Prédikun nýjársdag 2024

Prédikun nýjársdag 2024

Jesús Kristur. Með þér viljum við byrja þetta nýja ár og taka á móti því sem það færir okkur af gleði og af sorgum.

Prédikun nýjársdag 2024.  4. Mós. 6:22-27; Post. 10:42-43; Jóh. 2:23-25. 

Við skulum biðja:

Jesús Kristur.  Með þér viljum við byrja þetta nýja ár og taka á móti því sem það færir okkur af gleði og af sorgum.  Þar sem þú ert víkur óttinn og óvissan.  Lát hið nýja ár verða náðarár þar sem við lifum af gæsku þinni og gefum hana öðrum.  Dýrð sé þér Drottinn.  Amen.

Stólvers???????????

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.  Amen.

Gleðilegt ár kæru áheyrendur og þakkir fyrir það sem liðið er. 

Hverju treystum við?  Hverjum treystum við?  Þetta eru spurningar sem koma upp í hugann þegar textar nýjársdags eru til umfjöllunar.  Traust er mikilvægt í mannlegum samskiptum og traust er mikilvægt til þess að líða vel í dagsins önn. 

Þegar eitthvað bregst eða einhver bregst missum við traustið.  Það er sýnilegt í okkar samfélagi og víðar um veröld að skortur á trausti er til staðar.   Árlega eru gerðar kannanir sem sýna traust til stofnana og eru margar opinberar stofnanir þar á blaði sem njóta sífellt minna trausts en áður.  Ástæðurnar geta verið margar, sumar væntanlega vegna slæmrar reynslu af samskiptum við þær, enn aðrar vegna neikvæðrar umræðu í samfélaginu um menn og málefni.  Ástæðurnar geta verið margvíslegar.

Þjóðkirkjan er ein þeirra stofnana sem illa hafa komið út úr könnunum síðast liðin ár.  Út af fyrir sig má hafa skiptar skoðanir á því hvort þjóðkirkjan er stofnun eða ekki.  Kannanir sýna að  hin eiginlega þjóðkirkja eins og ég kalla það, sem er fólkið sem ann sinni sóknarkirkju, þykir þjónusta og nærvera kirkju sinnar og prestanna og annarra sem eru þar í forsvari býsna góð og nauðsynleg í nærsamfélaginu.  Ekki er þar að sjá að neikvæðni eða skortur á trausti séu þar ofarlega á blaði. 

Þjóðkirkjan er samheiti yfir þau sem tilheyra henni.  Þjóðkirkjan er samheiti yfir sóknir landsins og söfnuði.  Hver sókn er sjálfstæð og vil ég þakka sérstaklega þeim fjölmörgu sem hlúa að sinni kirkju og sinna þjónustu við hana fyrir afburða farsælt starf og elskusemi í garð trúar og kirkju.  Þar koma við sögu sóknarnefndir, prestar, djáknar, kirkjuverðir, meðhjálparar, hringjarar, organistar, kórar, kvenfélög, ræstitæknar, já þau fjölmörgu sem leggja kirkju sinni lið, eru alltaf til staðar, jafnt á skipulögðum athöfum og viðburðum og þegar óvæntir atburðir koma upp, oftar en ekki þegar vá steðjar að eða annað sem krefst þess að fólk komi saman.  Þá er það þjóðkirkjan sem kallar saman með engum fyrirvara enda er hún eins og björgunarsveitirnar, alltaf reiðubúin þegar kallið kemur. 

Þjóðkirkjan er í samstarfi við fjölda fólks og samtök sem treysta henni fyrir faglegum vinnubrögðum.  Má þar nefna samráðsvettvang áfallamála á landsvísu.  Enda hefur hún á að skipa öflugu fagfólki hringinn í kringum landið.  

„Kirkjan er oss kristnum móðir“ orti Helgi Hálfdánarson.  Vissulega er kirkjan athvarf kristins fólks um allan heim.  Þó henni sé stýrt af fólki sem hefur verið kallað til þeirrar þjónustu er hún miklu stærri og öflugri heldur en þeir einstaklingar sem leiða hana hér á jörð.  Kirkjan bendir á Jesú Krist sem kom í heiminn í barninu Jesú og honum fylgjum við og honum skulum við treysta um fram allt. 

Kirkjan starfar í heimi þar sem margt má betur fara.  Í fréttaskýringaþættinum Heimskviður sem sendur var út viku fyrir jól var spurt hvort sundrung eða samstaða yrði í heimsmálunum á þessu nýbyrjaða ári.  Það er átakanlegt að vita af aftöku saklausra borgara í nokkrum löndum heims, bæði í okkar heimshluta og annars staðar.  Margir óttast að ófriðurinn og óhugnaðurinn breiðist út, einkum fyrir botni Miðjarðarhafs og er það skelfileg tilhugsun.  Það er ólga í heiminum í dag.  Hryðjuverk eru yfirvofandi í mörgum Evrópulöndum og víðar og hvern hefði órað fyrir því að hér á landi gengju einhverjir með hnífa og byssur á sér og beittu þeim vopnum, jafnvel á saklausa borgara?  Í viðtölum við fólk sem flutst hefur hingað til lands kemur oft fram að foreldrar vilji ala börnin sín upp í friðsömu landi.  Við skulum vona og biðja þess að landið okkar verði áfram friðsælt og öruggt.  Getum við treyst því?

Traust.  Þetta lykilorð í mannlegum samskiptum er forsenda þess að jafnvægi ríki, að réttlæti ríki og að við getum lifað friðsömu lífi.   Traust manna á milli er forsenda vináttu.  „Traustur vinur er örugg vörn, finnir þú slíkan áttu fjársjóð fundinn.  Traustur vinur er verðmætari öllu, á engan kvarða fæst gildi hans metið“ segir í Síraksbók.

Trú er traust.  Trú á Guð er að treysta Guði.  Þó allt bregðist í þessum heimi okkar þá megum við treysta því að Guði er treystandi til að standa við það sem hann sagði, að hann skyldi vera með okkur alla daga. 

Í guðspjalli nýjársdags heyrðum við um viðbrögð viðstaddra þegar Jesús breytti vatni í vín í brúðkaupsveislu einni.  Hann vissi sem var að gleðin skyldi ríkja í lífi okkar því trúuðu fólki er eins og öðru fólki leyfilegt að gleðjast og vera hamingjusamt.  Næst segir frá honum í musterinu þar sem hann benti sölumönnum og víxlurum á að musterið sem Jesús nefnir hús föður síns, að þeir ættu ekki að gera það að sölubúð.  Þar sýndi hann aðra hlið en í brúðkaupsveislunni en undirtónninn er hinn sami því hann sýndi í báðum tilfellum að hann hafði vald til að gera kraftaverk og taka til í huga og hjarta fólks.

Hvernig dirfðist hann að gera þetta?  Hvernig gat hann þetta?  Nú krafðist fólkið kraftaverka sem sannaði að hann væir sá sem koma skyldi og beðið hafði verið eftir um aldir.  Stuttu seinna stóð efst á krossinum sem hann hékk á.  Jesús Kristur, konungur Gyðinga.  Það mikla kraftaverk sem varð sýnilegt eftir það, upprisan sjálf er forsenda þess að kynslóð eftir kynslóð hefur fólk treyst þeim Guði sem Jesú birti og boðaði.  Treyst þeim sem birtist eftir upprisu sína.  Treyst þeim sem sagðist hafa allt vald á himni og á jörðu.  Treyst og trúað, allt til þessa dags.  Treyst því og trúað því að lífið hefur tilgang.  Að lífinu lýkur ekki við líkamsdauðann.  Að hann sé með okkur alla daga, allt til enda veraldar. 

En hvernig í ósköpunum getum við treyst því að allt fari vel, þegar vextir hækka og afborganir lána hækka sem margir eru að sligast undan.  Þegar matvara hækkar svo mjög að fleiri og fleiri hafa ekki efni á því að kaupa nauðsynjar.  Þegar jörð skelfur og eldar loga úr iðrum jarðar.  Þegar daglega berast fréttir af aftöku saklausra borgara.  Þegar afleiðingar loftslagsbreytinga valda flóðum og ofsaveðri.  Þegar börn eru munaðarlaus víða um heim.  Þegar fullorðnir og börn eru seld eins og hver annar hlutur.  Þegar kvíði sækir á sálina.  Þegar allt virðist mótdrægt í lífinu.

Þá skulum við taka þann á orðinu sem vissi hvað í manni býr eins og kemur fram í guðspjalli dagsins.  Jesús þekkir okkur hvert og eitt.  Hann veit hvers við þörfnumst.  Sé það okkar vilji að breyta lífinu og bæta það þá er hann með okkur í liði.  Það býr í okkur vilji til að vera góðar og gegnar manneskjur.  Það býr í okkur vilji til að vera öðrum góðar fyrirmyndir.  Það býr í okkur vilji til að hafa áhrif á samtíma okkar ef okkur finnst eitthvað betur mega fara.  Bænin sem svo margir kunna um æðruleysið, kjarkinn og vitið,  er gott fyrsta skref til að breyta því sem við viljum breyta.

Guð gefi mér æðruleysi til þess að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt, kjark til að breyta því sem ég get breytt og vit til að greina þar á milli.

Við þekkjum mörg söguna um húsin tvö.  Annað sem byggt var á sandi og hitt sem byggt var á bjargi.  Húsið á sandinum féll við rigningarúrhellið en húsið á bjarginu stóð.  Jesús er bjargið sem við höfum leyfi og tækifæri til að byggja líf okkar á.  Við megum því treysta því að hann gengur okkur við hlið, gefur okkur tækifæri til að láta gott af okkur leiða.  Gefur okkur styrk í þraut.  Gefur okkur kjark til að mæta hinu óþekkta.  Gefur okkur nýja sýn á lífið þannig að við sjáum allt bjartar og betur eins og þegar við setjum upp gleraugu sem passa við sjón okkar. 

Við skulum því mæta hinu nýja ári í trausti til þess Guðs sem Jesús birti okkur og boðaði.  Með þá trú í hjarta að við getum gert það sem í okkar valdi stendur til að bæta og fegra mannlífið.  Við skulum treysta þeim sem dó á krossi og reis upp og gefur okkur hlutdeild í upprisu sinni.  Trúnni fylgir von, en vonin er það síðasta sem frá okkur er tekið.

Í erfiðum aðstæðum vonum við það besta.  Við hugsum til Grindvíkinga sem hafa þurft að fara af heimilum sínum og vita ekki hvenær mannlífið og atvinnulífið í bænum kemst í eðlilegt horf.  Á meðan gefur vonin djörfung og dug og allir sem að koma leggja sig fram um að standa vaktina með þá von í brjósti að fyrr en síðar sjái fyrir endann á þessu óvissuástandi.  Megi vonin vera haldreipi Grindvíkinga sem og annarra sem búa við óvissuástand.

Að eiga von.  Það er það sem trúin færir okkur, því trúin og vonin eru systur.  Í bréfi sem Jeremía spámaður sendi til þeirra sem voru í útlegð frá Jerúsalem til Babýlon á sjöundu öld fyrir Krist talar hann fyrir munn Drottins og segir við fólkið í útlegðinni:  „Því að ég þekki sjálfur þær fyrirætlanir sem ég hef í hyggju með yður, segir Drottinn, fyrirætlanir til heilla en ekki til óhamingju, að veita yður vonarríka framtíð.“

Treystum því að við fáum að lifa í von og trú með kærleikann að vopni í víðsjárverðum heimi, Guði til dýrðar og okkur mannfólkinu til blessunar

Gleðilegt, farsælt og blessunarríkt nýtt ár, í Jesú nafni.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda.  Amen.

Takið postullegri kveðju:

Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé með yður öllum.  Amen.