þjóðkirkjunnar.

Samkvæmt framansögðu er engin réttaróvissa um stöðu biskups. Þvert á móti hefur biskup Íslands fullt umboð til að sinna þeim verkefnum sem henni eru falin með lögum og jafnframt ákvörðunarvald um einstök mál á grundvelli laga eða kirkjuhefðar, enda hefur annar biskup yfir Íslandi ekki verið kosinn.

Að öðru leyti mun biskup Íslands ekki frekar tjá sig efnislega um málið við fjölmiðla meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefnd þjóðkirkjunnar.

virðingarfyllst,
f.h. biskups Íslands
Einar Hugi Bjarnason, hæstaréttarlögmaður
Pétur G. Markan, biskupsritari
  • Frétt

  • Kirkjuþing

  • Þjóðkirkjan

  • Biskup

Prestar í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra ásamt fyrirlesurum

Vorfundur presta í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra

26. apr. 2024
...síðasti prestafundur sr. Helgu Soffíu sem prófastur
Forsíðumynd-Sumardagurinn fyrst -skrúðganga á kirkjuplani.jpg - mynd

Sumardagurinn fyrsti í Fossvoginum

26. apr. 2024
...fjölsótt dagskrá í kirkjunni
Digraneskirkja

Laust starf

26. apr. 2024
...prests við Digranes- og Hjallaprestakall