Frá biskupi Íslands

16. október 2023

Frá biskupi Íslands

Biskup Íslands frú Agnes M. Sigurðardóttir hefur sent frá sér eftirfarandi yfirlýsingu:

"Á grundvelli köllunar minnar til að þjóna þjóðkirkjunni gaf ég kost á mér til embættis biskups Íslands og var kosin af fólkinu í kirkjunni árið 2012 til þeirra starfa.

Fimm árum síðar árið 2017 var umboð mitt framlengt á forsendum sömu kosningar.

Þegar þjóðkirkjan fékk aukið sjálfstæði með lögum árið 2021 fylgdu skýr skilaboð frá ríkinu um að kirkjuþing þyrfti að setja reglur um það hvernig þessum málum væri háttað.

Öllum skyldi tryggð sömu réttindi.

Nú hefur úrskurðarnefnd þjóðkirkjunnar komist að þeirri niðurstöðu að kirkjuþing hafi brugðist þessari skyldu sinni.

Ég tek það alvarlega.

Mikilvægt er nú að fá niðurstöðu dómstóla um málið.

Þess vegna tel ég rétt að áfrýja þessari niðurstöðu með hagsmuni þjóðkirkjunnar að leiðarljósi.

Framundan á næsta ári eru biskupskosningar, eins og komið hefur fram í máli kjörstjórnar þjóðkirkjunnar, þar sem fólkið í kirkjunni mun kjósa sér nýjan biskup til næstu ára.

Ég hef hvatt forseta kirkjuþings til að tryggja og skýra stöðu biskups Íslands til frambúðar.

Ég hef beitt mér sérstaklega fyrir því að taka á ofbeldismálum innan kirkjunnar til þess að kirkjan sé öruggur staður.

Ég er stolt af því en átta mig um leið á því að það geti verið umdeilt af hálfu þeirra einstaklinga sem um ræðir.

Vígslubiskuparnir í Skálholti og á Hólum hafa verið mér samstíga alla mína biskupstíð og verið mér styðjandi kollegar í mörgum krefjandi málum.

Það er stuðningur sem er bæði ómetanlegur og mikilvægur þegar reynir á stjórnsýslulegan styrk í stöku málum.

Þá er ég afar þakklát þeim stuðningi sem prestar og djáknar sýndu mér og þjóðkirkjunni í sumar með yfirlýsingum.

Ég hef sinnt starfi mínu sem biskup Íslands með köllun í hjarta og huga.

Á þeirri vegferð hafa orðið grundvallandi breytingar á þjóðkirkjunni sem ég tel efla og móta kirkjuna til að takast á við bjarta framtíð kristni í landinu.

Ég er stolt af kirkjunni minni, fólkinu sem hana mynda, þjóna og starfa um land allt.

Það er hin eiginlega þjóðkirkja."

Reykjavík, mánudaginn 16. október 2023
Agnes M. Sigurðardóttir
biskup Íslands

 

slg


  • Þjóðkirkjan

  • Frétt

Krakkakór.jpg - mynd

Söngvahátíð barnanna í Hallgrímskirkju

02. maí 2024
...um 200 börn sungu
Anna Sigga, sr. Sigrún og Bylgja Dís

Sumarsöngvar í fangelsi

02. maí 2024
...frásögn fangaprests
Sr. Guðmundur og sr. Guðrún á kynningarfundi á Selfossi

Síðari umferð biskupskosninga hefst í dag

02. maí 2024
...lýkur 7. maí kl. 12:00