Biskupar Norðurlandanna og biskupar frá Úkraínu ræða saman

19. desember 2023

Biskupar Norðurlandanna og biskupar frá Úkraínu ræða saman

Frá biskupafundinum-mynd Andrii Sydor

Biskupar lúthersku kirkjunnar í Svíþjóð, Noregi og Íslandi áttu nýlega tveggja daga upplýsingafund, bæn og samfélag um stöðu kirkjunnar í Úkraínu með biskupum frá Úkraínu.

Fundurinn fór fram í Uppsölum og Stokkhólmi og sótti sr. Kristján Björnsson, vígslubiskup í Skálholti, sem staðgengill biskups Íslands, fundinn fyrir hönd Íslands.

Að mati sr. Kristjáns var fundurinn mjög gagnlegur

“en einnig var átakanlegt að heyra af atlögu að trúfrelsi og erfiðri baráttu fyrir sigri í þessu varnarstríði sem þjóðin háir sem einn maður gegn innrás Pútín og Rússlands.

Við fengum að heyra að prestar eru á aftökulista og kirkjur hafa verið yfirteknar af Rússnesku rétttrúnaðarkirkjunni allt frá innrásinni á Krímskaga 2013 með yfirtöku rússnesku kirkjunnar á því svæði“ segir sr. Kristján.

„Prestar, djáknar og biskupar hafa þurft að forða sér þar sem þeir stóðu, en urðu að skilja kirkju og fjölmörg sóknarbörn eftir.

Skipt hefur verið um íbúa á mörgum herteknu svæðunum þar sem á annað borð er íbúðahæft.

Metrópolítan yfir Krím flýði til Mariopol og byggðu söfnuðirnir þar upp eldri dómkirkju og nokkrar sóknarkirkjur.

Þaðan flýði hann svo eins og hann stóð og gat ekki tekið neitt með sér.“

Og sr. Kristján bætir hann við:

„Það eru þó stöðugt góðar fréttir af björgun og er haft á orði í Úkraínu að íbúarnir eru orðnir svo vanir kraftaverkum að þau eru næstum orðin hversdagsleg.

Biskuparnir voru með á fundum herráðsins frá upphafi og eru stoltir af því hvað þjóðin er andlega sterk.

Þeir biðja samt um andleg vopn í barátti sinni og tala um herklæði andans en til þess þurfi allir að leggjast á eitt í bæn.

Það hefur verið mesti stuðningur kirkjunnar í Evrópu og um heim allan frá upphafi og allt til þessa.“

Og sr. Kristján heldur áfram:

„Rússneska réttrúnaðarkirkjan virðist hafa þurft mjög á því að halda að hafa stjórn á úkraínsku rétttrúnaðarkirkjunni í gegnum tíðina.

Biskuparnir töluðu hiklaust um innrásina sem staðið hefur yfir í nær tvö ár og stríðið sem staðið hefur yfir í tíu ár frá innlimun Krímskaga.

Raunar hefur yfirgangur Rússa staðið í 300 ár og má þar meðal annars nefna þjóðarmorð tugþúsunda Úkraínubúa á öldum áður.“

Gestir fundarins frá Úkraínu voru annars vegar metropolítarnir hans beatitude Epiphaniy, metropolitan yfir Kyiv og allri Úkraínu, hans excellency Yevstratiy, metropolitan frá Bila Tserkva, yfirmaður samskipta við aðrar kirkjur, Andrii Sydor djákni sem einnig er ljósmyndari og tók meðfylgjandi myndir og Roman Labinskyi, persónulegur aðstoðarmaður Metropolitan Epiphaniy.

Rétttrúnaðarkirkjan er lang stærsta trúfélag Úkraínu og teljast yfir 76% íbúa landsins til hennar, en þar er einnig Lútherska kirkjan í Úkraínu.

Frá Lúthersku kirkjunni komu biskupinn Pavlo Shvarts og forseti kirkjuþingsins, sr. Oleksandr Grosse.

Þó að mótmælendakirkjur í Úkraínu telji aðeins um 2% íbúa kom fram hjá sænskum fulltrúa á fundinum, Colleen Heemskerk, að öll aðstoð og hjálparstarf á vegum Lútherska heimssambandsins í Úkraínu er veitt með ráðgjöf og aðstoð Lúthersku kirkjunnar í Úkraínu.

Mest af framlögum Lútherska heimssambandsins fer til flóttafólks í Póllandi og áfram.

„Á fundinum var farið vel yfir stöðu flóttafólks“ segir sr. Kristján „og félagslega aðstoð til þeirra á Norðurlöndunum, hjálparstarf og aðstoð Save the Children.“

Um 40% flóttamannanna eru meira og minna komin í vinnu og vilja vinna.

Sálræn aðstoð er á þann hátt erfið að í sögunni hefur hún verið misnotuð af valdhöfum allt frá tíma Sovétríkjanna og nauðsynlegt er að hún fari fram með aðstoð fagfólks frá Úkraínu eða á úkraínsku.

„Í máli fulltrúanna kom skýrt fram að Úkraína er að gjalda hæsta gjald sem hægt er að gjalda fyrir trúfrelsi og frjálsa hugsun með baráttu sinni fyrir sjálfstæði Úkraínu.

Af þeim sökum virðist ekki hægt að hugsa sér friðarviðræður á þessu stigi og ljóst að varnarstríði Úkraínu muni ekki ljúka nema með því að sigra aftur landið sem ráðist var inní“

segir sr. Kristján.

Í beinu framhaldi af fundinum í Uppsölum og Stokkhólmi með erkibiskupi Svíþjóðar, Martin Modéus, formanni biskupafundarins í Noregi, Olav Fykse Tveit og íslenska biskupnum, sr. Kristjáni Björnssyni, héldu fulltrúar Úkraínu til Finnlands.

Þar funduðu þeir með erkibiskupi Finnlands, Tapio Luoma og formanni biskupanna í Danmörku, Peter Skov-Jakobsen.

Nokkrir starfsmenn sænsku og norsku kirkjunnar tóku þátt í fundi biskupanna.

Til liðs við hópinn kom svo Metropolítan Cleopas sem er yfir Stokkhólmi og Norðurlöndum.

Var haldin guðsþjónusta í Norrænu grísk rétttrúnaðarkirkjunni og Úkraínsku rétttrúnaðarkirkjunni ásamt sendiherrum Grikklands og Kýpur í dómkirkju heilags Giorgios (Georgs) í Stokkhólmi.

Þá var einnig fundur og gagnkvæm kynning á stöðu kirkjunnar á vegum samkirkjulega samstarfsins í Stokkhólmi sem allar kirkjudeildir eiga aðild að.

Þennan fund leiddi sr. Sofia Camnerin.


slg


Myndir með frétt

  • Flóttafólk

  • Fundur

  • Heimsókn

  • Kirkjustarf

  • Prestar og djáknar

  • Samstarf

  • Úkraína

  • Vígslubiskup

  • Alþjóðastarf

Lokahátíð barnastarfsins í Akureyrarkirkju.jpg - mynd

Lokahátíð barnastarfs Akureyrarkirkju 2024

29. apr. 2024
...mikil tónlistrveisla
Færir foreldrar.jpg - mynd

Færir foreldrar á foreldramorgni

29. apr. 2024
...áhugavert samstarf söfnuða í Reykjavík
Prestar í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra ásamt fyrirlesurum

Vorfundur presta í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra

26. apr. 2024
...síðasti prestafundur sr. Helgu Soffíu sem prófastur