„Traust er mikilvægt í mannlegum samskiptum“

2. janúar 2024

„Traust er mikilvægt í mannlegum samskiptum“

Biskup Íslands frú Agnes M. Sigurðardóttir

Biskup Íslands frú Agnes M. Sigurðardóttir hélt sína síðustu nýjárspredikun í Dómkirkjunni í Reykjavík á nýjársdagsmorgun, en hún mun láta af embætti á þessu ári.

Predikanir biskups Íslands á nýjársdag hafa jafnan vakið mikla athygli.

Í þessari síðustu nýjárspredikun sinni lagði hún mikla áherslu á mikilvægi trausts í mannlegum samskiptum og sagði:

„Traust er mikilvægt í mannlegum samskiptum og traust er mikilvægt til þess að líða vel í dagsins önn.

Þegar eitthvað bregst eða einhver bregst missum við traustið.

Það er sýnilegt í okkar samfélagi og víðar um veröld að skortur á trausti er til staðar.“

 

Þrátt fyrir að kannanir sýni þverrandi traust á þjóðkirkjunni þá benti biskup á að

„kannanir sýni að hin eiginlega þjóðkirkja eins og ég kalla það, sem er fólkið sem ann sinni sóknarkirkju, þykir þjónusta og nærvera kirkju sinnar og prestanna og annarra sem eru þar í forsvari býsna góð og nauðsynleg í nærsamfélaginu.

Ekki er þar að sjá að neikvæðni eða að skortur á trausti séu þar ofarlega á blaði.“

Og hún bætti við:

„Þjóðkirkjan er samheiti yfir þau sem tilheyra henni.

Þjóðkirkjan er samheiti yfir sóknir landsins og söfnuði.

Hver sókn er sjálfstæð og vil ég þakka sérstaklega þeim fjölmörgu sem hlúa að sinni kirkju og sinna þjónustu við hana fyrir afburða farsælt starf og elskusemi í garð trúar og kirkju.

Þar koma við sögu sóknarnefndir, prestar, djáknar, kirkjuverðir, meðhjálparar, hringjarar, organistar, kórar, kvenfélög, ræstitæknar, já þau fjölmörgu sem leggja kirkju sinni lið, eru alltaf til staðar, jafnt á skipulögðum athöfum og viðburðum og þegar óvæntir atburðir koma upp, oftar en ekki þegar vá steðjar að eða annað sem krefst þess að fólk komi saman.

Þá er það þjóðkirkjan sem kallar saman með engum fyrirvara enda er hún eins og björgunarsveitirnar, alltaf reiðubúin þegar kallið kemur.“

Þá vék hún að ófriðnum í heiminum og sagði:

„Það er átakanlegt að vita af aftöku saklausra borgara í nokkrum löndum heims, bæði í okkar heimshluta og annars staðar.

Margir óttast að ófriðurinn og óhugnaðurinn breiðist út, einkum fyrir botni Miðjarðarhafs og er það skelfileg tilhugsun.

Það er ólga í heiminum í dag.

Hryðjuverk eru yfirvofandi í mörgum Evrópulöndum og víðar og hvern hefði órað fyrir því að hér á landi gengju einhverjir með hnífa og byssur á sér og beittu þeim vopnum, jafnvel á saklausa borgara?“

Og þá vék hún aftur að traustinu:

„Trú er traust.

Trú á Guð er að treysta Guði.

Þó allt bregðist í þessum heimi okkar þá megum við treysta því að Guði er treystandi til að standa við það sem hann sagði, að hann skyldi vera með okkur alla daga.

Það mikla kraftaverk, upprisan sjálf er forsenda þess að kynslóð eftir kynslóð hefur fólk treyst þeim Guði sem Jesú birti og boðaði.

Treyst þeim sem birtist eftir upprisu sína.

Treyst þeim sem sagðist hafa allt vald á himni og á jörðu.

Treyst og trúað, allt til þessa dags.

Treyst því og trúað því að lífið hefur tilgang.

Að lífinu lýkur ekki við líkamsdauðann.

Að hann sé með okkur alla daga, allt til enda veraldar.“

 

Að lokum minntist biskup á erfiðar aðstæður Grindvíkinga og sagði:

„Í erfiðum aðstæðum vonum við það besta.

Við hugsum til Grindvíkinga sem hafa þurft að fara af heimilum sínum og vita ekki hvenær mannlífið og atvinnulífið í bænum kemst í eðlilegt horf.

Á meðan gefur vonin djörfung og dug og allir sem að koma leggja sig fram um að standa vaktina með þá von í brjósti að fyrr en síðar sjái fyrir endann á þessu óvissuástandi.

Megi vonin vera haldreipi Grindvíkinga sem og annarra sem búa við óvissuástand.

Að eiga von.

Það er það sem trúin færir okkur, því trúin og vonin eru systur.

Treystum því að við fáum að lifa í von og trú með kærleikann að vopni í víðsjárverðum heimi, Guði til dýrðar og okkur mannfólkinu til blessunar.

Gleðilegt, farsælt og blessunarríkt nýtt ár, í Jesú nafni.“

 

Nýjárspredikunina má lesa í heild sinni hér.

Jólapredikun biskups Íslands í Ísafjarðarkirkju, sem sjónvarpað var á aðfangadagskvöld má lesa hér.

Jólapredikun biskups Íslands, sem flutt var í Hafnarfjarðarkirkju og sjónvarpað var á jóladag má lesa hér.

 

slg


  • Guðfræði

  • Kirkjustarf

  • Messa

  • Sóknarnefndir

  • Þjóðkirkjan

  • Biskup

  • Kærleiksþjónusta

  • Leikmenn

  • Prestar og djáknar

  • Hjálparstarf

Sr. Guðmundur og sr. Guðrún.jpg - mynd

Fyrri umferð biskupskosninga lokið

16. apr. 2024
...kosið verður á milli sr. Guðmundar Karls og sr. Guðrúnar
Frá Presta- og djáknastefnunni 2023 í Grensáskirkju

Presta- og djáknastefnan 2024 sett á morgun

15. apr. 2024
...í Stykkishólmi