Merkjavörur og strikamerki mennskunnar

Merkjavörur og strikamerki mennskunnar

Fólk merkir sig oft með fötum. Merkjavörur eru merkilegar en eiga ekki að skilgreina gildi okkar og eðli. Við erum Guðs börn en ekki merkjabörn. Jesús Kristur hafði margt að segja um strikamerki mennskunnar.

Calvin Klein, Dolce&Gabana og Burberry eru ekki bara fyrir fullorðna. Nei, þessi og flest – ef ekki öll - stóru tískufyrirtækin hafa beint sjónum að börnum líka. Börn eru orðin markaður, þau eru orðin tískudindlar. Tískufrömuðir veraldar hefur uppgötvað að hægt er líka að selja dýra tískuvöru fyrir börnin. Þau sjá það sem krakkarnir í leikskólanum klæðast og vilja eins. Þau sjá auglýsingarnar í sjónvarpinu - eiginlega óhugnanlega vel - þekkja merkin þegar þau ganga fram hjá búðinni í Kringlunni eða eru á ferð í bíl með pabba og mömmu. “Ég vil líka svona” kemur skilvíst frá þeim.

Það er ekki aðeins að óskir eða kröfur komi frá börnunum, heldur eru sumir foreldrar jafn meðvitaðir um stíl barna sinna og varðandi innréttingu í eldhús eða bað. Börn verða í sumum tilvikum jafnvel hluti af merkjasendingum fólks útavið. Skilaboðin eru: “Svona er ég, svona erum við, þetta er okkar staða, svona strikamerkjum við okkur í heiminum.”

Börn fara æ meira í búðir, hafa áhrif á hvað er keypt og hafa oft mjög sterkar skoðanir. Æ yngri börn fara ein í búðir til að kaupa sér eitt og annað og fötin eru meðal þess. Þegar við kíkjum í fataskápa barnanna í hverfinu er megnið af þeim góð, vönduð föt og yfirleitt með sýnilegu vörumerki.

Merki, börn og skilgreining Rannsóknir sýna að fjögurra ára gömul börn þekkja meira en tvö hundruð logo og þegar börn fara að nálgast fermingaraldurinn vilja þau bara klæðast merkjavöru. Yfir 90% barna á þeim aldri klæðist aðeins fötum með vel sýnilegu frægu eða viðurkenndu fatamerki. Merkin skipta miklu máli og einu gildir þótt mest af þessum fötum sé framleitt í Kína eða einhverju láglaunalandi. Börn biðja ekki um buxur heldur kemur merkið fyrst, Spidermanbuxur, Adidasbuxur, Nikebuxur. Og eins er það með peysur og raunar flest annað –merkið, tegundin, gerðin er aðalatriðið.

Stóru og þekktu tískufyrirtækin hafa hellt sér út í barnabransann, t.d. Armani, Hugo Boss, Gucci, DKNY. Kannski er tískuheimurinn að breytast í eins konar afleggjara átrúnaðar. Alla vega þótti mér markvert þegar ég rakst á barnaföt af gerðinni True Religion. Sönn trú, sannur átrúnaður – og þetta voru venjuleg barnaföt og ég efast um að þau auki trúarhita eða elskugetu barnanna sem þeim klæðast.

Fötin í Hjallanum Já, föt skilgreina en þegar þau eru orðin afgerandi túlkun á mennskunni eru þau þar með trúarlegt viðfangsefni og varða kirkju og Jesú Krist. Ég á tvo stráka, tvíbura. Þeir byrjuðu í fimm ára bekk í Barnaskóla Reykjavíkur nú í haust. Skólinn er einn af Hjallastefnuskólnum og er við vesturrætur Öskjuhlíðar.

Fatamál í fimm ára bekk eru flóknara mál en mig hafði órað fyrir. Við, foreldrarnir, erum sæl með skólann, starfsfólkið og starfshættina. Drengirnir eru mjög kátir og hlakka til hvers dags og koma fylltir heim að loknum vinnudegi. Þeir læra ekki bara þetta venjulega að lesa og reikna, heldur líka dönsku, spænsku, ensku, jóga, heimspeki og sund o.fl. Þetta er fimm ára bekkur! Skólahættirnir eru allir skipulegir og markmiðin skýr. Reynt er að vinna með hið einstaklingslega og efla sjálfstæði.

Þegar komið er inn í skólann sést merkjasúpa tískuheimsins ekki í fataklefanum. Þar eru aðeins tveir litir á fötum barnanna, blár og rauður. Öll börn í skólanum eru í skólafötum. Þessi skóli sem leggur áherslu á þroska hefur sem sé útrýmt merkjavöru annarri en fötum merktum Hjallastefnunni.

Annar stráka minna hefur alla tíð verið mjög dugmikill fatakall. Hann brýtur sjálfur fötin sín heima, setur í skúffur, velur búning dagsins, er upptekinn af útliti, setteringum og sniði. Svo stendur hann fyrir framan spegilinn og spyr sposkur: “Er ég ekki flottur?” Foreldrarnir furða sig og velta vöngum yfir hvaðan þetta kemur. Og svo segir vinkona þeirra bræðra, leikskólakennari sem kenndi þeim í nokkur ár, að hún hafi aldrei, hvorki fyrr eða síðar, orðið vitni að annari eins getu til fataleikja eins og deild þeirra bræðra þróaði. Fataskipti, tilraunir með að rugla fötum barnanna endaði með að það var hreinn höfuðverkur leikskólafólksins að sortera áður en börnin fóru heim!

En nú er drengurinn kominn úr fatafjölbreytni leikskólans í skólabúning. Og þá reynir á. Hvernig á maður að leika sér með mismunandi útgáfur innan mjög þröngs ramma? En auðvitað munu útsjónarsamir bjarga sér, líka í öguðum aðstæðum. Þá er hægt að leika sér með sokka, buff, viðbótarhluti, nú eða þá bara búa til setteringar sem enginn sér, í nærfötunum! Hjallastefnan er ágætt innlegg í stærri hjalla, sem sé fjallalíf kristninnar eins og hún birtist í Fjallræðunni. Leyfum fötunum að vera það sem þau eru. Hindrum ekki þroskann.

Mennskan skilgreind Falleg föt eru dýrmæti í veröldinni og gera lífið skemmtilegt. Föt eru mikilvæg – ekki bara sem kuldavörn. Þau tjá mikilvægar víddir og leið huga að ýmsu merkilegu. Hafið því engar áhyggjur, ég er ekki að gagnrýna fallegu Armanifötin á sautjánda bekk! Nei, markmið þessara orða er aeðins að ekki eigi að rugla saman tæki og markmiði. Föt eiga ekki að skilgreina manninn heldur öfugt. Jafnvel börnin tjá með fatasókn sinni þær djúprættu eigindir að ásýnd skipti máli, form og litir. En svo getur orðið til og hefur orðið til aðgreiningarkúltúr í samfélagi ríkidæmisins. Merkin geta verið hjálp við að velja og flýta fyrir því fólk gengur að gæðum vísum hjá ákveðnum framleiðendum. En merkjavitund getur breyst í merkjasókn, sem er annað og verra mál en afstaða til gæða og vöndunar. Merkjasókn getur orðið sýndarsókn – ástríða til ásýndar. Hið ytra fer þá að skipta meira máli en hið innra. Lúkkið skiptir þá jafnvel öllu og skilgreinir hvað maður er, hvernig maður er og til hvers. Sem sé, sýndin verður þá eðlið, ásýnd verður inntak mennskunnar ( í öðru og eldra samhengi var sagt: The media is the message).

Munum hvernig menn mótast. Hvernig verðum við til sem mannverur? Oft hef ég sagt í þessari kirkju að við fæðumst nakin og íklæðumst mennsku okkar í menningunni. Föt okkar eru ekki aðeins til að klæða kroppinn, heldur eru mikilvægustu og dýrlegustu föt okkar hin menningarlegu. Þau klæði eru siðferði, þroski, viska, trú, listin – já allt þetta sem varðar dýptina í menningu og sál.

Við verðum til með því að læra af okkur eldra fólki, í skólum, í kirkjunni, á heimilum, á leikvöllum, í leikhúsum, af sögum, samtölum, í vinnu og í ritúölum samfélagsins. Við lærum hlutverk og fáum inntak í samskiptum. Vefur menningarinnar er sá textíll sem hægt er að búa til úr föt sálar og mennsku. Í þeim fötum getum við orðið heil og hamingjusamar mannverur.

En þegar merkjavara fer að skilgreina hlutverk og mennsku er hætt við að fólk sem verður til í slíku merkajauppeldi fari á mis við mótun sem ristir í raun mun dýpra en sýnd merkjanna. Reynsla kynslóða og fræða er að slíku yfirborðsfólki hættir til þunglyndis. Kostnaður sýndarmála er gjarnan depurð.

Fjallaræðan og Jesúlífið Guð elskar fjölbreytileika og fegurð - það tjáir Biblían, sköpunin og kristnin. Jesús var augljóslega næmur, líka á föt og ásýnd. Ræður hans tjá sterkt fegurðarskyn. Guðspjall dagsins, í frægustu ræðu veraldar, Fjallræðunni, ber næmni og visku hans vitni. Jesús segir þar: “Og hví eruð þér áhyggjufullir um klæði? Hyggið að liljum vallarins, hversu þær vaxa. Hvorki vinna þær né spinna. En ég segi yður: Jafnvel Salómon í allri sinni dýrð var ekki svo búinn sem ein þeirra.”

Já, Salómon hefur verið merkjakall sinnar tíðar. Gyðingar hafa sagt sögur af þeim tískulauk sem Jesús gat síðan notað sem vísun. Fötin skipta máli, en fegurðin er dýpri. Blómin sem við höfum fyrir augum taka fram öllu því sem saumastofur heimsins framleiða, því sem mennirnir merkja okkur með.

Fjallræðutextin varðar hlýðni við Guð. Við megum slaka á og útiloka heimsáhyggju og búksorgir. Textinn hefst með ómöguleika hinnar tvískiptu þjónustu – við getum ekki bæði þjónað Guði og efnishyggjunni. Síðan er fjallað um áhyggjur og hversdagssýsl, fæðu, drykk og klæði. Sterkar spurningar hljóma um hvort lífið sé ekki meira en fæðan og líkaminn meira en klæði. Jesús bendir á náttúruna, plöntur og fugla. Allt er vel búið í veröld Guðs og vel er fyrir öllu séð. Ekkert af því, sem Skaparinn hefur gert, er til lasts og ljóðs. Verið ekki áhyggjufull, verið ekki eins og heiðingjarnir. Leitið fyrst Guðsríkisins og réttlætisins og þá mun allt leysast. Hvernig eigum við að túlka þessa texta?

Jú, Jesús vill benda á hvað skiptir menn mestu máli. Hver er mennska þín, hverjar eru áherslur þínar? Hvað verður til að þú lifir sem best? Ekki hið ytra - ekki klæðin - verða til þess. Vitrir menn hafa um allir aldir vitað að hold er mold, hverju sem það klæðist. Jesús bendir á hið mikilvæga og hvetur okkur til að gangast við tilgangi okkar, djúpþránni, hinu eiginlega djúpmerki, vatnsmerki sálar okkar. Það er strikamerki eilífðarinnar, sem hann vill að við göngumst við.

Það kristnilíf sem sprettur upp úr Fjallræðunni er ekkert flóttalíf. Jesús kallaði og kallar ekki menn til einhverrar kimatilveru, inn í klaustur eða einhverja sérsveit fjarri fjöri lífsins. Við erum köluð til að lifa vel í hinu venjulega lífi.

Við erum ekki kölluð úr tengslum við annað fólk, heldur til þjónstu við fólk. Við erum ekki kölluð út úr heiminum, heldur til að hafa áhrif á heiminn. Við erum ekki kölluð út úr gildum samfélasgsins, heldur að breyta þeim gildum til meiri dýptar, breiddar og virkni. Við erum ekki kölluð aðeins til hins smáa heldur einnig til hins stóra og mikilvæga, sem kemur fram í hinu smáa eins og engjablómum.

Diesel, Tommy Hilfiger og Kenzo framleiða flott föt, líka fyrir börnin. En fötin skilgreina okkur ekki og mega ekki – frekar en annað í veröldinni – skilgreina mennsku okkar. Hún er mótuð af öðrum og til ákveðins samhengis og afstöðu. Strikamerki okkar er merki Guðs í djúpum okkar, vatnsmerki eilífðar sem kom við skírnalaugin og rímar við eðli okkar frá upphafi. Við erum ekki merkjabörn, heldur Guðs börn. Við megum gangast við því og þeim veruleika sem því tengist. Þá getur fagurfræðin orðið haldgóð, gagnrýnin á merkjasóknina orðið inntaksrík, fötin falleg en ekki alráð.

Veitum fegurð heimsins athygli, njótum hennar, förum vel með hana, fögnum gæðum og ásýnd, en fyrst og fremst í samhengi hins eiginlega, hins guðlega og þeirrar ábyrgðar sem því fylgir gagnvart börnum, uppeldi, hverju öðru, markaðaðskerfi heimsins og góðu siðferði. Jesúlífið er fyrir raunveruleikann en ekki sýndarveröld.

Amen.

15. sunnudagur eftir trinitatis: Textaröð A

Lexía: Jes 49.13-16a Lofsyngið himnar, fagna þú jörð, þér fjöll, hefjið gleðisöng því að Drottinn hughreystir þjóð sína og sýnir miskunn sínum þjáðu. En Síon segir: „Drottinn hefur yfirgefið mig, Guð hefur gleymt mér.“ Hvort fær kona gleymt brjóstbarni sínu að hún miskunni eigi lífsafkvæmi sínu? Og þó að þær gætu gleymt þá gleymi ég þér samt ekki. Ég hef rist þig í lófa mér.

Pistill: 1Pét 5.5c-11 „Guð stendur gegn dramblátum en auðmjúkum veitir hann náð“. Beygið ykkur því undir Guðs voldugu hönd til þess að hann upphefji ykkur á sínum tíma. Varpið allri áhyggju ykkar á hann því að hann ber umhyggju fyrir ykkur. Verið algáð, vakið. Óvinur ykkar, djöfullinn, gengur um sem öskrandi ljón, leitandi að þeim sem hann getur tortímt. Standið gegn honum stöðug í trúnni og vitið að bræður ykkar og systur um allan heim verða fyrir sömu þjáningum. En er þið hafið þjáðst um lítinn tíma mun Guð, sem veitir alla náð og hefur í Kristi kallað ykkur til sinnar eilífu dýrðar, sjálfur fullkomna ykkur, styrkja og gera ykkur öflug. Hans er mátturinn um aldir alda. Amen.

Guðspjall: Matt 6.24-34 Enginn getur þjónað tveimur herrum. Annaðhvort hatar hann annan og elskar hinn eða þýðist annan og afrækir hinn. Þér getið ekki þjónað Guði og mammón. Því segi ég yður: Verið ekki áhyggjufull um líf yðar, hvað þér eigið að eta eða drekka né heldur um líkama yðar, hverju þér eigið að klæðast. Er lífið ekki meira en fæðan og líkaminn meira en klæðin? Lítið til fugla himinsins. Hvorki sá þeir né uppskera né safna í hlöður og faðir yðar himneskur fæðir þá. Eruð þér ekki miklu fremri þeim? Og hver yðar getur með áhyggjum aukið einni spönn við aldur sinn? Og hví eruð þér áhyggjufull um klæðnað? Hyggið að liljum vallarins, hversu þær vaxa. Hvorki vinna þær né spinna. En ég segi yður: Jafnvel Salómon í allri sinni dýrð var ekki svo búinn sem ein þeirra. Fyrst Guð skrýðir svo gras vallarins sem í dag stendur en á morgun verður í ofn kastað, skyldi hann þá ekki miklu fremur klæða yður, þér trúlítil! Segið því ekki áhyggjufull: Hvað eigum vér að eta? Hvað eigum vér að drekka? Hverju eigum vér að klæðast? Allt þetta stunda heiðingjarnir og yðar himneski faðir veit að þér þarfnist alls þessa. En leitið fyrst ríkis hans og réttlætis, þá mun allt þetta veitast yður að auki. Hafið því ekki áhyggjur af morgundeginum. Morgundagurinn mun hafa sínar áhyggjur. Hverjum degi nægir sín þjáning.