Blár mars í Bústaðakirkju

6. mars 2024

Blár mars í Bústaðakirkju

Bústaðakirkja í Fossvogsprestakalli - mynd: hsh

Bústaðakirkja mun taka þátt í Bláum mars, Mottumars, að þessu sinni.

Að sögn sr. Þorvslds Víðissonar prests í Fossvogsprestakalli þá mun helgihaldið sunnudaginn 10. mars bera keim af því.

„Barnamessan verður á sínum stað kl. 11:00 og guðsþjónustan kl. 13:00.

Tónleikar Kammerkórs Bústaðakirkju fara síðan fram kl. 15:00, þar sem er ókeypis aðgangur, en allir sem vilja fá tækifæri til að styrkja árveknisátak Krabbameinsfélagsins, Mottumars, með fjárframlagi eða með því að kaupa Mottumars sokka“ segir sr. Þorvaldur.

Í messunni kl. 13:00 flytur Róbert Jóhannsson ávarp um reynslu sína, en hann er umsjónarmaður Strákakrafts, stuðningshóps ungra karla sem greinst hafa með krabbamein.

Gréta Hergils syngur einsöng í messunni og frumflutt verður ljóðið Kærleikur og friður eftir Sigurbjörn Þorkelsson.

Sr. María G. Ágústsdóttir sóknarprestur í Fossvogsprestakalli þjónar í messunni ásamt messuhópi, Jónasi Þóri organista og Kammerkór Bústaðakirkju.

Mottumars er árlegt árveknisátak Krabbameinsfélagsins í baráttunni gegn krabbameini hjá körlum, litur átaksins er blár.

Á tónleikum Kammerkórs Bústaðakirkju sem hefjast kl. 15:00 á sunnudaginn flytur Kammerkórinn fjölbreytta tónlist, meðal annars lög eftir stjórnanda kórsins, Jónas Þóri, sem er organisti Bústaðakirkju.

Einsöngvarar eru úr röðum kórsins, þau Edda Austmann Harðardóttir, Gréta Hergils Valdimarsdóttir, Bjarni Atlason, Jóhann Friðgeir Valdimarsson og Sæberg Svavarsson.

Milli messu og tónleika verður hægt að setjast niður og spjalla yfir kaffibolla og meðlæti í safnaðarheimili kirkjunnar.

 

slg


  • Kirkjustarf

  • Messa

  • Prestar og djáknar

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Tónlist

  • Trúin

  • Kirkjustaðir