Upprisan gegn hryðjuverkum

Upprisan gegn hryðjuverkum

Ef hefndin og hatrið eru samofin skynseminni, þá er upprisa Jesú Krists afar óskynsamleg á mannamáli nútímans. En ekki samkvæmt viðbrögðum almennings í Svíþjóð við hryðjuverkum, þar sem fólkið tók bókstaflega höndum saman um að elska hvert annað og rækta vonina í stað þess að hata með hefndinni og heimta heilagt stríð

Gleðilega hátíð, Það eru ákveðin skilaboð sem kirkjan sendir með því að boða til helgihalds snemma á páskadagsmorgni. Við erum í fótsporum hinna þriggja kvenna, Maríu Magdalenu, Maríu, móður Jakobs og Salóme sem komu að gröf Jesú mjög árla hinn fyrsta dag vikunnar, um sólarupprás, eins og segir í guðspjallinu. Hér er nakvæmlega kveðið að orði og með því að nafngreina konurnar verður frásögnin persónuleg. Einnig er nafngreindur í guðspjöllunum, sá sem tók að sér að sjá um greftrun Jesú og hét Jósef frá Arimaþeu.

Öllum guðspjöllunum fjórum ber saman um atburðarásina. Jesús var krossfestur á föstudaginn langa og reis upp frá dauðum á þriðja degi, fyrsta degi vikunnar. Þess vegna er sunnudagur hvíldardagur í löndum sem kenna sig við kristni, en laugardagur í gyðingdómi og hvíldardagur múslima er föstudagur. Þannig sækir menningin í trúarbrögðin um siði sína og venjur.

Sameiginlegt með guðspjöllunum er áhersla á nákvæmni í frásögninni af atburði páskadagsmorguns. Píslarsagan er til í heimild sem rituð var innan við fimm árum eftir upprisuna og stuðst við í helgihaldi frumsafnaðarins í Jerúsalem. Þessa heimild má greina í Markúsarguðspjalli og er elst samstofnaguðspjallanna þriggja sem eru skrifuð innan við 40 árum eftir upprisuna og einnig fyrir fólk sem hafði verið á vettvangi og fylgst með atburðum.

Á þeim tíma voru kristnir ofsóttir og létu lífið fyrir trú sína. Öllu afli var beitt til að þagga niður orðróminn um upprisu Jesú Krists. Og enn er efast og afli beitt til að þagga niður. Þá er gjarnan höfðað til skynseminnar með því að maðurinn sé orðinn svo fullkominn af vitii sínu, að upprisa Jesú Krists samræmist ekki náttúrulegum lögmálum.

Nú kunna margir sögur af atburðum eða hafa reynt í lífi sínu sem ekki samræmast náttúrulegum lögmálum. Tæpast getur skynsemin fullyrt að vitið kunni að greina og skilja allar þær rúnir sem lífið geymir. Það er marslungnara en svo að þar sé allt þekkt og ljóst. Og gildir um sannleiksgildi liðinna atburða, að þeir verða sjaldnast endurteknir aftur nákvæmlega eins og hvíla því í minningum, frásögnum og reynslu.

Það á við um upprisu Jesú Krists frá dauðum á páskadagsmorgni sem var einstakur atburður. Við leitum fanga í frásagnir guðspjallanna og vitnisburði samtímaheimilda sem birtast t.d. í bréfunum í Nýja testamenntinu sem sum hver eru eldri en guðspjöllin.

En um sannleikisgildið reynir ekki síður á trú og reynslu. Hvaða reynslu hef ég af kristinni trú? Hvernig er sambandi mínu háttað við Guð? Treysti ég Guði?

Líklegt er að þau efist sem enga reynslu hafa af samfélagi með Guði og ætla að meta sannleiksgildi upprisunnar eingöngu út frá frásögnum guðspjallanna. Það gildir ekki aðeins fyrir frásagnir Biblíunnar, heldur atburði sem undrun vekja og ekki eru í samræmi við viðtekna mælikvarða. Athygli vekur hve orðið kraftaverk kemur oft fyrir í fyrirsögnum fjölmiðla nú á tímum.

En svo liggur ljóst fyrir, og mannkynsagan hefur skráð skírum stöfum, að enginn atburður hefur valdið meiru en upprisa Jesú Krists. Og þarf ekki aðeins að líta til mannkynssögunnar um það, heldur horfa í eigið líf og þjóðar um áhrif kristni á menningu okkar og lífshætti.

Þar er upprisan þungamiðjan með áherslu á að elska náungann. Þar blómgast miskunnsemin. Þar þroskast samúðin með þeim sem eiga um sárt að binda. Og þar nærist vonin á hið góða og fagra sem gefst ekki upp gegn ilskunni og óréttlætinu. Þetta er gildismatið sem hefur nært þjóðlífið í nágrannalöndum okkar um aldir. Það er athyglisvert að sjá og reyna hvernig þetta gildismat mótar viðbrögð við skelfilegum hryðjuverkum sem nú síðast urðu í miðborg Stókkhólms. Þar var ekki hrópað á hefnd og krafist að fara í heilagt stríð. Þar var kallað til samstöðu og samúðar þar sem vonin er í fyrirrúmi um að elska og rækta fagurt mannlíf, láta ekki bugast, gefast ekki upp við að byggja réttlátt og frjálst þjóðfélag.

Við látum ekki hryðjuverk kúga okkur til hlýðni og stjórna gjörðum okkar. Við treystum á vonina og höldum áfram í kærleikans nafni og boðum frið í fótsporum Jesú Krists sem aldrei neytti aflsmunar með ofríki haturs til að ná sínu fram. Þessi viðbrögð eru ekki sjálfgefin og mjög ólík þeim sem gjarnan berast frá mörgum löndum í sömu aðstæðum. Hvað veldur? Er það tilviljun að þessi viðbrögð eru einmitt í samræmi við boðskapinn sem Biblían boðar í upprisu Jesú Krists frá dauðum? Það þarf ekki sérfræðinga til að sjá það. Þar dugar að beita skynsemi og náttúrulegum vísindum.

Jesús Kristur, Guð á jörð, var tekinn til fanga, dæmdur saklaus af mönnum til að deyja á krossi. Það átti að útrýma Guði með valdi mannsins. Er þetta ekki einmitt formúlan sem hefur verið beitt skefjalaust í gegnum aldirnar, að beita hefndinni með hatrinu, fórna þess vegna saklausu lífi til að ná fram vilja sínum og skeyta engu um afdrif almennings? Er þetta ekki einmitt að gerast núna í Sýrlandi og víðar um jörð? Er það skynnsemi mennskunnar sem ræður þar för samkvæmt náttúrlegum lögmálum? Ef hefndin og hatrið eru samofin skynseminni, þá er upprisa Jesú Krists afar óskynsamleg á mannamáli nútímans. En ekki samkvæmt viðbrögðum almennings í Svíþjóð við hryðjuverkum, þar sem fólkið tók bókstaflega höndum saman um að elska hvert annað og rækta vonina í stað þess að hata með hefndinni og heimta heilagt stríð.

Nákvæmlega eins og upprisan boðar. Það datt engum upprisa eða kærleikur í hug á föstudaginn langa á Golgata. En svo var gröfin tóm á páskadagsmorgni og boðin innan úr gröfinni sögðu konunum, að Jesús er upprisinn. Þetta kom þeim algjörlega í opna skjöldu og urðu svo hræddar að flúðu í ofboði frá gröfinni.

Guð getur bruigðist við öðruvísi en skynsemi og rökvísi mannsins reiknar út. Í stað þess að hefna og boða heilagt stríð, þá er kærleikurinn settur í öndvegi, að elska náungann og hlúa að því sem göfgar lífið. Þannig varð upprisan að ljósi sem umvefur vonina. Og þetta ljós þráir að lýsa. Upprisan er von hér og nú. Von sem stendur gegn hefndinni og hatrinu sem hefur valdið svo mörgum hörmungum um aldirnar og gerir enn. Von sem setur lífsrétt hvers einasta manns í forgang. Von sem þráir réttlæti um að fólkið deili kjörum saman af sanngirni. Von sem elskar.

Um þetta sannleiksgildi upprisu Jesú Krists verður ekki efast. En verður dauður bókstafur ef ekki er um það staðið traustan vörð. Það er á mannsins valdi að velja.

Gildismat upprisunnar hefur verið hornsteinn í sið íslenskrar menningar. Um það hafa lögin vitnað og siðirnir í þjóðlífinu. Nú er sumum kappsmál að veikja slíka hornsteina.

Hornsteinar trúarinnar standa ekki af sjálfu sér heldur fyrir rækt og virðingu. Trúin og boðskapur hennar eru alltaf hvort tveggja í senn einkamál og samfélagsmál. Trúnni verður aldrei eytt úr vitund mennskunnar. Heldur er spurt: Á hvað trúum við og hverju treystum við? Hvar er uppspretta þeirra gilda sem þjóð sameinast um að byggja velferð sína og siðrænt gildismat? Það hefur verið kristinn siður á Íslandi samkvæmt lútherskri hefð eins og í nágrannalöndum okkar. Nú er þess minnst, að 500 ár eru síðan Marteinn Lúter setti kröfur sínar upp á kirkjudyr Dómkirkjunnar í Wittenberg í Þýskalandi og leiddi síðar til menningarbyltingar hér á landi og hafði meiri áhrif í þjóðlífinu en nokkurt annað í aldanna rás og gerir enn.

Þar var upprisa Jesú Krists í miðju eins og ákall til verka. Enn ómar þetta ákall um kærleika og von. Þar er Guð að verki, en okkar að velja. Það er frelsi mannsins. Í Jesú nafni Amen.