„Gott ráð, Engilráð!“

16. október 2023

„Gott ráð, Engilráð!“

„Hvað er sterkara en vöðvar og ofurkraftar allra ofurhetjanna í heiminum samanlagt?

Hvernig í veröldinni er hægt að virkja slíkan kraft?

Og geta venjuleg börn fengið hann?

Dag nokkurn fengu nokkur börn óvenjulegar gjafir í skóinn.

Gjafirnar áttu eftir að breyta lífi þeirra."

Svo segir í kynningu á bókinni Gott ráð Engilráð, sem er væntanleg á markað innan skamms.

Á undanförnum árum hafa kirkjur gjarnan kallað eftir bók fyrir jólin til að gefa börnum á aðventu og jólum í tengslum við kirkjustarf og helgihald þar sem kjarni kristinnar trúar er túlkaður við hæfi barna.

Nú er ný bók að líta dagsins ljós fyrir þessi jól.

Bókin er gefin út af Skálholtsútgáfu, en er samstarfsverkefni útgáfunnar og fræðsludeildar Biskupsstofu.

Höfundur bókarinnar er Elín Elísabet Jóhannsdóttir fræðslustjóri kirkjunnar, en myndlistarkonan Sigrún Hanna myndskreytti.

Samhliða bókinni hefur verið gerður lítill söngleikur fyrir barna- og unglingakóra.

Þar er saga bókarinnar sögð í tali og tónum.

„Þetta hefur verið mjög skemmtilegt ferli“ segir Elín Elísabet.

„Þegar sagan var í smíðum datt mér í hug að útvíkka verkefnið.

Ég hafði samband við sr. Guðmund Karl Brynjarsson, prest í Lindakirkju og bað hann um að búa til söngleik upp úr sögunni.

Hugmyndin var sú að kirkjur gætu þá verið með fallegar samverustundir á aðventunni þar sem barna- og unglingakórar flytja söngleikinn og síðan gætu söfnuðirnir gefið þeim börnum sem koma í kirkjuna á aðventunni eintak af bókinni.“

Elín Elísabet segir sr. Guðmund Karl hafa tekið afar vel í hugmyndina og fengið Óskar Einarsson, tónlistarstjóra Lindakirkju í lið með sér.

Guðmundur Karl samdi lög og texta, en Óskar útsetti.

Nú er bókin farin í prentun og mun vera komin til landsins innan skamms.

Hins vegar er söngleikurinn tilbúinn og eru bæði nótur, handrit söngleiksins og kennslumyndbönd komin inn á Efnisveitu kirkjustarfsins.

Það er gaman að geta þess að inni í bókinni er QR kóði sem gerir lesendum bókarinnar kleift að hlusta á lag úr söngleiknum, flutt af barna- og unglingakór Lindakirkju undir stjórn Áslaugar Helgu Hálfdánardóttur og Hjördísar Matthíasardóttur.

Hér  má hlusta á Vináttulagið.

slg


  • Barnastarf

  • Fræðsla

  • Kirkjustarf

  • Samstarf

  • Tónlist

  • Útgáfa

  • Æskulýðsmál

Sr. Guðrún og frú Agnes

Nýkjörnum biskupi fagnað á biskupsstofu

07. maí 2024
...fjölmiðlum boðið til fagnaðarins
Guðrún Karls-ný mynd.jpg - mynd

Sr. Guðrún Karls Helgudóttir kjörin biskup Íslands

07. maí 2024
...síðari umferð lauk í dag