Vel heppnað landsmót ÆSKÞ

18. október 2023

Vel heppnað landsmót ÆSKÞ

Lokamessan í Egilsstaðakirkju-mynd sr. Kristín Þórunn Tómasdóttir

Landsmót ÆSKÞ, Æskulýðssambands þjóðkirkjunnar, var haldið á Egilsstöðum um síðast liðna helgi, 13.-15.október 2023.

Að sögn Sólveigar Franklínsdóttur formanns ÆSKR var

„mikil eftirvænting og spenna fyrir mótinu sem hefur ekki verið haldið frá því árið 2019.

Rúmlega tvö hundruð ungmenni og leiðtogar voru saman komin víðs vegar að af landinu og gekk mótið vel og voru allir til sóma og fóru glaðir heim.“

 

Yfirskrift mótsins í ár var Fögnum fjölbreytileikanum.

Þátttakendur æfðu sig í að elska og virða hvert annað bæði að utan sem innan og fögnuðu þannig þeirri fjölbreytni sem er að finna hjá okkur öllum.

Með kærleika, umhyggju og virðingu gátu þátttakendur fundið nýja styrkleika, skemmtun og skilning á sjálfum sér og hjá hvert öðru og í umhverfinu öllu.

Sólveig segir að „dagskrá mótsins hafi verið hin glæsilegasta og öll framkvæmd hennar eins og best verður á kosið.

Má þar nefna „Flæðimessu“ eða „Messy Church“ þar sem sr. Dagar Fannar Magnússon fræddi og þjónaði, ásamt leiðtogum mótsins.

Tíu verkefnastöðvar voru í boði, þar sem þátttakendur bjuggu m. a. til hnött úr pappamassa, (sjá mynd hér fyrir neðan) skuggabrúður og vistkerfi í kassa.

Þau máluðu himingeiminn, unnu með tilfinningar með lituðu vatni, föndruðu dýr og menn til að líma á hnöttinn og smökkuðu popp með ýmsum bragðtegundum.

Einnig var margs konar hópastarf í boði, bæði innan- og utandyra, ásamt sundlaugarpartýi, hæfileikakeppni, balli og helgistundum.“

Það er mikil vinna sem liggur að baki móti sem þessu og lagði ÆSKÞ gífurlegan metnað í mótið.

Landsmótsstjóri var Berglind Hönnudóttir sem sá um skipulagningu ásamt framkvæmdastjóra ÆSKÞ og landsmótsnefnd.

Þá voru sjálfboðaliðar mótsins, að sögn Sólveigar „algjörlega ómissandi og stóðu sig gríðarlega vel í hinum ýmsu krefjandi verkefnum.

Með því að skoða og þroska sjálfa sig í gegnum leiki, hópavinnu, verkefni og listir fengu þátttakendur tækifæri til að upplifa kærleika og þróa með sér hæfni til að takast á við veruleikann sem þeir mæta hverju sinni.“

Að lokum sagði Sólveig:

„Við erum sköpunarverk Guðs og líkt og þegar við leggjum okkur fram um að vernda og virða náttúruna þá skiptir máli að við leggjum okkur fram um að vernda, virða, styrkja og efla okkur sjálf.

Þá er mikilvægt að koma á framfæri þökkum til grunnskólans, sundlaugarinnar, Hótels Valaskjálf og kirkjunnar á Egilsstöðum og til allra leiðtoganna, bílstjóranna og þeirra einstaklinga og fyrirtækja er studdu við landsmótið með einum eða öðrum hætti.

Landsmóti ÆSKÞ á Egilsstöðum 2023 verður kannski best lýst með lokaljóðinu sem sr. Magnús Magnússon sóknarprestur í Húnavatnsprestakalli orti í rútunni á heimleið við lagboðann Fyrr var oft í koti kátt.:

 

Á Egilsstöðum undum sátt

æskan lék sér saman

þar löngum hlegið hátt

hent að mörgu gaman.

Sköpun heimsins skýrð út þar

skondnar sagðar sögur

fjölbreytninni fagnað var

framhjá streymdi Lögur.

 

Margt eitt kvöld og margan dag

mættum við í fæði

síðan sungum ljúflingslag

saman öll í næði.

Landsmótsnefnd og lýður kær

ljúft þið glödduð krakka

Bella, Solla; báðar tvær

best má ykkur þakka.“

 

Hér fyrir neðan má einnig sjá mynd af Æskulýðsfélagi Hvammstangakirkju ásamt sr. Magnúsi Magnússyni, sóknarpresti.

 

slg



Myndir með frétt

  • Forvarnir

  • Fræðsla

  • Kirkjustaðir

  • Kirkjustarf

  • Messa

  • Prestar og djáknar

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Sjálfboðaliðar

  • Trúin

  • Æskulýðsmál

Krakkakór.jpg - mynd

Söngvahátíð barnanna í Hallgrímskirkju

02. maí 2024
...um 200 börn sungu
Anna Sigga, sr. Sigrún og Bylgja Dís

Sumarsöngvar í fangelsi

02. maí 2024
...frásögn fangaprests
Sr. Guðmundur og sr. Guðrún á kynningarfundi á Selfossi

Síðari umferð biskupskosninga hefst í dag

02. maí 2024
...lýkur 7. maí kl. 12:00